Vegna umræðu um sameiningu Austurlands í eitt sveitarfélag

Vegna umræðu í Fjarðabyggð um sameiningu Austurlands í eitt sveitarfélag vill Fjarðalistinn koma eftirfarandi á framfæri:

 

ImageÁ aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í fyrrahaust var samþykkt að fela stjórn SSA að skipa starfshóp sem hefur það meginverkefni að fjalla um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna á starfssvæði SSA í eitt sveitarfélag.

Hópnum var falið eftirfarandi:

1. Að gera tillögur að stjórnkerfi nýs sameinaðs sveitarfélags.

2. Að leita eftir samvinnu við ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála um mögulega sameiningu.

3. Að kanna vilja ríkisvaldsins til sameiginlegrar stefnumörkunar um opinberar framkvæmdir og verkaskiptingu slíks sveitarfélags og ríkisvaldsins.

4. Að fjalla um þau áhrif sem tilkoma hins nýja sveitarfélags hefði í för með sér fyrir austfirskt samfélag með sérstakri áherslu á þau tækifæri sem sköpuðust.

Þessi samþykkt, sem gerð var á aðalfundi SSA sl. haust, var samþykkt samhljóða og fundinn sátu meðal annarra bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð. Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar skömmu eftir samþykkt tillögunnar bar Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð, upp tillögu um að Fjarðabyggð drægi fulltrúa sinn út úr umræddum starfshópi og hætti þátttöku í viðræðum um þetta verkefni. Tillaga Jens Garðars hlaut einungis eitt atkvæði, þ.e. atkvæði hans sjálfs. Hinir bæjarfulltrúarnir átta greiddu atkvæði gegn henni þar á meðal bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

Í svona málum, sem og öllum öðrum, er best að hafa það sem sannara reynist.

Hvað varðar afstöðu okkar á Fjarðalistanum í þessu máli er hún skýr og hefur margoft komið fram í okkar málflutningi:

Fjarðalistinn styður þátttöku Fjarðabyggðar í þessu verkefni en ítrekar um leið að frekari sameininga er ekki að vænta á næstu árum enda bíður okkar ærið verkefni að klára þær sameiningar sem þegar hefur verið farið í. Engu að síður lítur Fjarðalistinn svo á að hér sé um að ræða tímamótaverkefni, sem ekki á sér hliðstæðu á Íslandi. Því er mikilvægt að allir sem að því koma standi að því af metnaði og með vönduðum hætti og það væri hreint ábyrgðarleysi að draga fulltrúa sveitarfélagsins úr starfshópnum eins og Jens Garðar Helgason hefur lagt til. Þótt sameining Austurlands í eitt sveitarfélag sé ekki hyggileg nú getum við ekki útilokað að forsendur breytist á næstu árum og áratugum og við skuldum einfaldlega komandi kynslóðum að fara í þessa vinnu.

Höfundar skipa fjögur efstu sæti á Fjarðalistanum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.