Vegna fyrirhugaðrar lokunar Skólaskrifstofu Austurlands

Upp er komin sú undarlega og sorglega staða á Austurlandi, að bæjarstjórnir hafa tekið þá ákvörðun að loka þjónustu Skólaskrifstofu Austurlands. Með lokun Skólaskrifstofunnar er höggvið í það faglega og mikilvæga starf sem Skólaskrifstofan sinnir og komið í veg fyrir áframhaldandi faglegt starf við leik- og grunnskóla og farsælt samstarf við og milli skólana, sem verið hefur á Austurlandi í 24 ár. Ég tel þetta algerlega ranga ákvörðun og tel að sveitarfélögin, sem að Skólaskrifstofunni standa, átti sig ekki á því fjölbreytta, mikilvæga og faglega starfi sem þar fer fram og mun ég í þessari grein færa rök fyrir því.

Vantar fagleg rök og rökstuðning

Enginn rökstuðningur hefur komið fram um ástæðu þess af hverju leggja skuli af starfsemina í núverandi mynd. Undarlegt er þegar sveitarfélög sameinast til að veita sterkari þjónustu, að þau ætli svo að kljúfa þessa þjónustu í tvær einingar, með ófyrirséðum afleiðingum á faglega starfsemi, sem að lokum bitnar á notendum þjónustunnar, sem eru grunn- og leikskólabörn á Austurlandi. Frekar hefði átt að spýta í lófana og efla og styrkja Skólaskrifstofuna með því að ráða fleira fagfólk, s.s. þroskaþjálfa og sálfræðinga, eins og oft hefur verið bent á að sé nauðsynlegt, því næg eru verkefnin.

Nauðsynlegt er að hafa í huga að mikilvægt innbyrðis samstarf er á milli mismunandi fagaðila innan Skólaskrifstofunnar, milli kennsluráðgjafa og sálfræðinga, ásamt sameiginlegu þverfaglegu samstarfi við aðra fagaðila eins og talmeinafræðinga. Með fyrirhuguðum breytingum er hætta á að eyða komi í þessa mikilvægu faglegu þætti.

Ég lýsi einnig furðu minni á að stjórnarmenn Skólaskrifstofunnar skuli ekki standa með stofnuninni í þessum aðgerðum. Fyrir utan sitt faglega mikilvæga starf, er Skólaskrifstofan vel rekin og eitt best rekna byggðasamlag á Austurlandi, þegar litið er til fjárhagslegrar stöðu.

Ekkert samráð við fagaðila né notendur þjónustunnar

Furðu sætir að ekkert samráð skuli hafa verið haft við starfsfólk Skólaskrifstofunnar, áður en ákvörðun um lokun hennar var tekin. Það eru ekki fagleg vinnubrögð og starfsfólkinu með því sýnd vanvirðing. Starfsfólkinu hefur verið sagt að „mannauðurinn“ megi ekki glatast en ekki er sjálfgefið að starfsfólk hafi áhuga á að vinna við nýjar aðstæður, sem eru vægast sagt þokukenndar, því sveitarfélögin virðast ekki hafa lagt niður fyrir sig, hvernig starfseminni á að vera háttað í framtíðinni, s.s. í hve mörg stöðugildi verði ráðið. Þetta kom fram á fundi starfsfólks Skólaskrifstofunnar með fulltrúum frá Fjarðabyggð og Múlaþingi þann 3. febrúar. Engin undirbúningsvinna hefur verið unnin og sveitarfélögin eru á algerum byrjunarreit, hvað framtíðarskipulag þjónustunnar varðar. Hætta er á að með þessu glatist mikil þekking og reynsla.

Einnig er ámælisvert að notendur þjónustunnar, starfsfólk leik- og grunnskóla, þar með talið stjórnendur, hafi ekki verið hafðir með í ráðum um fyrirhugaðar breytingar eða verið upplýstir um þessi áform.

Margþætt verkefni skólaskrifstofunnar

Greinilegt er að sveitarfélögin gera sér ekki grein fyrir þeim margþættu verkefnum sem Skólaskrifstofan sinnir. Hér eru dæmi um nokkur þeirra.

▪ Utanumhald skimana í leik- og grunnskólum, vegna snemmtækrar íhlutunar, sem talmeinafræðingur og kennsluráðgjafar fylgja eftir.
▪ Fyrirlagnir skimana, úrvinnsla og tillögur að umbótum.
▪ Greiningar á lestrar- og stærðfræðierfiðleikum.
▪ Starf talmeinafræðings við skimanir og greiningar á málþroskaerfiðleikum.
▪ Ýmiskonar fræðsla og fræðslufundir fyrir starfsfólk og foreldra í leik- og grunnskóla.
▪ Kennsluráðgjafar veita þeim skólum, sem ekki hafa aðgang að sérkennurum, ráðgjöf og eftirfylgni (s.s. að halda utan um skimanir).
▪ Efling læsis, s.s. vinna að læsisstefnum.
▪ Innleiðing og eftirfylgni Byrjendalæsis og utanumhald vegna nýrra kennara.
▪ Þróunarverkefni, s.s. Byrjendalæsi, Orð af orði, Bættur námsárangur á Austurlandi, Lestur í 1. bekk, Snemmtæk íhlutun o.fl..
▪ Skipulag og framkvæmd Litlu og Stóru upplestrarkeppninnar.
▪ Innleiðing, umsjón og eftirfylgni með Olweusarverkefni.
▪ Sálfræðingar sitja í nemendaverndarráði allra skóla.
▪ Til fjölda ára hefur Skólaskrifstofan verið eina stofnunin Austanlands sem veitt hefur skólum sálfræðiþjónustu og verið í nánu samstarfi um þá þjónustu.
▪ Sálfræðingar leggja fyrir þroskamat og skimanir, sem er undirstaða þess að barn komist áfram í nánari greiningar s.s. hjá GRR eða ÞHS. Í framhaldi veita þeir ráðgjöf til skóla og foreldra.
▪ Samskipti við HA og HÍ varðandi endurmenntun. Hætta er á því að samstarf við þessa aðila verði mun brotakenndara og ómarkvissara með nýju fyrirkomulagi.
▪ Samstarf við Menntamálastofnun.
▪ Skipulag endurmenntunarnámskeiða, námskeiðsviku í ágúst og önnur smærri námskeið allan ársins hring.
▪ Námskeiðin hafa tengt og eflt skólafólk á öllu Austurlandi bæði félags- og faglega.

Traustur rekstur Skólaskrifstofu Austurlands

Skólaskrifstofa Austurlands hefur verið rekin við góðan orðstír, bæði fag- og rekstrarlega í 24 ár. Hún hefur notið virðingar og hróss utanaðkomandi fagaðila og í háskólasamfélaginu og það er sárt ef á að sundra því sem gott er. Ítrekað hefur komið fram að mikil ánægja er með starfsemi Skólaskrifstofunnar og að hún sé vel rekin, síðast á fundi með stjórnarmönnum hennar og bæjarstjórum í lok nóvember. Vert er einnig að taka fram að starfsmannavelta er nær engin og stöðugleiki mikill, sem ekki er sjálfsagt því fagmenn á þessu sviði verða ekki tíndir inn af götunni. Með því að leggja Skólaskrifstofuna niður, þurfa nýir aðilar einnig að kaupa aðgang að ýmsum skimunar-/greiningartækjum, sem ekki eru ódýr og í sumum tilfellum er ekki lengur hægt að kaupa skimunarefnið.

Mikilvægt er einnig að muna að þetta er lögbundin þjónusta, sem felst í því að veita faglega þjónustu og er því afar sérkennilegt að ekki sé leitað til starfsfólks til að fá álit á svo stórri ákvörðun. Þá er ráðgáta hvaða þjónustu skólarnir á Vopnafirði muni fá. Hér er hið faglega starf hunsað, sem er sérkennilegt á þeim tíma, sem áhyggjur af „torlæsi“ og fjölgun barna með sértæka erfiðleika fer sífellt fjölgandi.

Að lokum

Sérkennilegt er að á sama tíma og sveitarfélög eru sameinuð til að styrkja og efla þjónustu, er komist að þeirri niðurstöðu að betra sé að kljúfa Skólaskrifstofu Austurlands í tvær einingar. Í mínum huga virðist þessi ákvörðun hafa verið tekin „af því bara“ og það sem á að koma í staðinn sé „eitthvað“. Með þessari ákvörðun sveitarfélagana mun koma rof í þjónustu við leik- og grunnskólabörn á Austurlandi í ófyrirséðan tíma og bið eftir þjónustu mun lengjast.

Bréf þetta er ritað með hagsmuni skjólstæðinga minna að leiðarljósi og af einlægum áhuga mínum á skólamálum og von um að þessi ákvörðun verði endurskoðuð, þó ekki væri nema vegna „Þjóðarsáttmála um læsi“ sem undirritaður var af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og sveitarfélögum landsins haustið 2015, en þar er enn afar stór akur óplægður.

Breytingar geta verið góðar, en þær þarf að rökstyðja og vera með áætlanir um hvers vegna lagt er úr höfn og hvert og hvernig eigi að róa til að ná aftur landi og afar mikilvægt að hafa áhöfn á fleyinu.

Undirrituð leggur til að allir þeir aðilar sem koma að þessu máli endurskoði þessar ákvarðanir út frá faglegu starfi, því augljóst er að þær eru ekki teknar á faglegum forsendum.

Höfundur er kennsluráðgjafi hjá Skólaskrifstofu Austurlands


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.