Þá var trilla eða skekta á flestum jörðum sem áttu land að sjó

Örn Þorleifsson í Húsey skrifar:     Mér dettur svolítið í hug þegar ég sit hér með kaffibollann fyrir framan mig  inni í eldhúsi í birtingu og horfi á Hlíðarfjöllin og Hellisheiðina, þar sem ekki sér í dökkan díl í bröttustu hamrabeltunum eftir um tíu daga úrkomu hér niðri. Ef ég hugsa til sama tíma árið 1966 man ég að þá vorum við á jarðýtum og snjóbílum að ferðast yfir Fagradal í slóð. Oft var notalegt að stoppa aðeins og tylla sér ofan á toppinn á símastaur og reykja eina túrbó-camel.

skekta_vefur.jpg

 

 

Svona var snjórinn þá og sennilega hefði hann ekki verið  minni nú ef hlýnun jarðar væri ekki staðreynd. Á þessum árum var líka til trilla eða skekta á flestum jörðum sem áttu land að sjó frá Gunnólfi að Eystra Horni. Menn gátu veitt sér fisk eða lagt net innan sinnar landhelgi, sem var 70 faðmar á stórstraumsfjöru ef ég man rétt, eða sótt lengra. Þó nokkrir veiddu og verkuðu fisk og hákarl á milli bústarfa til sölu.
Er ekki rétt að við tökum upp þessa atvinnu upp aftur og sækjum rétt okkar til þjóðþingsins látum það skila þessum eignum jarða til baka  til eigenda? Þetta var ekkert nema þjófnaður á eignum til að gefa sægreifunum, samanber það sem er að gerast uppi á landi nú  með hinu dæmalausa þjóðlendufrumvarpi, sem er til þess eins að ríkið og Landsvirkjun þurfi ekki að borga landeigendum, bændum og sveitarfélögum  fyrir land og vatn sem  þeir þurfa að nota í stóriðju og þungaiðnað þessara álþingmanna. Nú verður lag að slá þá af bráðum og taka upp arðbærari atvinnu fyrir þjóðina og fólkið. Fara að nýta sjávarauðlindina sem skilar um 95% af tekjum inn í landið á móti tæpum 30%  og eftir nýjustu fréttum ennþá minna sem þungaiðnaðurinn þeirra Halldórs og Davíðs skila til okkar. Þar að auki hefur raforkuverð hækkað óhemju á tveimur síðastliðnum árum til almennings.

 

Dæmi um tekjusköpun

Nú hefur 30 þúsund tonnum af þorski verið úthlutað aukalega. Er ekki möguleiki á því að ungir menn,  sveitarfélög við sjávarsíðuna  og bændur sem eiga land að sjó, fái hluta af þessari aukningu? Sveitarfélögin geta þá leigt kvóta út til einstaklinga sem vilja búa sér til vinnu. Það er fjöldi smábáta og trilla hringinn í kringum landið sem eru mjög eyðslulítil miðað við stóru togskipin, sem eyða jafnvel meiri orku en þau framleiða ef maður fer að hugsa um þann hlut. Víða eru ónotuð sjóhús sem kæmust í gagnið svipað og verbúðirnar á Granda í Reykjavík í gamla daga.
Mig langar að setja hér smá dæmi upp og eru allar tölur mínar:
Fimm aðilar sem hafa misst vinnu taka sig saman og leigja sér kvóta, til dæmis 500 kg, þar af 400 kg þorsk og 100 kg aðrar tegundir. Þeir semja við trillukarl eða annan sem á bát, til dæmis hvalaskoðunarbát og taka daginn snemma. Leiga 400 kg x 250 kr.  = 100.000 kr. / 100 kg. x 150 kr. = 15.000 kr.
Mennirnir koma með aflann að landi. Góður flakari nær um 160 kg af roð- og beinlausum  flökum.  Teknar eru kinnar og gellur, skafið með matskeið yfir beinadálkinn og þar náð fínu hráefni í nokkrar fiskibollur. Lifur og gota tekin þegar þær eru. Það sem eftir stendur mætti nota í meltu.
Verðmæti 160 kg flök x 1.200 kr. = 192.000 kr. Gellur 12 kg x 400 kr.  =  4.800 kr. Kinnar 16 kg x 500 kr. =  8.000 kr. Lifur og hrogn 2.000 kr. Fiskibollur 400 kr.  Roð til sútunar 3.000 kr. Annar afli 100 kg x 500 kr. = 50.000 kr.
Gjöld verða 115.000 kr. + leiga á skipsplássi og handfærarúlla 50.000 kr. Tekjur 260.200 kr. að frádregnum 165.000 kr.  = 95.200 kr. /5  = 19.040 kr. á mann sem róðurinn gefur ef fiskast.

 

Sækjum réttinn aftur

 

Við ykkur sjávarjarðaeigendur vil ég segja: Sækjum réttinn aftur sem tekinn var af okkur. Fáum og virkjum búnaðarfélögin, búnaðarsamböndin, Bændasamtökin og sveitarstjórnir  af alvöru til að knýja á um að gömlu gildin sem voru haldi og við náum þessum réttindum aftur. Það er ekkert sjálfsagt að við Íslendingar þurfum að flytja öll þessi 55 þúsund tonn eða meir af bolfiski óunnin til Evrópu í vinnslu, þar sem þúsund manns hafa vinnu við að verka hann og hver eru svo þessi margfeldisáhrif sem kæmu aftur til baka? Eitthvað getum við flutt út en ekki þetta allt. Ætli það sé eitthvað flutt út ennþá af bolfiski til Kína til vinnslu héðan? Hver veit það? Hollur er heimafenginn baggi og nú þurfum við á þeim að halda.   Þann 23. janúar var spjallað við mann í útvarpinu sem sagði eitthvað í þessa átt: ,,Ef við aukum handfæraveiðarnar verður ímynd Íslands betri. Við gætum boðið upp á lífrænan fisk. Það væri að hægt verði að rekja hann til þess manns eða trillu sem veiddi hann og  hækka verðið. Það styrkir sjálfsmynd og ímynd þeirra sem hafa vinnu. Þeir geta selt vöru sem hægt er að rekja til einstaklings.“ Það voru Stöðfirðingar sem lögðu mest til þjóðarbúsins árið 1967 á hvern mann  á Íslandi. Það var  fiskurinn sem þeir drógu á land.


Við myndum fá sérstöðu ef við færum meira út í handfæraveiðar. Sjávarþorpin myndu vakna til lífsins eins og áður var og legðum við áherslu á sjálfbæra þróun með þessum hætti og það slys yrði að við álpuðust inn í Efnahagsbandalagið gæti það þó ekki hróflað við okkar umhverfisvænu fiskveiðum. Það kerfi sem við búum við nú brýtur á mannréttindum samkvæmt úrskurði á síðasta ári þar að lútandi.
Smábátaveiði er orkusparandi, færir lífsgleði og blómlegri byggð. Hún stuðlar að betri lýðheilsu og er mannbætandi þar sem fólk umgengst náttúruna af virðingu. Þetta hefur margfeldisáhrif.

Lífrænn fiskur er það heillin.

 

Bless þar til næst, Örn.

 

 

(Samfélagsspegill Austurgluggans 26. febrúar 2009)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.