Ungmenni í dreifbýli dragast aftur úr

Í byrjun mánaðarins var kynnt fyrir Norrænu ráðherranefndinni ný skýrsla frá Nordregio, stofnun um norrænar byggðarannsóknir. Skýrslan fjallar um aukna hættu á að ungmenni í dreifbýli verði hornreka í samfélaginu, falli úr skóla og þrói með sér andleg vandamál. Skýrslan er ítarleg, byggir á opinberri tölfræði og rannsóknum á mennta-, félags-, heilbrigðis- og atvinnukerfum landanna. Stóra vandamálið er dregið saman í eina setningu í lokaorðum skýrslunnar: „Ungt fólk í dreifbýli á Norðurlöndunum dregst aftur úr samanborið við jafnaldra í þéttbýlinu.“

Vandamálið virðist minna á Íslandi. Kastljósinu er beint að „NEET“ - þeim sem eru ekki í skóla, starfsþjálfun eða vinnu. Hlutfallið hérlendis er 5% hjá 20-34% ára en tvö- eða þrefalt hærra á hinum Norðurlöndunum.

Ólík vandamál kynjanna

Við lestur skýrslunnar kviknar á ýmsum viðvörunarljósum. Til dæmis má nefna að drengjum er sérstök hætta búin gagnvart brottfalli. Rannsóknin bendir til þess að munur á brottfalli úr námi eftir kynjum sé mestur hérlendis á Norðurlöndunum en hér eru strákar 10% líklegri en stelpurnar til að hætta í námi. Vinnumarkaðurinn togar gjarnan í þá og algegnt er að ungir karlmenn séu í tímabundnum störfum.

Þau geta hins vegar verið viðkvæm, eins og sýndi sig til dæmis í loðnubrestinum í vetur. Samkeppnin er líka að harðna í tæknivæddum heimi og að vera kominn út á vinnumarkaðinn án viðunandi þjálfunar getur komið mönnum í erfiða stöðu síðar. Nefnt er dæmi frá Færeyjum þar sem ekki sé hefð fyrir námi, heldur því að yngri kynslóð læri af þeirri eldri. Þetta er sérstaklega sterkt meðal karlmannanna. Hjá þeim þykir jafnvel ekki töff að vera í skólanum. Sá töffaraskapur getur breyst í eftirsjá síðar þegar þeir átta sig á að þeir hafi dregist aftur úr.

Að vera atvinnulaus er skömm sem leggst harðar á strákana og þeir eru seinni en stelpurnar til að leita sér hjálpar út úr ógöngunum. Í skýrslunni er bent á að vandamál sem séu minniháttar í byrjun geti fljótt undið upp á sig og orðið stór.

Skýrslan er ekki sú fyrsta sem vekur athygli á vandræðum stráka í menntakerfinu og reyndar hefur verið gripið til ýmsra aðgerða á allra síðustu árum. Þær virðast hafa skilað nokkru því líðan stráka hérlendis hefur batnað nokkuð hratt, öfugt við hin Norðurlöndin. Enn er þó mikið svigrúm til frekari athugana og úrbóta og benda skýrsluhöfundar á að mikilvægt sé að viðurkenna mismunandi þekkingu og færni einstaklinga.

Á meðan hefur líðan ungra kvenna versnað, þótt hún sé ekki jafn slæm hérlendis og víða annars staðar. Ónægur svefn er mikið vandamál hérlendis, einkum meðal stelpnanna. Þær glíma við annars konar vandamál í skólakerfinu en strákarnir. Háar einkunnir þeirra verða einskis virði vegna þess hve margir ná þeim. Þá hefur í fyrri rannsóknum Nordregio verið bent á að konur bregði frekar á það ráð að flytja úr dreifbýlinu sé þar ekki í boði atvinna, menntun eða tómstundir við þeirra hæfi.

Menntakerfið þróast í ranga átt

Hörð gagnrýni er sett fram á þróun menntakerfisins. Á eftirstríðsárunum hafi menntun fyrir alla verið forsenda uppbyggingar velferðarsamfélagsins. Upp úr 1980 hafi markaðshugsun náð undirtökunum með kröfum um framleiðni, skilvirkni og samkeppni með afleitum árangri. Einkaskólar, sem Íslendingar hafa haldið aftur af, virðast eingöngu breikka muninn í skólakerfinu og samfélaginu. Verra andrúmsloft bitnar bæði á nemendum og kennurum með fjölgun veikindadaga og hærri starfsmannaveltu.

Brottfall úr skóla skýrist af ýmsum þáttum, svo sem félagslegum bakgrunni, tekjum foreldra, börn innflytjenda eru líklegri til að detta út, og svo framvegis. Möguleikar á atvinnumarkaðinum heilla oft meira en námið, einkum hjá strákum.

Í svari við fyrirspurn á Alþingi er erfitt að koma auga á kerfisbundinn mun á brottfalli milli dreifbýlis og þéttbýlis úr framhaldsskóla. Þannig er brottfall nýnema úr ME (1,5%) og VA (0%) með því lægsta á landinu. Í FAS slagar það í fjórðung. Munurinn virðist frekar liggja í menningu skólanna, FÁ er til dæmis með 20% brottfall. Í skýrslu Nordregio kemur hins vegar fram að ungmenni í dreifbýli eru líklegri til að falla úr starfsþjálfun en þau sem búa í þéttbýlinu. Mestur er munurinn á Íslandi þar sem 34,5% ungmenna í dreifbýli detta út, þrefalt fleiri en í þéttbýlinu hér eða dreifbýlinu á hinum stöðunum.

Ekki hugað nóg að búsetu

Ítarlegur kafli er um hvernig grunnskólum í dreifbýli á Norðurlöndum hefur fækkað síðustu ár. Lokun skólanna leiðir ekki bara til þess að um lengri veg er að sækja menntun heldur lækkar hún húsnæðisverð og skapar ýmsar óæskilegar félagslegar aðstæður.

Gagnrýnt er að ekki hafi verið hugsað nóg um menntun út frá búsetu, hvorki í stefnumörkun né rannsóknum heldur hafi borgarumhverfið orðið að viðmiðuninni í allri greiningu. Ljóst sé hins vegar að staðsetning menntunar skapi ójafnvægi.

Ennfremur er bent á að vandamál sem byrji smátt geti fljótt undið upp á sig ef ekki er gripið inn í. Austfirðir eru til dæmis nefndir sem dæmi þar sem aðgengi sé erfitt að geðheilbrigðisþjónustu. Einstaklingur sem ekki næst að hjálpa snemma getur orðið samfélagi sínu afar kostnaðarsamur síðar.

Úrræðin

Í lok skýrslunnar eru nefnd ýmis verkefni sem komið hefur verið af stað á Norðurlöndunum til að bregðast við. Þau byggja ýmist á að veita ungmennum þjálfun eða umhyggju. FabLab, tæknismiðja eins og þekkist í VA, er til dæmis eitt úrræðanna.

Út frá þessu er því vert fyrir Austfirðinga að hafa nokkra hluti í huga: Íslendingar hafa náð öfundsverðum árangri með skipulögðu æskulýðsstarfi. Það þarf að rækta áfram. Við verðum að verja framhaldsskólana okkar og fjölga tækifærum til fjölbreyttrar menntunar og þjálfunar. Og við verðum að berjast áfram fyrir bættri geðheilbrigðisþjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.