Um heilsufar

Leiðari Austurgluggans 16. október 2009:

 

Ég hef miklar áhyggjur af heilsu Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Stofnuninni hefur verið gert að spara enn meiri fjármuni en áður og torvelt er að sjá af hverju á að taka nema draga úr þjónustu þannig að kemur niður á almenningi á Austurlandi.  Stofnunin er að telja tíkallana sína.

austurglugginn.jpg

Það má spyrja hvaða vitglóra sé í að skera niður fjárframlög hins opinbera til heilbrigðisþjónustu í landinu, því eiginlega hlýtur að vera dagljóst að sé heilsu landsmanna ekki sinnt hlýst af því kostnaðaraukning til lengri tíma. Að maður tali nú ekki um alla heilbrigðisstarfsmennina sem eru að tínast inn á atvinnuleysisskrá. Okkur er þó sagt að við eigum besta heilbrigðiskerfi í heimi, óháð því hversu mikið er skorið niður frá misseri til misseris. Veit annars einhver hver er heilbrigðisráðherra núna?

  

Ég hef enn meiri áhyggjur af þeirri gjá sem myndast hefur milli fólks á fjörðum og Héraði vegna máls yfirlæknisins við Heilsugæslu Fjarðabyggðar. Það er komið mál til að fá botn þar í svo kyrrð komist á. Sveinn Arason hjá Ríkisendurskoðun segir stofnunina vera að skoða og meta niðurstöðu sýslumannsembættisins á Eskifirði. Ríkisendurskoðun muni svo fljótt sem verða má taka ákvörðun um framhald þess.
Fyrst ég er að skrifa um þetta vil ég endilega nota tækifærið og biðja Emil Thorarensen á Eskifirði, sem hringir reglulega og ber mér á brýn að vera ,,handbendi Einars Rafns“ eins og hann orðar það svo skemmtilega og telur alveg fullvíst að forstjóri HSA hafi látið ráða mig sem ritstjóra Austurgluggans fyrir rúmu ári síðan svo ég gæti skrifað fréttir vilhallar HSA, að hætta þeirri loftkastalasmíð fyrir fullt og fast og verju orku sinni í eitthvað viskulegra. Miklir flokkadrættir eru varðandi mál yfirlæknisins, en Austurglugginn er fréttamiðill og dregur ekki taum eins né neins. Hann segir bara fréttir af því sem er að gerast hverju sinni.

  

Í guðs friði.

 

Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.