Um endurbyggingu gamalla húsa í Fjarðabyggð

Í Austurglugganum 26. mars síðastliðinn birtist grein eftir Elmu Guðmundsdóttur þar sem hún gerir meðal annars endurbyggingu gamalla húsa í Fjarðabyggð að umtalsefni. Sérstaklega fjallar Elma um áform um endurbyggingu Franska spítalans á sínum upphaflega stað á Fáskrúðsfirði og endurbyggingu Gamla Lúðvíkshússins í Neskaupstað. Í tilefni af grein Elmu vill undirritaður koma nokkrum mikilvægum upplýsingum á framfæri:

 

smari_geirsson.jpg- Það er hlutafélagið Minjavernd sem áformar að endurbyggja Franska spítalann á Fáskrúðsfirði en Minjavernd er hlutafélag sem er meðal annars í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar. Minjavernd hefur staðið fyrir endurbyggingu og varðveislu húsa allvíða á landinu þó flest verkefni félagsins hafi verið í Reykjavík. Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur engar fjárhagslegar skuldbingar varðandi áformin um endurbyggingu Franska spítalans en hefur samþykkt að koma að málinu hvað varðar skipulag og að leggja til lóð undir húsið á Búðum á þeim stað sem það upphaflega stóð.

Minjavernd hefur það fyrir reglu að hefja ekki framkvæmdir sem þessar fyrr en fjármagn hefur verið tryggt en það er Minjavernd sem vinnur að því að útvega fjármagn til verkefnisins frá Frakklandi. Það er einnig Minjavernd sem vinnur að því að finna húsinu hlutverk að endurbyggingu lokinni.

Á þessu sést að það er engin hætta á því að uppbygging Franska spítalans hafi áhrif á nauðsynleg verkefni sem Fjarðabyggð þarf að sinna eins og byggingu nýs leikskóla í Neskaupstað. Það hefur ítrekað komið fram að alger einhugur ríkir um það innan bæjarstjórnar Fjarðabyggðar að bygging nýs leikskóla í Neskaupstað sé forgangsverkefni og í það verkefni verði ráðist strax og efnahagslegar aðstæður leyfa.


Hvað varðar Gamla Lúðvíkshúsið í Neskaupstað gildir hið sama; Fjarðabyggð er ekki ætlað að kosta endurbyggingu hússins. Síðastliðið haust var stofnað áhugamannafélag í Neskaupstað um endurbyggingu þessa elsta húss bæjarins. Húsið er í eigu Fjarðabyggðar en sveitarfélagið hefur heimilað áhugamannafélaginu að vinna að endurbyggingu þess en þar á meðal er útvegun fjár til framkvæmda.

Áhugamannafélagið hefur þegar hafið útvegun fjármagns og reyndar þegar fengið loforð frá Húsafriðunarnefnd um fjárframlag. Ástæðan fyrir stofnun félagsins var ekki síst sú að mönnum er ljóst að sveitarfélagið hefur mörgum mikilvægum verkefnum að sinna og á því erfitt með að leggja fjármagn í verkefni sem þetta.

- Að mati þess sem þetta skrifar er mikilvægt að stuðlað sé að verndum menningarverðmæta í Fjarðabyggð sem og annars staðar á landinu. Það hlýtur því að vera ánægjuefni þegar hlutafélag eins og Minjavernd vill leggja sitt af mörkum í þessu skyni með endurbyggingu Franska spítalans og þegar áhugafólk tekur sig saman um að vinna að framgangi slíkra mála eins og gerist í sambandi við Gamla Lúðvíkshúsið. Að undanförnu hafa nokkur hús í Fjarðabyggð verið endurbyggð þannig að til fyrirmyndar er. Má í því sambandi nefna hús í eigu Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Jensenshús á Eskifirði. Þá ber einnig að geta þess að Húsafriðunarnefnd veitti nýverið styrk til endurbyggingar gömlu kirkjunnar á Eskifirði sem nú er í einkaeign.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.