Um bóklæsi og orðanna hljóðan

Leiðari Austurgluggans 4. september 2009:

 

Austurglugginn tekur með mikilli ánægju þátt í verkefni Sameinuðu þjóðanna sem helgað er læsi. Þær hafa allt frá árinu 1965 tileinkað 8. september læsi, þ.e. ritun, tali, lestri og hlustun.

austurglugginn.jpg

Sameinuðu þjóðirnar standa einnig að áratug læsis og lýkur honum árið 2012. Ísland tók í fyrsta sinn þátt í degi læsis nú í vikunni. Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri hélt utan um framkvæmdina og mun ár hvert standa fyrir dagskrá þessu tengdu.

 

Austurglugginn mun næstu átta vikur birta kafla sögu um Jónsa fréttaritara, sem sérstaklega var samin fyrir Alþjóðasamtök fréttablaða (WAN) í tilefni af degi læsis og er ætlað að hvetja börn og ungmenni til lesturs og veita þeim innsýn í heim fréttaskrifa og blaðaútgáfu. Auk Austurgluggans taka Morgunblaðið og Víkurfréttir þátt í að birta söguna á Íslandi, auk fjölmargra prentaðra fréttamiðla víðs vegar um heim.

  

Íslendingar hafa löngum verið taldir bókelskir og þrátt fyrir ljótar spár um dauða bókarinnar í kjölfar netvæðingar þjóðarinnar hefur bókin haldið velli að mestu. Kannski er bókin þó að verða vettvangur yndislestrar fremur en þekkingarleitar, því nú orðið má finna upplýsingar um nærfellt alla skapaða hluti á netinu, yfirleitt í seilingarfjarlægð. Netlestur er þó einhvern veginn allt annað mál en bóklestur og skráist kannski á ólíkan hátt í heilabúið.

  

Ég var alin upp við að fara hið minnsta mánaðarlega í bókasafn allt frá unga aldri og þræða mig gegnum ríkulegan bókakost foreldra minna. Ég er enda hinn mesti bókaormur og mér er það metnaðarmál að börnin mín ánetjist bóklestri. Alls staðar má finna bókasöfn og flest góð. Enn rekst maður þó á fólk á öllum aldri sem hefur tæpast komið inn í slíkar stofnanir. Það finnst mér satt að segja á hæsta máta undarlegt. Enn skrítnara finnst mér að koma inn á bóklaus heimili. Líkt og vanti í þau sálina. Ég er á því að bækur skipti máli; að áfram verði skrifaðar bækur um aðskiljanlegustu efni, bækur sem ,,rata til sinna“ og auðga líf fólks. Við megum heldur ekki gleyma að lesa upphátt hvert fyrir annað. Sums staðar er iðkað að láta gesti opna góða bók og lesa hátt það sem upp lýkst. Það er skemmtilegt og oft ávísun á frjóa samræðu.

  

Af því að Austurglugginn er fréttablað allra íbúa Austurlandsfjórðungs og þar með talinna barna og ungmenna, er kjörið að birta hina einkar spennandi og læsilegu sögu um Jónsa fréttaritara. Við vonum að lesendur blaðsins hafi gaman af og sendi okkur í framhaldinu ábendingar um efni sem yngri kynslóðir vildu sjá í blaðinu okkar.

 

Steinunn Ásmundsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.