Til varnar Eskju hf.

Sigurjón Þórðarson skrifar:      Í fréttaskýringaþætti RÚV upplýstist hve grænir Íslendingar geta verið fyrir lymskulegum áróðri græningja. Verksmiðjustjórinn vildi nokkuð örugglega gera vel við erlenda fréttamenn og frændur sem sýndu fiskimjölsverksmiðjunni áhuga. Fréttamennirnir þökkuðu fyrir sig og klipptu saman glannaleg ummæli og kjánaaðfarir verksmiðjustjórans við veiðar. Tilgangurinn var eflaust að undirstrika hvers konar umhverfishryðjuverk færu fram á Íslandi.

 

Það vakti athygli mína að fræðimaðurinn Daniel Pauly var fenginn til þess að votta að framleiðsla á eldisfiski værI óábyrg og framleiðsla á fiskimjöli skaðleg fyrir ofveidda fiskistofna. Ofveiðigrýlan lifir góðu lífi hér á Íslandi, bæði á Hafró og hjá fjölmiðlamönnum þar sem stöðugt er klifað á því að helstu nytjastofnar þjóðarinnar séu ofveiddir þrátt fyrir að sú staðreynd liggi á borðinu að þorskveiði hefur nánast aldrei verið minni og ekki er það vegna þess að þorskinum sé ekki til að dreifa. Nei, ástæðan er að sjómenn hafa ekki leyfi til að veiða hann. Sömuleiðis liggur fyrir að í Barentshafinu og Færeyjum þar sem ekkert er gert með ofveiðigrýluna ganga veiðar sinn vanagang og fiskistofnar eru við hestaheilsu.


Það er sem margur átti sig ekki á að Daniel Pauly er á mála hjá umhverfissamtökum og -sjóðum, t.d. PEW, sem hafa yfir gríðarlegum fjármunum að ráða sem greiða fyrir rannsóknir sem eiga að sýna fram á skaðleg áhrif fiskveiða og reyna að sverta atvinnugreinina með falsvísindum.


Ekki er Pauly einn um að birta reglulega heimsendaspár um sjávarútveginn, fleiri frægir hafa komist í fréttirnar hér, s.s. Boris Worms sem kom fram með spádóminn um að allir fiskistofnar heims kláruðust 2048, Andrew Rosenberg sem reiknaði út stærð þorskstofnins við strendur Bandaríkjanna á 19. öld og Ransom Myers sem reiknaði út hnignun mörg hundruð fiskistofna vítt og breitt um heiminn.


Það sem vekur ugg er að íslensk stjórnvöld hafa nýtt sér starfskrafta sumra þessara manna, s.s. Andrew Rosenbergs, í að fara yfir hvers vegna friðunarstefna sem verið hefur við lýði undanfarna áratugi hafi ekki gengið eftir eins og þegar Hafró týndi mörg hundruð þúsund tonnum af þorski fyrir nokkrum árum. Það stóð ekki á svarinu sem var á þá leið að friðunarstefnan stæði fyrir sínu nema þá að helst þyrfti að friða enn meira til þess að geta veitt meira seinna en þetta seinna hefur aldrei komið eins og þeir sem fylgjast með sjávarútvegi ættu að vita.
Það er langt í frá að starfsmenn Eskju séu þeir einu sem ekki hafa varað sig á lymskulegum áróðri græningja gegn sjávarútvegi og veiðum.
 
                                                                                               Sigurjón Þórðarson liffræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.