Þögull meirihluti vegur ekkert upp á móti frekum minnihluta

Sigurbjörg Lovísa Árnadóttir flutti hátíðarræðu í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum á 17. júní. Þar hvatti hún gesti til að stíga í átt að kærleiksríkara samfélagi sem ekki byggir á veraldlegum eignum heldur raunverulegum gildum.

 

Kæru Íslendingar, vinir og vandamen!

Í dag, líkt og önnur ár fögnum við lýðræðinu, sem við börðumst fyrir, fyrir 75 árum. Mig langar til þess að byrja á því að vitna í skrif forseta okkar Guðna Th. Jóhannessonar sem hann skrifaði á 70 ára afmæli lýðveldisins.

„Sjaldan hefur þjóð staðið eins þétt saman og Íslendingar gerðu á Þingvöllum 17. júní 1944. Þúsundir höfðu skundað þangað, aðrir voru á staðnum í anda. Lýðveldisstofnun var fagnað, bjart virtist fram undan. Sjálfsagt er að fagna núna þessum tímamótum, horfa bjartsýn fram á veg og vona að öllum sem búa á Íslandi muni vegna vel.“ Og lýkur þá tilvitnun! Og nú erum við hér! Sigrar hafa unnist, greitt hefur verið úr krossgötunum og við getum notið, uppfull af kandýfloss og sjóriðu úr hoppuköstulunum!

Til hamingju með daginn kæra baráttufólk.

Það að búa við lýðræði er ekki sjálfsagt, því ber svo sannarlega að fagna. Samkvæmt Íslenskri orðabókarskilgreiningu er lýðræði lýst þannig  að Einstaklingar eða hópar innan samfélagsins hafa allir rétt til að láta í ljós vilja sinn og hafa áhrif á öll samfélagsleg málefni.

Og það er þetta sem mig langar að tala um. Áhrif einstaklingsins. Eins og ég sagði, það eru 75 ár síðan við náðum þessum áfanga, að geta haft áhrif sem einstaklingar. Ég tel þó að flest okkar hafi ekki verið viðstödd þessi tímamót, en þau snerta okkur öll. Við vorum nefnilega framtíðin sem átti að njóta góðs af baráttunni. Og okkur er ætlað að sigla skipinu í næstu höfn.

Fyrir 75 árum barðist fólk fyrir bættri framtíð síns og barna sinna. Fólk vildi að allir hefðu kost á að hafa áhrif. Nú eru 75 ár liðin og við stöndum enn og aftur á krossgötum. Vissulega stærri krossgötum, en samt sem áður, bara krossgötur í átt að framtíðinni. Framtíð okkar og barnanna okkar.

Nú eiga krossgöturnar samt ekki bara við um Íslendinga. Þær eiga við okkur öll. Heimurinn allur á von á miklum breytingum. En þær breytingar gerast ekki nema með baráttu, og það er barátta okkar einstaklinganna. Við þurfum að taka höndum saman sem íbúar á þessari jörð og berjast fyrir því að markaðsöflin ræni ekki af okkur framtíðinni.

Heimurinn sem við búum í byggist nefnilega að miklu leyti á peningum. Staða okkar í samfélaginu byggist á því hvernig við búum, hvað við eigum mikið af peningum og hvernig við lýtum út. Okkur hefur nefnilega verið talin trú um að því meira af dóti sem við eigum, því betur settari séum við og því nær því að vinna lífið sjálft. En er það í alvörunni raunin, er það ímyndin sem við viljum lifa eftir?

Markaðsöflin nýta sér þessa hugmynd af hinum vellifandi jarðarbúa til að telja okkur trú um óendanlegan hagvöxt, það sé alltaf hægt að græða meira. En nú spyr ég, þurfum við alltaf meira?

Í dag, 17. Júní er okkur gefin frídagur til að njóta þess að vera saman, fagna saman. Hvernig væri ef við gæfum okkur meiri tíma í okkur sjálf, í það hvernig við viljum vera. Að við stefnum á að vaxa sem einstaklingar en ekki sem tala í hagvaxtarkerfi? Að við ræktum okkur sjálf að innan, frekar en að þóknast öðrum að utan.

Að við þökkum sérstaklega fyrir það sem við eigum, við eigum öll alveg heilan helling. Því langar mig að hvetja ykkur til að vera þakklát fyrir það sem þið eigið. Heimsmarkaðurinn er alltaf að segja að við þurfum meira og meira af hinu og þessu, við þurfum að framleiða meira og meir, og hvert erum við núna komin?

Ofvöxturinn og græðgin hefur sent okkur á ystu brún hitabylgju sem mun hafa áhrif á okkur öll. Hlýnun jarðar er alvarlegt vandamál og það er bara einum um að kenna þar. Markaðsöflum. Og þau munu ekkert hætta að framleiða hluti, fyrr en þau neyðast til þess. Á meðan þau græða á að selja okkur trúnna um að við þurfum hitt og þetta, þá munu þau nýta sér öll tækifæri til að græða á hræðslunni okkar við hlýnun jarðar.

Og þá kem ég aftur að því sem mig langar virkilega að hvetja til!

Mig langar því að nýta þetta tækifæri sem mér hefur hlotnast tilað hvetja ykkur öll saman til að nýta ykkur það hér ríkir líðræði, sem við eigum að nota til þess að stuðla að bættri framtíð. Þótt við séum eflaust flest sammála um það að við viljum búa vel að framtíðinni, þá gerist ekkert nema við segjum það sem við hugsum.

Að vera þögull meirihluti vegur ekkert upp á móti frekum minnihluta. En um leið og við látum í okkur heyra erum við svo mun sterkari heild. Mig langar því til að hvetja ykkur til að leggja ykkar að mörkum í átt á kærleiksríkara samfélagi, sem byggir ekki á veraldlegum eigum hvers og eins, heldur raunverulega gildum. Að við látum ekki þennan freka markaðsminnihluta segja okkur fyrir verkum, heldur að við segjum stop. Nú er komið nóg, við getum séð um okkur sjálf.

Þegar við förum að sýna þessu ríka og freka einu prósenti heimsins, sem stjórnar öllum markaðnum, að við höfum önnur lífsgildi en það hvað við eigum. Að þá getum við raunverulega sýnt þeim að við þurfum ekki svona mikið á þeim að halda og þau halda.

Og þegar við forum að sýna þeim að við þurfum ekki óendanlegan hagvöxt og óstoppandi framleiðslu á allri neysluvöru, þá forum við að sjá breyttar horfur í hlýnun jarðar.

Það sem oft byrjar bara sem barátta einnar manneskju getur oft rúllað af stað risastórum baráttubolta. Og nú er það okkar verkefni, ekki kvöð, að stíga skrefið í næstu baráttu. Að við hættum að neyta í neyslusamfélagi, förum að njóta, í kærleikssamfélagi. Saman. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.