Taktu þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um helgina

Laugardaginn 29. maí verður haldið prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi vegna Alþingiskosninganna 25. september nk. Ég gef kost á mér í 1. sæti á lista flokksins og bið um stuðning til að leiða kosningabaráttu flokksins næstu 17 vikurnar.

Hver er ég?

Ég hef setið á Alþingi fyrir kjördæmið frá árinu 2016 og talað þar fyrir gildum og frelsissýn sjálfstæðisstefnunnar. Talað í þingstörfum fyrir frelsi og einkarekstri gegn oftrú ríkisrekstrar og sífellt sterkara miðstjórnarvaldi, eftirliti og aukinni skattlagningu. Látið til mín taka á vettvangi atvinnu- og samgöngubóta, en ekki síst í málum er varða byggðamál og byggðafestu. Lengstum setið í fjárlaganefnd og atvinnuveganefnd þingsins og er nú varaformaður utanríkismálanefndar og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins. Verið í mjög virku sambandi við kjósendur Norðausturkjördæmis og víðar.

Sex baráttumál

Ég hef haldið á lofti ýmsum baráttumálum fyrir Norðausturkjördæmi. Byggð á þeirri trú að hagsmunir allra sé farsæld landsbyggðar. Sent frá mér tugi blaðagreina, ótal fjölmiðlaviðtöl og farið yfir þessi baráttumál á fundum. Fyrir Austurland rísa hæst:

1. Ég hef lagt áherslu á að öllu skipti fyrir landsbyggðina að sjávarútvegi séu búin góð og ekki síst stöðug rekstrarskilyrði. Sjávarútvegurinn er landsbyggðarinnar. Að sama skapi byggir efnahagsleg hagsæld okkar áfram á vexti útflutningsgreina. Þar verður fiskeldið æ meiri drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu, ekki síst á Austfjörðum. Það er einn grunnatvinnuvega Íslendinga sem hefur burði til að vaxa, ólíkt öðrum sjávarútvegi sem sækir í takmarkaða auðlind byggðri á sjálfbærri nýtingu.

2. Ég hef sagt að Austfirðingar skyldu gera kröfu í komandi kosningum um uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar. Hann þyrfti að þjóna betur hlutverki sínu í samgöngum og heilbrigðiskerfi landsins, og mæta öryggiskröfum. Einungis þannig rækir hann hlutverk sitt sem einn af varaflugvöllum landsins, yrði alþjóðleg fluggátt og skapaði ótal tækifæri.

3. Ég hef talað fyrir markvissri uppbyggingu orkumannvirkja, auknu orkuöryggi, og skilvirkara flutningskerfi raforku. Það kann að vera „ófjölmiðlavæn umræða“ en mikilvæg fyrir okkar landshluta. Fram undan eru stór tækifæri í loftslagsvænni fjárfestingu. Vilji Ísland ná alþjóðlegum markmiðum um losun gróðurhúsalofttegunda er nærtækast að þróa og nýta græna orkugjafa. En til þess þarf að byggja mun traustara flutningskerfi raforku og aðra innviði á N orðausturhorninu.

4. Ég leiddi umræðu um að taka upp „skosku leiðina“ fyrir landsbyggðina sem í dag er kölluð Loftbrú. Fáir tala gegn henni nú, en umræða um hana mætti mótbyr. Tillögur um L oftbrúna voru sagðar óraunhæfar og vart mótaðar til framtíðar. Það hefur reynst alrangt. Ungt landsbyggðarfólk sem nýtir Loftbrúna ber vitni um það.

5. Ég hef talað fyrir eflingu beins millilandaflugs í kjördæminu sem styðji við verðmæta atvinnusköpun í ferðaþjónustu á svæðinu og jöfnun samkeppnisskilyrða útflutningsfyrirtækja. Þar er til mikils að vinna.

6. Ég hef verið einn helsti talsmaður þess að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Hefur ýmsum fundist nóg um. Sérstaklega hefur það mætt mikilli andstöðu við vinstri manna í borginni. Reykjavíkurflugvöllur er lífæð landsbyggðar og lykill að skilvirku sjúkraflugi og miðlægu heilbrigðiskerfi.

Prófkjörið upptaktur að kosningabaráttu

Í prófkjörinu eigum við þess kost að velja á milli mjög öflugra frambjóðenda víða að úr kjördæminu. Stolt mitt er að tilheyra þeim góða hópi.
Á fundum og ferðum um kjördæmið síðustu mánuði minnti ég á að prófkjörið yrði að vera upptaktur farsællar kosningabaráttu, enda einungis 17 vikur til alþingiskosninga. Með öflugu prófkjöri stillum við upp lista sem laðar að sér ólíkt fólk með fjölbreyttan bakgrunn til samstarfs úr öllu kjördæminu. Slíkur framboðslisti og öflugt umboð úr prófkjöri gefur skýr fyrirheit um forystu í kjördæminu.

Fjölmenn og víðtæk þátttaka í prófkjöri er sterkur meðvindur fyrir þann framboðslista sem Sjálfstæðisflokkurinn býður fram í kjördæminu í haust. Þann lista vil ég leiða og hvet til þátttöku í prófkjörinu.

Höfundur er alþingismaður Norðausturkjördæmis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.