Tækifærin í tímabundnu ástandi

Þetta eru óvenjulegustu tímar sem ég hef upplifað í starfi mínu sem framkvæmdastjóri Austurbrúar. Já, sennilega mætti taka dýpra í árinni og segja að þetta séu einfaldlega óvenjulegustu dagar sem maður hefur upplifað sem manneskja og þátttakandi í samfélaginu.

Á vissan hátt hefur verið slökkt á heiminum, eins og einn rithöfundur orðaði það á dögunum, og augljóst öllum að við lifum á sögulegum tímum. Óvissan er mikil á öllum sviðum tilverunnar og blandast saman áhyggjur af heilsu og efnahag í ansi beiskan kokteil.

Hverjar afleiðingarnar verða; hvort sem um ræðir félagslegar, pólitískar eða menningarlegar, á eftir að koma í ljós en þær verða þýðingarmiklar fyrir okkur öll.

Reynslunni ríkari

Það rifjast reyndar ýmislegt upp frá þeim tíma þegar ég var fjármálastjóri sveitarfélags á tímum efnahagshrunsins. Þetta er eins konar déjà vu en samt eru hlutirnir öðruvísi í dag en þeir voru fyrir um áratug:

Við erum t.d. betur undirbúin, höfum reynsluna af hruninu í farteskinu og erum tæknivæddari. Sem dæmi hef ég setið á fjölmörgum fundum með fólki úr stjórnsýslunni og stoðkerfi atvinnulífsins og það er svo merkilegt að þegar á reynir geta allir nýtt tæknina til að vera í sambandi í hljóð og mynd. Ég hef ekki tölu á þeim fjölda funda sem ég hef þurft að sækja í Reykjavík eða annars staðar á landinu síðustu árin sem talið var ómögulegt að halda með hjálp upplýsingatækninnar. Það viðhorf breyttist bókstaflega á einni nóttu. Núna er allt hægt.

Það er líka magnað að sjá hversu mikil samstaða hefur náðst um að fylgja í einu og öllu leiðbeiningum Almannavarna, bæði meðal einstaklinga og fyrirtækja. Við gátum - á nokkrum dögum - gert grundvallarbreytingar á hegðun okkar. Gríðarleg þýðing þeirrar staðreyndar fyrir mörg mikilvæg mál sem kynslóðir framtíðarinnar þurfa að takast á við, s.s. umhverfismál, ætti að vera öllum ljós.

Ég vona í það minnsta að sú jákvæða þróun sem við sjáum í þessu óvenjulega ástandi sé til frambúðar og þá má segja að þessir erfiðu tímar geti leitt af sér bætta stöðu í ýmsum málum.

Áhrifin á okkur

En horfum aðeins inn á við og hugsum um áhrifin á okkar litla landshluta. Við erum hluti af stærri heild og líkt og annars staðar er mikil óvissa framundan í rekstri margra fyrirtækja í landshlutanum. Ýmis úrræði hafa verið kynnt af hálfu stjórnvalda sem enn er verið að útfæra en smám saman verður myndin skýrari og við vitum betur hvaða opinberu aðstoð einstaklingar og fyrirtæki geta fengið. Við hjá Austurbrú erum í góðum tengslum við stjórnkerfið og höfum síðustu daga tekið saman upplýsingar innan landshlutans og miðlað þeim áfram til stjórnvalda. Þá höfum við átt fundi með fólki úr stjórnkerfinu þar sem til umræðu eru svæðisbundnar aðgerðir og útfærslur.

Erum í sömu stöðu

Það er ljóst að þetta hefur sett áform margra fyrirtækja í uppnám og breytt forsendum þannig að stjórnendur og aðrir starfsmenn verða að aðlaga sig að gerbreyttum aðstæðum. Þetta finnum við svo sannarlega hjá Austurbrú. Við gerum ársáætlanir þar sem gert er ráð fyrir fyrirsjáanlegri framtíð og frávik frá henni er oftast hægt að spá fyrir um að einhverju eða öllu leyti. Síðustu daga hafa starfsmenn Austurbrúar þurft að aðlaga verkefni stofnunarinnar að þessum nýja og breytta veruleika og þurft að forgangsraða upp á nýtt. Það sá enginn fyrir.

Í þessu felast líka tækifæri því allt í einu stöndum við frammi fyrir því að geta sinnt verkefnum sem fyrir aðeins fáeinum dögum var ekki hægt að sinna sökum anna. Önnur verkefni voru talin mikilvægari en þegar forsendur bresta breytist líka forgangsröðin: Allt í einu eru verkefni sem máttu bíða orðin mikilvægust.

Ég trúi því að margir standi í svipuðum sporum og við.

Við viljum hjálpa

Stefna Austurbrúar hefur frá upphafi verið sú að hvetja til samvinnu innan landshlutans og sjaldan hefur það skipt jafn miklu máli fyrir Austfirðinga og nú. Ég er sannfærð um að ef allir standa saman og vinna í takt megi minnka langtímaáhrif þessa ástands til muna.

Austurbrú er til þjónustu reiðubúin og við hvetjum ykkur til að heyra í okkur, bæði ef ykkur vantar aðstoð en líka til að leyfa okkur að fylgjast með svo við getum miðlað sem bestum upplýsingum til stjórnvalda um stöðuna í landshlutanum hverju sinni.

Höfum í huga að þetta er tímabundið ástand og öll él birtir upp um síðir. Höfum hugfast að í öllum breytingum leynast ný tækifæri.

Höfundur er framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.