Sveigjanleiki sem aldrei fyrr

Ferðaþjónustan á Austurlandi er sérstaklega viðkvæm nú  að mati Auðar Önnu Ingólfsdóttur, hótelstjóra Hótels Héraðs á Egilsstöðum.  Hún segir mikla umræðu hafa verið innan keðju Icelandair-hótelanna undanfarið í ljósi efnahagsástandsins og sveigjanleiki að síbreytilegum aðstæðum sé nú lykilatriði. Þetta kom fram á atvinnumálaráðstefnu á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

04_09_3---aircraft_web.jpg

Á Hótel Héraði eru 70% af gistitekjum samningsbundin í evrum til allt að fimm ára, að ósk viðskiptavina. 1. júlí 2008 var herbergið selt á 180 evrur, eða 22.500.- krónur, en í dag næmi sú upphæð 25.560 krónum.  Herbergisverðið í sumar er 128 evrur eða 18.700 krónur. ,,Nú er að koma upp sú staða sem var fyrir þrjátíu árum þegar ég var að byrja í ferðaþjónustu, þegar sérstök verð voru fyrir Íslendinga og önnur fyrir útlendinga,“ sagði Auður.

 Ferðasala stopp 

Auður sagði ferðaþjónustuna viðkvæma í ár. ,,Ísland hefur hingað til verið þekkt fyrir friðsæld, grænar grundir og öryggi, en búsáhaldabyltingin í Reykjavík var í fréttatímum um allan heim. Afleiðingin er sú að sala á Íslandsferðum hjá stærstu ferðasölunum erlendis hefur stöðvast. Hún fer afar hægt af stað þó engar svona fréttir hafi borist frá Íslandi alveg nýlega. Spurningar sem söluaðilar fá eru  til dæmis hvort fólk þurfi að taka mat með sér til Íslands og hvort hótel séu yfir höfuð opin. Við erum dálítið í sama dæmi og Nígería núorðið.“  Fram kom í máli Auðar að Icelandair mun draga saman flug um 20% í sumar. 60% fækkun er á ráðstefnum, fundum og hvataferðum.

Hún vonast til að brátt takist að snúa vörn í sókn og sannfæra heiminn um að hér sé öryggi og enginn skortur. Þá felist gríðarmiklir möguleikar fyrir ferðaþjónustu innanlands í því að líkast til fækki íslenskum ferðamönnum erlendis gríðarlega í ár.

  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.