Stuðningur heimamanna skiptir sköpum

Vaxtarsamningur Austurlands hefur stutt við um 60 verkefni til atvinnusköpunar á Austurlandi. Verkefnin eru misstór og ná yfir alla geira, þar á meðal iðnað, framleiðslu, ferðaþjónustu, sjávarútveg, menningu, matvæli og landbúnað. Samningurinn er innan vébanda Þróunarfélags Austurlands.

vaxa-logo.jpg

Björk Sigurgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Vaxtarsamnings, segir að nú standi yfir samningaviðræður við ríkisvaldið um að þaðan komi áfram fjármagn til samningsins. ,,Það er ákaflega mikilvægt að Austfirðingar og ekki síst sveitarstjórnarfólk, geri sér grein fyrir að stuðningur heimamanna skiptir sköpum við að ná inn peningum frá ríkinu,“ segir Björk. ,,Dragi sveitarfélög mikið í land og leggi ekki fram fé er líklegt að ríkið dragi sig til baka að sama skapi. Við höldum að sjálfsögðu áfram okkar vinnu með það fjármagn sem við fáum, en hingað til höfum við fengið 20 milljónir á ári frá ríkinu. Við myndum vilja sjá það að minnsta kosti standa í stað og helst vaxa. Við lítum svo á að um 30 milljónir á ári frá ríkinu sé eðlileg upphæð fyrir þetta svæði. Þetta skiptir verulegu máli í því ástandi sem nú ríkir í landinu og rætt hefur verið um að auka vægi vaxtarsamninga sem farveg fyrir fjármagn inn á svæði. Ef það á að vera þarf að sjálfsögðu að koma inn meira fjármagn til að samningurinn geti uppfyllt slíkt.“

Margföldun á störfum 

Af þeim sextíu verkefnum sem Vaxtarsamningur hefur stutt við, hafa aðeins örfá lotið í lægra haldi. Langflest hafa skilað annað hvort afurð eða áframhaldandi samstarfi. Að minnsta kosti 50 verkefni lifa því góðu lífi áfram. Nú hafa yfir 20 ný störf skapast vegna Vaxtarsamningsins. Þau eru flest fyrir háskólamenntað fólk og það þykir mjög góður árangur. Ef öll verkefni innan samningsins ná að klárast liggur fyrir að um margföldun á þessum fjölda starfa verður að ræða. Björk segir að gera megi ráð fyrir tíföldun eða meiru. Í áframhaldinu má gera ráð fyrir frekari vinnu að yfirstandandi verkefnum og nýjum verkefnum einnig. ,,Í upphafi fórum við okkar eigin leiðir hér á Austurlandi. Við getum tekið ferðaþjónustuna sem dæmi, en hún er helmingur af stuðningi Vaxtarsamnings. Við byrjuðum þar í mjög smáum, svæðisbundnum einingum, fengum mikla gagnrýni fyrir, en töldum okkur vita að þessi aðferð bæri mestan árangur. Litlu einingarnar hófu samstarf og nú er fólkið innan þeirra farið að vinna saman þvert yfir svæðið í þematengdum verkefnum. Við erum til dæmis að sjá hluti eins og vetrarferðaþjónustuna, þar sem fólk víða að af Austurlandi kemur að og byggir upp ferðaþjónustu snemmvors. Fólki langaði alltaf að vinna saman en vantaði farveg. Nú hefur hann orðið til og þar hefur Vaxtarsamningurinn verið ríkur hvati. Því má hiklaust segja að þróun Vaxtarsamningsins hér á Austurlandi er algjörlega í rétta átt. Það er bráðnauðsynlegt að við fáum að halda áfram þessu góða starfi og ég tel mikinn pólitískan vilja til að styðja vaxtarsamninga áfram. Það ber þó að hafa í huga að Vaxtarsamningur á Austurlandi er best kominn hjá heimamönnum eins og verið hefur. Við unnum hann eins og hentaði okkar svæði og það hefur skilað sér ríkulega. Það skiptir öllu máli að heimamenn hafi forræði yfir samningnum og taki afstöðu til nýtingu hans og þess hvernig vinnan á að vera,“ segir Björk.

 

Hér eru kynnt fjögur af þeim verkefnum sem Vaxtarsamningur kemur að. Þau eru öll öflug og að baki þeim liggur mikil vinna og einkar gott samstarf.

-

-

Með vaxandi skógi eykst áhuginn á nýtingu grisjunarviðar til húshitunar á landsvísu  Skógarorka fíruð upp í nóvember 

 

Verið er að byggja kyndistöðvarhús í Hallormsstað á vegum Skógarorku ehf. Kyndistöðin sjálf, sem brenna mun kurli úr grisjunarviði, er komin til landsins og í tollafgreiðslu. Mannvirkið á að standa við hlið sparkvallarins í Hallormsstað. Kyndistöðin verður gangsett í nóvember næstkomandi og á í byrjun að hita upp barnaskólann, íþróttahús, sundlaug, gistiálmu sumarhótels og Hússtjórnarskólann. Þýskir sérfræðingar frá framleiðanda stöðvarinnar (Heizomat) koma innan skamms til landsins til að aðstoða við uppsetninguna. Þá eru finnskir skógræktarfrömuðir væntanlegir við gangsetningu stöðvarinnar, en þeir hafa fylgst með verkefninu frá byrjun, enda eru heilu íbúðarhverfin þar í landi kynt upp með grisunarviði. Þeir sem koma að verkefninu, auk Þróunarfélags Austurlands í gegnum Vaxtarsamninginn, eru Loftur Jónsson hjá Skógráði og framkvæmdastjóri Skógarorku ehf., Guðmundur Davíðsson hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF), Þór Sigfússon, skógarvörður hjá Skógrækt ríkisins, Héraðs- og Austurlandsskógar, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Orkustofnun, Atvinnuþróunarsjóður Austurlands og stjórnvöld. HEF er stærsti hluthafi  í kyndistöðinni og næststærstur er Fljótsdalshreppur, en ljóst má vera að um töluvert hagsmunamál er að ræða fyrir skógarbændur. Samningur hefur verið gerður við Skógrækt ríkisins sem tryggir kyndistöðinni hráefni í upphafi. Unnið verður áfram að frekari úþenslu verkefnisins og mætti hugsa sér að til dæmis sumarhúsabyggð eins og sú á Einarsstöðum yrði kynt upp með grisjunarviði í framtíðinni. Teikning nýbyggingar gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri gerir ráð fyrir að hún geti verið kynt upp með viðarkurli. Kurlhitaveita telst kolefnishlutlaus og því umhverfisvænn orkugjafi. Olía hefur fram til þessa verið notuð til kyndingar á Hallormsstað og barnaskólinn einn notaði til dæmis í fyrra um 13 þúsund lítra.

Hagkvæmt úrræði 

 

90% landsmanna búa við húshitun með jarðvarma. Hin 10% búa á köldum svæðum þar sem kynt er með raforku eða olíu. 1-3% landsmanna gætu nýtt viðarkurl sem orkugjafa innan 20 ára. Hafliði Hafliðason, verkefnisstjóri hjá Þróunarfélagi Austurlands, segir verkefnið keppa við niðurgreiðslu frá ríkinu, sem borgi rúman milljarð króna á ári í niðurgreiðslu til húshitunar á köldum svæðum. ,,Ég tel að ríkið ætti að geta sett nokkrar milljónir í þróunarverkefni af þessu tagi, sem getur svo orðið til að lækka það fjármagn sem ríkið ver í niðurgreiðslur,“ segir Hafliði. ,,Gjaldskrá RARIK hefur hækkað síðustu ár og ódýr umframorka jafnframt hækkað mikið í verði. Innan stjórnkerfisins er mikill áhugi á þessu verkefni. Hér er ekki einungis um að ræða hagkvæman og umhverfisvænan kost í kyndingu, heldur skapar þetta störf við skógarhögg og vinnslu á fremur verðlitlum grisjunarvið ásamt fleiri jákvæðum hliðaráhrifum.“ Opnuð verður vefsíða um verkefnið innan tíðar. Ýmsar hagnýtar rannsóknir hafa farið fram vegna verkefnisins og m.a. annars er þurrkun timburs nú í athugun.

  --   Austfirskar krásir stefna að upprunamerkingu allra afurða fjórðungsins  Austfirðingar viti hvað er austfirskt 

 

Verkefnið Austfirskar krásir hófst fyrir alvöru síðasta vor. Nú er kominn í loftið vefurinn www.krasir.is og vinna framundan við að setja meira inn á hana. Jafnframt er búið að hanna merki fyrir Austfirskar krásir, en það er mikilvægt því markmiðið er að allar þær afurðir/matvæli sem framleidd eru úr austfirsku hráefni og á Austurlandi beri þetta merki í framtíðinni og framleiðendur þeirra séu aðilar að samtökunum. Aðstandendur verkefnisins tóku þátt í matreiðslukeppni landshlutanna á sýningunni Frístundir og ferðalög sem haldin var í Reykjavík í maí og fóru þar með sigur af hólmi.

Um 20 aðilar eru að Austfirskum krásum og mikill vilji til að fjöldi þeirra aukist til muna. Þátttakendur eru meðal annars veitingahús, stórir og smáir framleiðendur og fólk í vöruþróun. Tilgangur Austfirskra krása er fyrst og fremst að leggja áherslu á og vekja athygli á þann mat sem framleiddur er á Austurlandi. Veitingahús geti keypt hráefni af framleiðendum innan fjórðungs og sérmerkt það á matseðlum. Öll matvara úr fjórðungnum hafi upprunamerkingu. Ber, sveppir, nautatungur, lífrænt ræktað grænmeti og korn, fíflahunang, sláturterta, geitakjöt, nauta- og lambakjöt eru allt dæmi um austfirskar afurðir. Sérstakur hreindýraklasi á Austurlandi er meðal annars að hefja athuganir á hvernig unnt sé að tryggja framboð á hreindýrakjöti til austfirskra veitingahúsa. ,,Local food“ samtök eru nú í öllum landshlutum, eiga með sér samstarf og nota svipuð upprunamerki.

Austfirskar krásir og verkefnisstjóri þeirra innan Vaxtarsamnings Austurlands, Halla Hafbergsdóttir, undirbúa nú ráðstefnu 6. október. Hún verður á Gistihúsinu Egilsstöðum og þar á að ræða ,,Slow food“ stefnuna, Þórarinn Egilsson mun kynna ostagerð og Matvælasetur Austurlands verður kynnt. Eirný Sigurðardóttir í ostabúðinni Búrinu í Reykjavík mun fjalla um hugmyndir að vörum sem fólk leitar eftir. Boðið verður upp á austfirskar krásir á ráðstefnunni.

 --  Möguleikar í lífrænni ræktun á Austurlandi kannaðir – mjólkin fyrst til athugunar  Sjálfbærni í matvælaframleiðslu 

 

Efling lífrænnar framleiðslu á Austurlandi er eitt þeirra verkefna sem Vaxtarsamningur Austurlands kemur að. Með verkefninu á að auka verðmætasköpun og arðsemi í matvælaframleiðslu á svæðinu. Í byrjun hefur verið lögð áhersla á að styrkja stoðir þeirra bænda sem sjá möguleika á lífrænni mjólkurframleiðslu.

Ellefu kúabændur, tveir sauðfjár- og geitabændur, mjólkurfræðingur frá Auðhumlu á Egilsstöðum og Þórarinn Lárusson hjá Framfarafélagi Fljótsdalshéraðs fóru til Danmerkur í vor til að kynna sér möguleika á heimavinnslu og lífræna framleiðslu mjólkur. Framfarafélagið er með í gangi verkefnið Austurbrú, um lífræna framleiðslu. Þórarinn er jafnframt verkefnisstjóri eflingar lífrænnar framleiðslu á Austurlandi og gegnir starfi ráðunautar hjá Búnaðarsambandi Austurlands. Fimm bú voru skoðuð í ferðinni auk fjögurra mjólkursamlaga sem vinna úr lífrænni mjólk. Ljóst er eftir ferðina að lífræn framleiðsla mjólkur í Danmörku fær hærri styrki en hefðbundin framleiðsla. Lífræn dönsk mjólk er ekki fitusprengd. Töluvert meira pappírsfargan virðist fylgja lífrænu framleiðslunni vegna ýmissa ákvæða um sérstaka skráningu. Kúakyn virðast henta misjafnlega vel í lífræna framleiðslu og sumar tegundir ganga ekki vegna burðarerfiðleika. Rík áhersla er lögð á varlega meðhöndlun mjólkur í vinnsluferlinu og að vegalengdir frá býli til vinnslustöðvar og þaðan í verslun sé sem allra stystar. Um 20% danskrar kúamjólkurframleiðslu er lífræn. Auk hærri styrkja til lífrænnar mjólkur greiðir danska ríkið aukaálag með mjólk þar sem kýr fá þurrhey. Þarf enda um 50% stærra ræktunarland fyrir lífræna framleiðslu en hefðbundna. Hins vegar fer lífræn framleiðsla mun betur með ræktarland og frjósemi þess, enda er öll notkun eiturefna og erfðabreytts fóðurs bönnuð. Kjarnfóður þarf að hafa lífræna vottun og bannað er að nota tilbúinn áburð. Áhuga ferðalanganna íslensku vakti markaðssetning afurða framleiddra úr heimafengnu fóðri. Í því samhengi má velta fyrir sér hvort framleiða mætti mestan hluta kjarnfóðurs úr íslensku byggi, heyi, fiskimjöli og kalkþörungamjöli og auka þannig sjálfbærni í matvælaframleiðslu.

Efling lífrænnar framleiðslu á Austurlandi er framtíðarverkefni og enn að mörgu leyti í mótun. Í grunninn er markmið þess að byggja upp samstarf og móta sameiginlega ímynd fyrir framleiðendur á svæðinu, samhliða auknum stuðningi og ráðgjöf við nýsköpun og vöruþróun í greininni.

Helstu styrktaraðilar verkefnisins eru, auk Vaxtarsamnings Austurlands, Auðhumla/MS, Búnaðarsamband Austurlands og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

   Heimildir: Þórarinn Lárusson, www.austur.is, Bændablaðið 10.09.2009, grein Halldóru Andrésdóttur.  

-

-

 

Vetrarferðamennska í björtum nóttum austfirska snemmvorsins  Nýr vinkill á samstarfi ferðaþjónustuaðila 

 

Verkefni Vaxtarsamnings um vetrarferðaþjónustu miðar að því að nýta betur þær fjárfestingar sem þegar eru í ferðamannvirkjum og búnaði. Ásta Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Austurlands, segir lítið vit í að bæta meiru á sumrin, sem þegar séu vel bókuð. Til að fleiri ársverk skapist í ferðaþjónustu eigi að horfa á veturinn, ekki síst snemmvors. ,,Menn eru gríðarlega þreyttir eftir sumarvertíðina svo það að lengja haustið er varla raunhæft. Við horfum til þess að ferðamannatíminn byrji fyrr á vorin og að við fáum nýtingu á mars, apríl og maí. Um miðjan júní skellur annríkið á af fullum þunga. Á vorin gætum við jafnvel bætt við þriðjungi af ársverkum í beinni ferðaþjónustu.“

Lögð verður áhersla á að ferðamaðurinn geti upplifað veturinn að vori, þegar veður eru ekki lengur válynd og dagurinn orðinn lengri. Horft er, svo fátt eitt sé nefnt, til vélsleðaferða um fjöll og eyðifirði, gönguskíðaferða, jeppa- og sleðaferða um Vatnajökulsþjóðgarð, bjóða mætti ferðamönnum í ístölt á vötnum, í heitt bað og skoðun í íshelli eða á jökli og rómantískar og heilsusamlegar síðvetrarferðir.

Ekki er ætlunin að búa til fjöldaferðamennsku á þessum árstíma, heldur höfða til smærri hópa. Vandamálið er að þó náttúruperlurnar og ferðatækifærin séu fjölmörg, vantar í raun þjónustuaðilana. Engin vélsleðaleiga er t.a.m. á Austurlandi, þó vísir að slíku sé á Seyðisfirði. Menn hafa ekki efni á að liggja með mikið af tækjum. Því er markmiðið að safna saman fólki á Austurlandi sem er tilbúið til að leggja tæki sín í ferðaþjónustu og veita leiðsögn, þegar eftir því er kallað. Þá er hugmyndin að gefa vélsleða- eða jeppafólki utan fjórðungs tækifæri til að koma austur og taka þátt í skipulagðri ferð með leiðsögn. Þá fengju heimamenn nýtingu á gistingu, mat og leiðsögn og ekki þyrfti að koma til meiri fjárfesting en nú er til staðar. Ásta segir frumskilyrði að menn viti að þetta standi til boða. Því sé verið að taka upp myndband um austfirska vetrarferðaþjónustu, í samvinnu við Hjalta Stefánsson kvikmyndatökumann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.