Straumhvörf í hreindýrarannsóknum

Lengi hefur verið talið út frá nokkrum árlegum punktmælingum að sex til átta meginhjarðir hreindýra, alls um sex þúsund dýr, haldi sig fyrst og fremst á níu meginsvæðum sem spanni Austurland frá norðri til suðurs. Nú eru að koma fram sterkar vísbendingar um að hreindýrin fari mun meira á milli svæða en áður var haldið. Þessar upplýsingar gætu komið til með að hafa umtalsverð áhrif á stærð veiðikvóta og arð af hreindýraveiðum í framtíðinni, en þar eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Austfirðinga og eiga eftir að vaxa.

hreindr.jpg

Sjö dýr, tvö úr svonefndri Álftafjarðarhjörð og fimm úr Snæfellshjörðinni eru nú með hálsmerki sem senda einu sinni á sólarhring smáskilaboð (sms) símleiðis um staðsetningu hvers dýrs á þriggja tíma fresti. Stefnt er að því að fimmtán dýr beri slík hálsmerki næstu tvö árin rúmlega. Skarphéðinn G. Þórisson hreindýrasérfræðingur segir upplýsingarnar sem þetta gefur um far dýranna dag og nótt allan ársins hring eiga eftir að valda straumhvörfum í hreindýrarannsóknum hérlendis.

Bráðlega verður hægt að fylgjast með ferðum hreinkýrinnar Hneflu um Austurland á sérstakri vefsíðu sem Náttúrustofa Austurlands vinnur að.

 

Nánar í Austurglugganum 13. nóvember sl.; kort af fari hreindýranna og viðtal við Skarphéðinn. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.