Stór helgi

Úrslitaviðureign Útsvars, bikarkeppnin í blaki, Gettu betur og Idol-Stjörnuleit eru meðal helstu viðburða sem Austfirðingum standa til boða um helgina.

 

ImageÍ kvöld klukkan 20:15 hefst úrslitaviðureign Útsvars þar sem Fljótsdalshérað mætir Kópavogi. Fljótsdalshérað hefur á leið sinni í úrslitin slegið út Vestmannaeyjar, Norðurþing, Akureyri og Árborg og sett tvö stigamet á leiðinni. Kópavogsliðið er engan vegin auðveld bráð, sigurvegari seinasta árs með aðgangsharða fyrrum Gettu betur keppendur í fararbroddi.
Á Egilsstöðum er efnt til samkomu á Hótel Héraði þar sem keppni verður sýnd á breiðtjaldi. Aðgangseyrir er eitt þúsund krónur, hámark þrjú þúsund á fjölskyldu og frítt fyrir átta ára og yngri. Aðgangseyririnn rennur í nýstofnaðan tómstundasjóð Hattar.

Bikarkeppnin í blaki

Úrslit og undanúrslit bikarkeppninnar í blaki verða leikin í Laugardalshöll um helgina. Á morgun kl. 12:30 hefst leikur Þróttar Neskaupstað og C liðs Þróttar Reykjavíkur. Liðið sem vinnur leikur til úrslita á sunnudag gegn HK eða aðallið Þróttar R. Úrslitin hefjast klukkan 13:30.

Gettu betur

Á laugardagskvöld klukkan 20:05 mætast lið Menntaskólans á Egilsstöðum og Menntaskólans í Reykjavík í seinustu viðureign fjórðungsúrslita Gettu betur. Keppnin fer fram í Útsvarshúsinu við Efstaleiti. Lið ME skipa Urður María Sigurðardóttir, Hrólfur Eyjólfsson og Arnar Jón Guðmundsson en það sló út lið Menntaskólans á Ísafirði og Framhaldsskólans á Húsavík á leið sinni í sjónvarpið.

Idolið

Tveir Austfirðingar taka þátt í undanúrslitum karla í Idol - stjörnuleit. Tíu keppa en fimm komast áfram í aðalkeppnina. Eskfirðingurinn Sigurður Magnús Þorbergsson syngur lagið „Von mín er sú“ með Landi og sonum en Magnús Jón Árnason, frá Norðfirði, syngur „Hjálpaðu mér upp“ eftir Ný dönsk. Keppnin er í Vetrargarðinum í Smáralind og byrjar útsendingin klukkan 20:30.

Fleira

Körfuknattleiksleiktíðinni lýkur í kvöld þegar Höttur tekur á móti KFÍ klukkan 19:15 í kvöld. Leikurinn skiptir Hattarmenn litlu máli þar sem liðið er þegar fallið.
ð auki má nefna að þrír leikhópar á vegum Þjóðleiks frumsýna verk sín um helgina. Frumsýningar verða á Eskifirði og Seyðisfirði í kvöld og á Borgarfirði á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar