Lýðheilsa og íþróttir í Fjarðabyggð

Í Fjarðabyggð erum við stolt af því starfi sem unnið hefur verið í íþrótta- og æskulýðsmálum síðustu ár. Leiðarljós samstöðunnar hefur náðst þvert á stjórnmálaflokka að heilsa og líðan íbúa sé í fyrirrúmi allrar stefnumótunar og ákvarðanatöku. Meginmarkmiðið er að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilsusamlegum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan.

Að virkja einstaklinga og félagasamtök


Við skipulag tómstundastarfs í Fjarðabyggð hefur verið lögð áhersla á að virkja frjáls félagasamtök og hámarks nýtingu tómstundamannvirkja, íþróttabygginga, félagsmiðstöðva eða annarra bygginga. Félagsauður verður best virkjaður með þjónustu- og styrkjasamningum.

Í mars 2017 var Fjarðabyggð eitt þriggja sveitarfélaga á Austurlandi sem skrifuðu undir samstarfssamning við Embætti landlæknis sem Heilsueflandi samfélag. Sem felur í sér markvissa og heildræna heilsueflingu allra aldurshópa. Frá árinu 2022 hefur Fjarðabyggð staðið fyrir verkefninu Fjölþætt heilsuefling fyrir íbúa 65 ára og eldri í samstarfi við Janus – heilsuefling. Fjöldi þátttakenda er vonum framar og árangur gríðarlegur. 93% þátttakanda segja verkefnið hafa haft jákvæð áhrif á eigin heilsu og 79% segja það hafa bætt andlega líðan.

Málefnasamningur lífsgæða og lýðheilsu


Nýr meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Fjarðabyggð hefur kynnt málefnasamning með áherslum á lífsgæði, lýðheilsu og íþróttastarf. Horft er til samvinnu og samstarfs þvert á byggðarkjarna og fjárhagslegrar sjálfbærni svo Fjarðabyggð geti áfram eflst og dafnað.
Meðal mikilvægra þátta málefnasamningsins í að halda áfram góðu íþrótta- og lýðheilsustarfi eru:

• Ráðist verður í hönnun og undirbúning á uppgerð íþróttahúss Eskifjarðar. Húsið verði komið í notkun haustið 2025.

• Stigin verða fyrstu skref í einangrun og upphitun Fjarðabyggðarhallar fyrir lok kjörtímabils og leitað leiða við framkvæmdir og fjármögnun.

• Skoðaðar verða útfærslur á umgjörð íþrótta- og æskulýðsmála í Fjarðabyggð með það fyrir augum að efla mikilvægt starf en um leið horft til hagræðingar í rekstri.

• Í samstarfi notenda og hagsmunaaðila verður rekstur Skíðasvæðisins í Oddskarði greindur með það fyrir augum hvernig hægt sé að efla það til framtíðar.

• Unnið verður að gerð göngu- og hjólastíga innan Fjarðabyggðar til að efla lýðheilsu og lífsgæði.

Nýr meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Fjarðabyggð hefur kynnt málefnasamning með áherslum á lífsgæði, lýðheilsu og íþróttastarf. Samningurinn ber með sér metnað. Það er allra hagur að setja lýðheilsu í heilsueflandi samfélagi áfram í forgrunn. Þannig gerum við betur í Fjarðabyggð.

Jóhanna Sigfúsdóttir er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Elís Pétur Elísson er varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.