Stjórnvöld virða ekki mannréttindi

Þorkell Ásgeir Jóhannsson skrifar:      Í fyrra var felldur úrskurður þess efnis, að íslenska ríkið fremdi mannréttindabrot á íslenskum sjómönnum. Þessi úrskurður kom frá ekki minni stofnun en mannréttindaráði SÞ og var í samræmi við mannréttindasáttmála SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Hvað skyldi nú hafa verið gert til að bregðast við þessum úrskurði SÞ? Svarið er einfalt: ekkert! Kvótakerfið, sem gerir íslenskum sjómönnum ókleift að stunda vinnu sína nema gegn yfirþyrmandi okurleigu á kvóta, stendur enn með öllu óbreytt. Í lok svarfrests íslenskra stjórnvalda sendi þó þáverandi sjávarútvegsráðherra sitt svar, ef svar skyldi kalla. Það fól í raun í sér hreina hunsun á úrskurði mannréttindaráðsins. Jafnframt hefur því verið slegið fram af sjálfstæðismönnum að mannréttindaráð SÞ sé „teklúbbur“, „saumaklúbbur“ og jafnvel eitthvað þaðan af óvirðulegra, en punkturinn yfir „i“-ið var þó þegar fenginn var háskólaprófessor til að ljúga því að alþjóð í sjónvarpsfréttum, að Íslendingar væru ekki skuldbundnir til að hlíta úrskurðinum.

Nú ber hins vegar svo við að ný ríkisstjórn Samfylkingar og VG er við völd. Skyldi nú mega vænta leiðréttinga þaðan, varðandi þessi brot á mannréttindum?  Mér lék hugur á að vita þetta og nýtti mér því tækifærið á opnum stjórnmálafundi, sem haldinn var í Deiglunni á Akureyri fimmtudaginn 2. apríl, því þar sátu í pallborði oddvitar allra flokka og framboða í norðausturkjördæmi.

Spurningu minni, um viðbrögð núverandi stjórnar við þessum úrskurði SÞ, beindi ég fyrst og fremst til fulltrúa stjórnarflokkanna, en svo vildi til að það voru einmitt ráðherrarnir  Kristján Möller og Steingrímur J. Sigfússon. En svo hagaði til að spurning mín var borin upp í samfloti við nokkrar fleiri, sem bárust úr salnum á sama tíma. Og svo slysalega tókst til að ráðherrarnir „gleymdu“ spurningu minni um mannréttindabrotin, og það þrátt fyrir að þeir hafi punktað niður hjá sér spurninguna meðan ég bar hana fram, auk þess sem aðrir fulltrúar við pallborðið fjölluðu um hana áður en röðin kom að þeim félögum. Í lok fundarins tókst mér reyndar að bera þetta aftur upp við Kristján Möller, sem þá svaraði því einu til að mannréttindaráði SÞ hefði þegar verið svarað af þáverandi stjórnvöldum. Má af því ráða að Samfylkingin sé þá sömu skoðunar og sjálfstæðismenn, s.s. að ekki beri að hlíta úrskurði SÞ. En þessi fimi ráðherranna í að víkja sér hjá að svara spurningunni er í raun merkilegt svar á sína vísu, því betur sem annar þeirra, Steingrímur, er sjálfur ráðherra málaflokksins.

Hér er hins vegar um stóralvarlegan hlut að ræða, burt séð frá innihaldi málsins, því nú liggur fyrir að íslensk stjórnvöld virða ekki mannréttindaráð SÞ. Það þýðir að íslenskir þegnar eru í raun sviptir því réttarúrræði sem þar var að finna. Ef íslenskir kjósendur láta það yfir sig ganga nú, eigum við á hættu að það verði fordæmisgefandi til frambúðar.
  

                                       Höfurndur er flugmaður, og skipar 5. sæti á lista Frjálslyndra í NA-kjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.