Starfsfærnimat framar starfsgetumati

Rétt er að byrja á að taka skýrt fram að umræðan um starfsfærnimat og starfsgetumat kemur umræðunni um krónu á móti krónu skerðingunni alls ekkert við. Vel er hægt að keyra það í gegnum Alþingi án þess að blanda þessu tvennu saman, sem virðist vera tilhneiging ríkisstjórnarflokkanna. Hugsanlega til þess að nýta krónu á móti krónu umræðuna til þess að þrýsta starfsgetumati í gegn?

Starfsgetumati mætti lýsa sem hugmynd sem í upphafi hafði jákvæðan tilgang, þess efnis að ýta undir tækifæri öryrkja til að komast út á vinnumarkaðinn. Þróun hugmyndarinnar hefur hinsvegar öll verið á þann veg að hún snýst orðið um prósentur, þ.e. að einstaklingur sem til dæmis kæmi út úr slíku mati með metna starfsgetu uppá 40% ætti þá skilgreina með 60% örorku.

Erum við bættari með þessum aðferðum? Vitum við eitthvað meira um það hvar styrkleikar viðkomandi liggja? Vitum við eitthvað meira um tækifæri viðkomandi? Er prósenta stöðugt ástand eða breytilegt? Er vinnumarkaðurinn tilbúinn fyrir hundruðir eða þúsundir hlutastarfa?

Ég hygg að svarið við þessum spurningum sé því miður nei. Hinsvegar getum við frekar notað hugtakið STARFSFÆRNIMAT. Þar yrði leitast við að greina hvaða tækifæri hver og einn sem undirgengst slíkt mat hefði til að auka möguleika sína á vinnumarkaði. Hvað á ég við með þessu? Jú, nefnilega í stað einhverra kerfislægrar prósentuleikfimi þá skoðum við hvaða langanir og hvaða styrkleika hver og einn hefur. Dæmi: Verkamaður með grunnskólapróf sem starfað hefur í byggingavinnu getur vegna breytinga á heilsufari ekki sinnt þess háttar störfum lengur. Í stað þess að reikna færni hans í prósentum færi fram mat sem greindi færni viðkomandi. Niðurstaðan gæti, t.d. verið sú að viðkomandi væri með bílpróf, gæti þar með vel sinnt aksturstengdum störfum. Tækifærin væru, m.a. fólgin í námskeiði til aukinna ökuréttinda sem og þungavinnuvélanámskeiðs. Í framhaldi gæti svo tekið við greiðsluþátttökukerfi sem gerði viðkomandi kleift að nýta þessi tækifæri til að bæta stöðu sína á vinnumarkaði.

Þessi nálgun skiptir að mínu mati öllu máli. Mannleg reisn verður að vera leiðarstef í því hvernig við nálgumst kerfisbreytingar á þessu sviði sem og öðrum.

Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar