SSA vill næstu göng undir Fjarðarheiði!

Hafandi búið á Austurlandi meirihluta ævinnar þá skynja ég sterkt þær miklu framfarir og sameiningarmátt sem felast í samgöngubótum. Á stuttum tíma höfum við íbúar Austurlands fengið að upplifa tvær byltingar af þessum toga, opnun Fáskrúðsfjarðarganga 2005 og svo vígslu Norðfjarðarganga í nóvember 2017. Áhrifin eru stórkostleg og snerta alla þætti mannlegrar tilveru.

Þau hvetja og til frekari framkvæmda og því eðlilegt að kanna hvað Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) lagði til um gangagerð á síðasta aðalfundi sínum. Hér fylgir orðrétt ályktunin sem fundurinn beindi til hæstvirts Alþingis varðandi jarðgöng:

„Aðalfundur SSA haldinn á Breiðdalsvík 29. og 30. september 2017 ítrekar mikilvægi þess að tengja byggðir á Austurlandi með samgöngum til þess að rjúfa vetrareinangrun og efla framtíðarmöguleika svæðisins sem eins atvinnu- og þjónustusvæðis. Tryggja verður, á fjárlögum næsta árs, fjármagn til jarðganga undir Fjarðarheiði á milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar, sem er forgangsverkefni í jarðgangnagerð á Austurlandi, enda aðstæður íbúa á Seyðisfirði slíkar á vetrum að ekki verður við það unað lengur. Þá þarf að ráðast í rannsóknir á öðrum gangnakostum, á milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð. Lögð er áhersla á að við gerð og uppsetningu samgönguáætlunar og gerð fjárlaga verði jarðgangnagerð og rannsóknir vegna þeirra fjármagnaðar með sérstökum hætti þannig að aðrar mikilvægar framkvæmdir í samgöngumálum landshlutans dragist ekki sökum fjárskorts. Næstu verkefni í jarðgangnagerð á Austurlandi eru göng til að tengja annars vegar Borgarfjörð og hins vegar Vopnafjörð við miðsvæðið.“

Svo mörg voru þau orð sem kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar á Austurlandi sendu Alþingi af þeim vettvangi sem þeir hafa valið til að tjá sig frá sem einn aðili fyrir hönd okkar íbúanna. SSA talar tæpitungulaust og vill næst gera göng undir Fjarðarheiðina og beinir því til Alþingis að tryggja til þeirra nauðsynlegt fjármagn. Víst má telja í lýðræðissamfélagi, að allar sveitarstjórnir á Austurlandi virði þessa skýru ályktun SSA og að Alþingi fari eftir henni. Það er vel því þá yrði, að loknum forrannsóknum á Fjarðarheiði og fjármögnun, hægt að hefjast handa við þetta forgangsverkefni í jarðgangnagerð á Austurlandi eins og síðasti aðalfundur SSA orðar það svo vel.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.