Sprettur úthlutar styrkjum til 13 umsækjenda

Úthlutað hefur verið 900 þúsund krónum úr Spretti, styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA), til þrettán umsækjenda. Tveir afreksstyrkir voru veittir til einstaklinga upp á 100.000 krónur. Bjarni Jens Kristinsson, skákmaður, og Helena Kristín Gunnarsdóttir, blakkona, fengu þá. Að auki var úthlutað iðkendastyrkjum, þjálfarastyrkjum og félagsstyrkjum.

sprettur2_vefur.jpg

Bjarni Jens

Bjarni Jens Kristinsson er 18 ára skákmaður, búsettur á Hallormsstað. Hann varð nýverið Norðurlandameistari framhaldsskóla með sveit Menntaskólans í Reykjavík og náði ágætum árangri á heimsmeistaramóti unglinga í skák sem fram fór í Tyrklandi í nóvember.

,,Það má segja að styrkurinn úr Spretti hafi komið mér til Tyrklands. Við þurftum sjálf að borga stóran hluta ferðarinnar, sem var tvær vikur. Ég lít líka á styrkinn sem hrós og það er gaman að vita að aðrir taki eftir því sem maður er að gera," segir Bjarni Jens.

 

Helena Kristín

Helena Kristín Gunnarsdóttir er 17 ára og spilar blak með Þrótti í Neskaupstað. Á árinu var hún valin efnilegasta blakkona ársins fyrir utan að spila með þremur landsliðum, U-17, U-19 og A-landsliðinu, meðal annars á Smáþjóðaleikunum. Seinasta verkefni Helenu á árinu var með U-17 ára landsliðinu í Danmörku í vikunni fyrir jól en hún kom heim til Neskaupstaðar á aðfangadag.

,,Styrkurinn hjálpar mér að taka þátt í fleiri verkefnum. Ég hef tekið þátt í þremur landsliðsverkefnum í ár og þetta kostar mikið. Fjölskyldan hefur stytt mig og án hennar hefði ég alls ekki getað þetta. Styrkurinn gerir að verkum að ég þarf kannski ekki að leita alveg jafn mikið til þeirra á næstunni," segir Helena Kristín.

 

Um Sprett

Í sumar var endurnýjað samkomulag Alcoa Fjarðaáls og UÍA um styrktarsjóðinn Sprett. Gerðar voru ákveðnar breytingar á forsendum sjóðsins. Hann er nú einkum ætlaður til að styrkja íþróttaiðkun barna og unglinga með einkunnarorð Alcoa um afburði (excellence) að leiðarljósi. Alcoa Fjarðaál sér um fjármögnun sjóðsins en UÍA um skipulag og utanumhald. Aðilar skipa sameiginlega úthlutunarnefnd sem fer yfir umsóknir og úthlutar úr sjónum.  Úr sjóðnum er úthlutað fjórum gerðum styrkja sem nánar er gerð grein fyrir í úthlutunarreglum. Þetta eru afreksstyrkir, iðkendastyrkir, þjálfarastyrkir og félagastyrkir.  Stefnt er að því að til framtíðar verði úthlutað úr sjóðnum tvisvar á ári en í ár var aðeins ein úthlutun.

sprettur1_vefur.jpg

(Úr fréttatilkynningu)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.