Smásölufiskmarkaður fyrir almenning

Leiðari Austurgluggans 13. nóvember 2009:

 

Sjávarfangið er okkar dýrasta auðlind ásamt náttúru landsins. Oft hef ég velt því fyrir mér síðan ég fann mér minn stað í veröldinni á Austurlandi, af hverju erfitt getur verið að kaupa góðan fisk hér í fjórðungnum. Ekki síst í byggðunum þar sem aflinn kemur í land til verkunar eða flutnings.

austurglugginn.jpg

Ég er ekki að tala um fólkið sem gegnum sambönd fær ferskan fisk heim í pokum gegn gjaldi, heldur okkur hin sem þekkjum ekki þannig til og þurfum að kaupa okkar fisk í verslunum fjórðungsins. Þar er kannski skítsæmilegt úrval af frosnum fiski en sjaldnar ferskan fisk að fá. Og ekkert umfram hið venjubundna og algenga. Hér undanskil ég að vísu fisksölu Kalla Sveins á Borgarfirði eystra. Því er ég að tuða þetta að ég rakst á klausu frá Rannsóknasjóði í sjávarútvegi um smásölufiskmarkaði fyrir almenning. Ég varð öll ein augu, því þessa saknar maður mest eftir að hafa búið erlendis; markaða með fersk matvæli, krydd, grænmeti og ávexti.

 

Rannsóknarsjóðurinn (AVS) hefur látið taka saman upplýsingar á möguleika fiskmarkaða fyrir almenning, þar sem gestir og gangandi gætu kynnst óþrjótandi möguleikum íslensks sjávarfangs, komist í tæri við afurðirnar og keypt sér spennandi hráefni til matargerðar. Þeirri spurningu er varpað fram af hverju ekki tíðkist á Íslandi að almenningur geti keypt ferskan fisk á hafnarbakkanum eða á fiskmarkaði. Ísland sé þekkt fyrir mikil og góð fiskimið og fiskafurðir af miklum gæðum. Hvers vegna er þá ekki gert meira út á upplifun í tengslum við fiskinn, bæði gagnvart landsmönnum og ferðafólki? AVS segir að margir hafi jú sýnt hugmyndinni um fiskmarkað áhuga, en af einhverjum ástæðum hafi enginn komið henni í framkvæmd. Nú er lokið sérstöku verkefni; Fiskmarkaður fyrir almenning, um hver grundvöllur gæti verið fyrir slíkum fiskmörkuðum á Íslandi ásamt tillögum um hvernig standa mætti að slíku. Skýrslu verkefnisins má finna á vefnum www.avs.is og er hún hin fróðlegasta lesning. Ég vil hvetja Austfirðinga til að huga að þessu, því hér ætti að vera grundvöllur fyrir smásölumarkaði á ferskum fiski. Ég skal verða kaupandi nr. 1.

 Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.