Skip to main content

Skapar væntanlega 15 ný störf

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.26. mars 2009

Ýmsar tillögur Norðausturnefndarinnar virðast ætla að verða að veruleika. Nýsköpunarmiðstöð mun verða sett á fót á Egilsstöðum og Húsavík fyrripart ársins og koma á upp mennta-, menningar- og nýsköpunarsetri á Vopnafirði. Á að veita átta milljónum króna til verkefnisins og ráða í 1,5 stöðugildi. Þá stendur til að ráða einn starfsmann á Seyðisfirði til að samþætta þar ýmiss konar menningarstarfsemi með aðkomu menningarstofnana sem þar eru fyrir.

Þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í gær, þegar hún svaraði fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur þingmanns um framgang hugmynda úr skýrslu Norðausturnefndarinnar. Fram kom hjá Jóhönnu að stutt verði áfram við verkefni Þróunarfélags Austurlands og Alcoa Fjarðaáls um álfullvinnsluverksmiðju á Seyðisfirði. Ekki verður af þeirri hugmynd að efla heilabilunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Seyðisfirði vegna fjárhagsvanda stofnunarinnar.

 

Norðausturnefndin lagði sautján verkefni til grundvallar á Norður- og Austurlandi og áttu þau að skapa 19,5 stöðugildi. Útlit er fyrir að í reynd verði þau 15.