Segir óskyldum málefnum blandað saman

Stefán Stefánsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Þróunarfélag Austurlands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta af sölu Malarvinnslunnar og aðkomu hans að henni. ,,Vegna umfjöllunar í Svæðisútvarpi Austurlands og fréttatímum RÚV um málefni Þróunarfélags Austurlands vill undirritaður taka fram: Ríkisútvarpið flutti 6. nóvember ítrekað fréttir af sölu Malarvinnslunnar til Kaupfélags Héraðsbúa og aðkomu minni að því máli. Öll var framsetningin á þann máta að glæpur hefði verið framinn og að ég undirritaður hefði framið glæpinn. Slegið var fram, án nokkurs rökstuðnings, að minn þáttur í málinu væri ,,sorglegur" og ,,siðlaus" svo dæmi séu tekin.

Hvergi í þessari umfjöllun Fréttastofu Ríkisútvarpsins kemur fram hvaða brot ég eigi að hafa framið. Í því sambandi get ég upplýst að félag í minni eigu kom að sér verkefni, á árinu 2007, sem snerist um þessa sölu á Malarvinnslunni. Þessi verktaka var í fullu samræmi við ráðningarsamning minn sem framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands. Þetta er staðfest af stjórnarformanni Þróunarfélagsins. Því síður voru nokkur lög eða aðrar reglur brotnar í þessu verkefni. Þá bendi ég á að aldrei hefur verið gerður ágreiningur um störf mín fyrir Þróunarfélagið, svo sem sjá má af fundargerðum stjórnar.
Ég harma að í fréttaumfjöllun Ríkisútvarpsins hefur verið blandað saman óskyldum málefnum og með því vegið að starfsheiðri mínum og heiðarleika.
Þróunarfélag Austurlands hefur markvisst byggst upp á síðustu árum og starfsmönnum fjölgað samhliða auknum tekjum, sér í lagi erlendis frá.
Ég kveð því félagið mun öflugra en það var þegar ég tók þar við framkvæmdastjórn.

Virðingarfyllst,
Stefán Stefánsson.“  

Fréttir af málinu:

 http://www.austurglugginn.is/index.php/200910292330/Austurland/Ymislegt/Framkvaemdastjori_Throunarfelags_Austurlands_haettur

http://www.austurglugginn.is/index.php/200911042351/Austurland/Ymislegt/Hafdi_hag_af_solu_Malarvinnslunnar_til_KHB

http://www.austurglugginn.is/index.php/200911062356/Austurland/Ymislegt/Haflidi_radinn_framkvaemdastjori_Throunarfelagsins 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.