Öryggi íslenskra sjómanna og sjómannaafslátturinn

Það var alvarleg frétt sem birtist á visir.is 5.febrúar síðastliðin, og fékk að mínu mati ekki næga athygli fjölmiðla. Þar var sagt frá skipverja á Sturlaugi Böðvarssyni AK sem var haldið gangandi á sprengitöflum og súrefni, svo að notuð séu hans eigin orð. Maðurinn sem reyndist vera með hjartasjúkdóm var staddur sjötíu mílur frá landi, og þar með næsta spítala. Samband var haft við þyrlu Landhelgisgæslunnar, en þaðan bárust þau svör að ekki væri hægt að sækja sjómanninn þar sem að aðeins ein þyrla væri á vakt. Samkvæmt starfsreglum LHG er ekki gert ráð fyrir því að þyrla fari lengra en 20 sjómílur frá landi þegar þannig stendur á. Vegna þessa þurfti að sigla með manninn til hafnar í Reykjavík, þar sem hann komst loks undir læknishendur, og í bráðaaðgerð, heilum 10 klukkutímum frá því að hann kenndi sér meins.

 

eirikur_gudmundsson.jpgÁ síðastliðnu ári hefur Landhelgisgæslan mátt þola umtalsverðan niðurskurð. Flugmönnum var sagt upp í fyrra auk þess sem gæslunni hefur verið gert að skera niður kostnað sinn um 300 milljónir króna á þessu ári. Frá því að flugmönnunum var fækkað hefur ekki verið hægt að manna báðar þyrlurnar, eins og áður. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu gríðarleg áhrif þessi niðurskurður hefur á öryggi sjómanna okkar íslendinga. Í ofanálag hefur nú verandi velferðarstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ráðist í að afnema sjómannaafsláttinn í þrepum. 1. janúar 2014 mun hann verða úr sögunni. Í athugasemdum við fjárlagafrumvarpið , er talað um að forsendur fyrir sjómannaafslættinum hafi breyst mjög frá því sem áður var. Þar er meðal annars nefndar langar fjarvistir frá heimili og slæmar vinnuaðstæður. Það er kolrangt. Vissulega er allur gangur á því hversu lengi menn eru út á sjó hverju sinni, og einhverjar starfstéttir búa einnig við slíkt. Munurinn er hins vegar sá að þær eru með fast land undir fótum. Það getur svo ekki flokkast annað en sem slæmar vinnuaðstæður að búa við það að ef þú ert svo óheppinn að veikjast eða slasast lengra frá landi en 20 sjómílur sé alls ekkert víst hvort að hjálp sé í boði til að koma þér undir læknishendur.

Samt sem áður var ráðist í þessa skerðingu , þrátt fyrir að aðilar sjávarútvegsins mótmæltu á fundi efnahags- og skattanefndar. Fyrir kosningarnar í fyrra hitti ég ungan sjómann á Akureyri sem mætti á kosningaskrifstofu Frjálslynda flokksins með litlu fjölskylduna sína, konu og unga dóttur. Hann hafði áhyggjur af þeim niðurskurði sem þá hafði þegar verið boðaður hjá Landhelgisgæslunni. Við ræddum til að mynda um hugmyndir um hátekjuskatt, sem að margir sjómenn myndu greiða, með eða án sjómannaafsláttar. Þessi ungi sjómaður sagðist glaður myndi leggja sitt af mörkum til ríkissjóðs, en það væri þá eðlileg krafa að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af öryggi sínu. Mikið er ég sammála honum.

Hvað er að ávinnast með afnámi sjómannaafsláttar? Samkvæmt frétt frá ríkisskattstjóra , frá júlí í fyrra,fengu 5.736 sjómenn rétt rúman 1,1 milljarð kr. í  sérstakan skattaafslátt vegna vinnu til sjós á síðasta ári. Samkvæmt frumvarpi velferðarstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að lækka sjómannaafsláttinn um 25% á ári fram til ársins 2014 eins og fyrr segir. 275 milljónir ættu því að fást í kassann þetta árið. Þegar að Ragna Árnadóttir var spurð um stöðu gæslunnar í kjölfar fréttarinnar sem ég vitnaði í hérna í byrjun sagði hún einfaldlega að þetta væri ekki gott og að þessu þyrfti að breyta, alveg eins og talað úr munni ráðherra með flokkskírteini í Samfylkingunni. Svipuð var reyndar yfirlýsing hennar á Alþingi fyrir rétt tæpu ári. Síðan hefur lítið gerst. Hérna blasir við okkur enn eitt dæmið um það hversu vanhæf þessi ríkisstjórn er til að leita leiða til að ná sátt um þá hluti sem hún tekur sér fyrir hendur. Það þarf ekki mörg háskólapróf til að sjá að með því að veita þeim peningum sem fást með afnámi sjómannaafláttarins til Landhelgisgæslunnar væri í það minnsta stórt skref stigið til betri vegar. Þeir peningar kæmu í raun úr vasa sjómanna, þeirra sem mest þurfa á þjónustu gæslunnar að halda. Ríkissjóður héldi eftir sem áður þeim fjármunum sem skornir voru af til að byrja með. Ég get ekki ímyndað mér annað en að sjómenn væru þá í það minnsta sáttari með sína skerðingu, við hin gætum svo andað aðeins léttar yfir því að mennirnir sem skapa svo stóran hluta af tekjum þjóðarbúsins væru í það minnsta töluvert öruggari í starfi sínu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.