Ríkið yfirtaki eignir skuldara

L-listi fullveldissinna vill að ríkið stofni sérstakan sjóð sem yfirtekur fasteignir þeirra fjölskyldna sem hafa skuldsett sig umfram fjárhagslega getu. Fyrri eigendur fái síðan forleigurétt og forkaupsrétt að eignunum. Aðferð þessi er þekkt og var notuð hér á landi með góðum árangri í Kreppunni miklu á fjórða áratug 20. aldar.
lveldisflokkurinn.jpg

Jafnframt þessu þarf að rýmka verulega allar heimildir lánastofnana til greiðsluaðlögunar og lengingar lána þannig að sem flest heimili fái haldið eignum sínum.

Mikilvægt er að lágmarka eftir megni öll útgjöld ríkissjóðs en gæta jafnframt jafnræðis við lausn á vanda heimilanna. Þessvegna leggur L-listi fullveldissinna áherslu á þá aðferð að ríkissjóður leysi til sín eignir með yfirtöku skulda en gefi skuldurum jafnframt kost á að nýta eignirnar áfram með greiðslu á sanngjarnri leigu. Jafnframt fengju heimilin forkaupsrétt að íbúðarhúsnæði fjölskyldunnar og rýmileg kjör til að nýta sér þann rétt. Sömu leið má í ákveðnum tilvikum fara gagnvart öðrum eignum s.s. bújörðum og atvinnutækjum einyrkja.

Ríkissjóður fengi þannig eignir fyrir þá peninga sem skattgreiðendur leggja fram en fjölskyldum í landinu er forðað frá sársaukafullu ferli sem fylgir því að tapa heimilum sínum.



Ljóst er að þessi leið krefst mikillar yfirlegu og bakvið hvert einstakt tilvik þarf að vinna vandaða úttekt á fjármálum viðkomandi. Til þess verks er hægt að ráða hluta þeirra fjölmörgu fagaðila sem á undanförnum mánuðum hafa misst vinnuna.

L-listi fullveldissinna fagnar framkomnum hugmyndum Alþingis um frestun aðfaragerða en telur að enn frekari aðgerða sé þörf til að skapa nauðsynlegan frest fyrir skuldara meðan umfangsmikil úttekt á fjárhag heimilanna fer fram.

L-listi fullveldissinna varar við hugmyndum sem miða að því að ríkið deili peningum til allra skuldara, burtséð frá þörf þeirra fyrir aðstoð. Aldrei hefur verið meiri þörf á að ríkið haldi fast utan um þá litlu fjármuni sem til ráðstöfunar eru og því háskalegt að í aðdraganda kosninga skuli stjórnmálaflokkar leika sér að yfirboðum sem miða að flötum niðurskurði allra lána.

Þá telur L-listi fullveldissinna að allar hugmyndir um flatan niðurskurð á skuldum fyrirtækja séu misráðnar enda aðeins hluti fyrirtækja landsins í raunverulegum erfiðleikum og sum þeirra svo illa stödd að varasamt er að lengja um of líftíma þeirra.

 (Fréttatilkynning, L-listi fullveldissinna 19. mars 2009)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.