Í Þorpinu sjá menn fyrir sér alþjóðlegt samstarf um svæðisbundna uppbyggingu

Eftir bankahrunið og með auknu atvinnuleysi hófst umræða á Fljótsdalshéraði um hvort unnt væri að koma á fót miðstöð, verkstæði eða nokkurs konar iðngörðum í því skyni að virkja hugmyndir, skapa atvinnu og stuðla að framleiðslu á austfirsku gæðahandverki og hugviti. Verkefninu hefur nú verið ýtt úr vör af stoðstofnunum á Austurlandi; Menningarráði  Austurlands, Þróunarfélagi Austurlands og Þekkingarneti Austurlands og kallast það Þorpið.

vefur_trsmija.jpg

Þorpið er tilraunaverkefni til eins árs til að byrja með, þar sem ætlunin er að byggja upp skapandi samfélag á Austurlandi á sviði  hönnunar og handverks. Þorpið verður í samstarfi við fjölmarga aðila í fjórðungnum  um mismunandi verkefni, sem öll lúta að því að skapa atvinnu á sviði hönnunar og efla gæði í hönnun og framleiðslu á nytjahlutum.

lra_vilbergsdttir_vefur.jpg

Suðupottur

Eitt af fjórum aðalverkefnum Þorpsins er að koma á fót tilraunaverkstæði (tré- og málmverkstæði til að byrja með) í vöruþróun, iðnhönnun og nytjalist á Egilsstöðum. Verkstæðið verður opið öllum sem eru í vöruþróunarhugleiðingum. Þar geta lærðir og leikir komið til skrafs og ráðagerða, hitt aðra sem eru í sömu hugleiðingum og þróað sína vöru, handverk, nytjalist eða iðnhönnun. Á verkstæðinu getur fólk fengið einstaklingsráðgjöf um næstu skref og/eða hugsanlega skoðað möguleikann á að fara í samstarf við hönnuð eða fyrirtæki. ,,Við vitum að hér á Austurlandi eru ,,vel geymd leyndarmál,“ þá á ég við alls konar fólk og fyrirtæki sem býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á sviði handverks  og ýmiss konar tækni,“ segir Lára Vilbergsdóttir, verkefnisstjóri Þorpsins. ,,Þetta fólk viljum við fá til okkar og sjá hvort við getum ekki dustað rykið af góðum hugmyndum sem jafnvel getur leitt til að úr verði góð söluvara og ný atvinnutækifæri.“ Nýtt þorp verður til 

,,Einn daginn stóð undirbúningsnefndin á planinu við  Sláturhúsið og rak augun í gamla trésmíðaverkstæðið,“ heldur Lára áfram. ,,Við sáum í hendi okkar að Þorpið ætti heima þarna í miðbænum í tengslum við Sláturhúsið. Þarna er verkstæði sem nánast er tilbúið og þarf aðeins að taka til hendinni í því. Hér er Við leituðum til Fljótsdalshéraðs um afnot af trésmíðaverkstæðinu og höfum fengið jákvæð viðbrögð, en í augnablikinu er húsið í eignaskiptaferli þannig að formleg afgreiðsla á erindinu hefur ekki farið fram.“

Á þessum sömu slóðum hófst atvinnustarfsemi í Egilsstaðaþorpi. ,,Staðsetningin er tilvalin þar sem með henni mætti halda áfram uppyggingu menningar, handverks og listalífs í tengslum við Sláturhús og nýtt tjaldstæði á Barrareitnum. Skammt undan er svo mjólkurstöðin þar sem verið er að byggja upp tilraunaeldhús til vöruþróunar á austfirskum matvælum. Þessi klasi gæti orðið upphaf að öflugri, sjálfbærri nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á Egilsstöðum. Með þessu væri verið að blanda saman listsköpun, handverki og ferðaþjónustu á hátt sem aldrei áður hefur komist til framkvæmda á Íslandi.“

 

Þorpið út um allt 

Unnið er að því að koma upp gestaíbúðum víðs vegar á Austurlandi í tengslum við fyrirtæki sem geta tekið á móti hönnuðum. Sumt af þessari aðstöðu er til staðar nú þegar. Dæmi um slíkt er Grafíksetrið á Stöðvarfirði.  Hugmyndin er að bæta við gestaíbúðum í samvinnu við fleiri aðila. Má þar nefna Eiða með vinnuaðstöðu í verknámshúsi, Ullarvinnslu Frú Láru á Seyðisfirði með textílverkstæði og Sláturhúsið á Egilsstöðum-trésmíðaverkstæði KHB og í undirbúningi eru fleiri staðir. ,,Þannig verður hægt að ná fókus á Austurland sem kjörsvæði fyrir hönnuði sem sjá tækifæri í þeirri reynslu og þekkingu og hráefni sem til staðar er í fjórðungnum,“ segir Lára.

Að hennar sögn er sölumiðstöð fyrir austfirska gæðavöru og listmuni forsenda þess  hægt sé að ýta verkefni á borð við Þorpið úr vör. ,,Því þurfum við að leita leiða til að koma slíkri miðstöð á fót hér sem allra fyrst.  Forsenda þess að hægt sé að stofna hlutafélag um slíka sölumiðstöð er að til sé gæðavara af svæðinu, þannig að þetta tvennt hangir saman. Ég kalla þetta sölumiðstöð en ekki gallerí vegna þess að ég sé hana þegar fram líða stundir þjónusta þá sem vilja markaðssetja vöruna sína víðar um land eða jafnvel erlendis. Slík sölumiðstöð er alls ekki til höfuðs þeim sem fyrir eru. Þeir aðilar hafa sína sérstöðu og hafa mikla möguleika eftir sem áður á að skerpa á sinni sérstöðu. Staðreyndin er líka sú að það er til fullt af vöru hjá ýmsum aðilum sem ekki er aðgengileg fyrir ferðafólk og jafnvel heimamenn. Við höfum verið að dragast aftur úr á þessu sviði.“

 

Efla grunninn 

Efling listnáms í fjórðungnum er að sögn Láru einnig forsenda þess að betri vara verði til í framtíðinni.  Hún segir tækifæri til listnáms á Austurlandi af skornum skammti. Efla þurfi listabraut Menntaskólans á Egilsstöðum, en þar hefur verið í boði  fornám fyrir listnám á háskólastigi síðan árið 2000.  ,,Þorpið hefur óskað eftir samstarfi við ME um eflingu fornáms og samnýtingu á aðstöðu og starfskröftum. Einnig eru uppi  hugmyndir um að koma á fót tveggja ára diplómanámi á sviði hönnunar og handverks í samstarfi við erlendan háskóla. Þessar hugmyndir eiga rætur að rekja til ársins 1996 þegar svipaðar hugmyndir voru uppi um nýtingu Eiðaskóla, en þá var ME bæði með skólahald á Eiðum og Egilsstöðum. Þær hugmyndir urðu ekki að veruleika fyrir margra hluta sakir. Það er tímabært að þessar hugmyndir komist  í framkvæmd. Þekkingarnet Austurlands hefur boðið upp á vísi að námi á sviði hönnunar og handverks í vetur og hefur það verið vel sótt.  Við vonum að það sé byrjunin á einhverju stærra á þessu sviði og erum ekki í vafa um að slíkt nám sé löngu tímabært hér og eigi sér mikla möguleika,“ segir Lára. 

 

Leitað til reynslubolta 

Hjá Þorpinu er einnig verið að vinna að umsókn í Evrópusjóði. Sótt verður um þriggja landa samstarf  um svæðisbundna uppbyggingu í skapandi atvinnugreinum. Unnið er að því að tryggja samstarfsaðila í verkefnið og liður í því var heimsókn Martinu Lindberg frá Fiskars í Finnlandi. Hún flutti fyrirlestur um uppbyggingu og þróun á listamannaþorpinu í Fiskars í Finnlandi á málþingi á Eiðum 29.október sl., en haldin var umfangsmikil kynning á Þorpinu þá viku í formi funda og fyrrgreinds málþings. Þá er einnig unnið að því að fá Borgundarhólm sem þriðja land í samstarfið, en þar hefur verið unnið gott starf að uppbyggingu á skapandi, sjálfbærum atvinnugreinum.

 

 

 

Dæmi um núverandi og möguega samstarfsaðilar Þorpsins:

 

Menningaráð Austurlands

Þekkingarnet Austurlands

Þróunarfélag Austurlands

Fljótsdalshérað

Önnur sveitarfélög á Austurlandi

Menntaskólinn á Egilsstöðum

Sláturhúsið

Eiðar

Grafíksetrið Stöðvarfirði

 Ullarvinnsla frú Láru Seyðisfirði

Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Starfsendurhæfing Austurlands

AFL-Starfsgreinafélag, VR, FOSA og fleiri verkalýðsfélög

Miðás, Myllan, HT-trésmíðaverkstæði og önnur iðnfyrirtæki

Vinnumálastofnun fyrir hönd atvinnuleitenda 

Alcoa Fjarðaál

Frumkvöðlar og einyrkjar

 

 

Framlag samstarfsaðila getur falist í:

 

Verkfærum og tækjabúnaði

Vinnuaðstöðu - húsnæði

Vinnuframlagi og þekkingu

Verkefnum - úthýsingu 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.