Opinber og opinská tilkynning til Austfirðinga

Munið þið eftir sögunni um Bakkabræður, þá Gísla, Eirík og Helga, sem vörðu löngum tíma í að bera sólarljósið að utan inn í myrkan bæinn? Bakkabræður byggðu sér bæ og hann var ágætur, nema þeir gleymdu glugganum. En þeim fannst enginn vandi að bæta úr því, þeir gátu tekið sólarljósið með höndunum úti á túni og borið það inn í bæinn í húfunum sínum.

 

Þeir sem hafa áhuga á að fréttablað verði yfir höfuð gefið út áfram á Austurlandi, eru vinsamlega beðnir um að kaupa Austurgluggann og auglýsa í honum. Núverandi áskrifendur og auglýsendur fá þakkir frá útgáfunni fyrir að trúa á að fjölmiðill sem sinnir nærumhverfi íbúa fjórðungsins skipti máli.

   

Þeir sem gera stöðugt kröfu um að blaðið bæti sig og sinni hinu og öðru í austfirsku samfélagi er þökkuð ábendingin og verður langt seilst til að verða við óskum þeirra. Þeim hinum sömu er þó jafnframt bent á að fjölmiðill, sem sífellt sýpur peningalegar hveljur vegna skeytingarleysis heima fyrir, þarf á öllu sínu að halda til þess eins að viðhalda sér og nýtur hvorki sannmælis né raunverulegra tækifæra til að eflast og dafna.

   

Austurglugginn hefur alla burði til að sækja í sig veðrið og sinna samfélaginu á Austurlandi af vaxandi  metnaði og dug. Betur má þó ef duga skal og þar koma sveitarfélög og fyrirtæki fjórðungsins, stofnanir og íbúar til sögunnar, sem þeir aðilar er geta axlað þá samfélagsábyrgð að gefa gaum eina blaðinu sem sinnir þeim í raun og veru.

   

Esse est percipi .

   

Með hreint engri uppgjafarkveðju, en áskorun um að menn líti sér nær.

   

                      Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.