Okkar ofurkraftur

Við sósíalistar tölum um kærleikshagkerfið. Það þýðir einfaldlega að undirstaða efnahagsstjórnar á Íslandi skuli vera samkennd, mannúð og hlýja.

Öll helstu afrek sín hefur mannskepnan unnið í samvinnu. Það er einkenni okkar sem tegundar. Við erum félagsverur, rísum hæst þegar samfélag okkar er sem heilbrigðast, réttlátast og jafnast.

Í núverandi samfélagskipan snýst allt um að fjármálamarkaðurinn, stóru fyrirtækin og hlutabréfamarkaðurinn skili sem mestum skammtíma hagnaði sem síðan er skipt á milli eigenda og stjórnenda.

Það er kerfi þar sem hin auðugu og sterku hafa ógnarvöld en hin fátæku og veiku hafa lítil sem engin völd yfir lífi sínu eða samfélagi.

Ekki hlusta á þau ósannindi að þetta sé á einhvern hátt réttlátt eða í samræmi við hið „rétta“ eðli mankynsins. Það er áróður þeirra fáu sem hafa hag af þessu óréttláta fyrirkomulagi. Það er áróður þeirra stjórnmálaafla sem stjórna fyrst og fremst fyrir hina fáu ríku eða vilja skríða undir væng þeirra og valdefla stöðugar hægri stjórnir


Samkenndin er miðlæg í kærleikshagkerfinu. Samkenndin er meira að segja svo margslungin tilfinning að við getum fundið fyrir henni í líkamanum. Þegar við sjáum einhvern þjást bregðast ákveðnar taugafrumur við, svokallaðar spegil nevrónur og endurspegla þjáningar annarra svo við getum beinlínis upplifað þær sjálf. Þetta er alveg stórkostlegur eiginleiki.

Hugræn samkennd snýst svo um að skilja aðstæður fólks og geta sett sig í spor þess. Af þessum fögru tilfinningum sprettur svo óeigingjarnt örlæti. En það að geta gefið af sér af öllu hjarta án þess að krefjast endurgjalds eða gróða er einfaldlega besta tilfinningin. Það getum við svo ótal mörg sannreynt í samskiptum við börnin okkar.

Við getum átt slíkt samfélag – það sem við þurfum að gera er að hafna áróðrinum um annað og áróðrinum um að við getum ekkert og þurfum alltaf, vinstra fólk, að beygja okkur undi vilja hægrisins. Núna höfum við sjálfstraust og sterka sjálfsmynd og við eigum að taka það sem okkur hefur verið neitað um.

Um það snýst erindi Sósíalistaflokksins fyrir þessar kosningar. Höfnum drottnunarhagkerfi hinna fáu og tökum í þess stað upp kærleikshagkerfi fjöldans.

Með því að breyta ríkisfjármálum, hefta græðgi fjármálakerfisins, taka upp siðlegri bankastarfsemi með samfélagsbönkum og skattleggja þau ríku svo þau greiði sinn réttláta skerf og ójöfnuður í landinu minki, skjótum við efnahagslegum stoðum undir stórátak í uppbyggingu gjaldfrjálsrar grunnþjónustu, við lyftum fátækum, öldruðum og öryrkjum upp úr fátæktargildrunni, hefjum byggingu félagslegra íbúða í stórum stíl og svo framvegis.

Við getum eignast þannig samfélag. Það er fullkomlega mögulegt. Ofurkrafturinn er okkar og það er nóg til í þessu ríka landi.

Veljum lífið 25. september, líf okkar allra, líf sem mun aðeins blómstra innan lífvænlegs samfélags byggt á samkennd og virðingu.

Kjósum með hjartanu. Skilum rauðu. X-J

Höfundur er oddviti Sósíalista í Norðausturkjördæmi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.