Og hana nú og hafið það

Leiðari Austurgluggans 27. nóvember 2009:

 

Um daginn sagði við mig kona að það væri bara ekkert í þessu blaði, Austurglugganum. Ég leit hvumsa á hana og spurði hvort síðurnar væru virkilega auðar? Hún firrtist auðvitað við en ég glotti og fannst ég bara nokkuð fyndin.

austurglugginn.jpg

Svo spurði ég hana hvað hún teldi að ætti að vera í blaðinu, en þá vissi hún það ekki; ,,æ... bara eitthvað annað en er í því. Kannski eitthvað um mannlífið á Austurlandi, eða kannski atvinnulífið.“ Sem er einmitt það sem er alltaf verið að bauka við að fjalla um hér á þessum síðum. En í tilefni af auðu síðunum í huga konunnar langar mig að hvetja þá lesendur sem hafa skoðun á því hvað í blaðinu á að vera og þykir vanta að hafa samband og koma ábendingum sínum á framfæri. Slíkt auðgar blaðið að sjálfsögðu.

Alveg nýlega hitti ég svo fólk sem er í sveitarstjórnarmálum og spurði hvort ekki væri farinn að koma framboðstitringur í liðið vegna kosninganna í vor. Jú, það var nú aldeilis og stöðug fundahöld, sem alltaf væru auglýst í Dagskránni. En af hverju ekki í Austurglugganum?, spurði ég; eina fréttablaði fjórðungsins, miðli sem mun til dæmis fjalla efnislega sundur og saman um þessar kosningar? Fátt um svör. Hrumpff og horft upp í loft.

Hér með ætla ég að leyfa mér að senda þau skilaboð út að ef þið, ágætu Austfirðingar, viljið að blaðið haldi áfram að koma út þá þurfið þið að auglýsa í því. Og jafnvel þó það liggi ekki nákvæmlega inni á hverju einasta heimili fjórðungsins þá er það víðlesið. Og við skulum hafa það alveg á hreinu að til þess að eflast og dafna og fá enn frekari áskriftir og dreifingu þarf blaðið tekjur. Bara eins og ég og þú í okkar daglega heimilisrekstri. Og hana nú og hafið það.

. . . .

Nú er jólamánuðurinn að ganga í garð með sínum ys og þys og eftirvæntingu. Og áreiti. Meðal annars af endalausum auglýsingum í hljóð- og sjónvarpi. Við erum öll svo útkeyrð af áreiti, einkum þó vondum tíðindum, að ég mælist til að fjársterkir auglýsendur kaupi þögn fyrir þessi jól. ,,Þetta andartak dýrmætrar þagnar er í boði xxx.“ Væri það ekki aldeilis dásamlegt og eitthvað sem allir myndu taka eftir?

Og hljóð- og sjónvarpsmiðlar tækju þetta skrefinu lengra og tilkynntu að ekkert væri í fréttum að þessu sinni og einvörðungu yrði varpað út þögn næstu mínúturnar. Væri það ekki himneskt? Þetta gerðist víst einu sinni hjá BBC í Bretlandi fyrir löngu síðan. Áheyrendum var tilkynnt í upphafi kvöldfrétta á föstudaginn langa árið 1930 að ekkert væri að frétta. Svo var send út róandi píanótónlist í staðinn.

 

Góðar stundir og munið að auglýsingasíminn okkar er 477-1571.

 Steinunn Ásmundsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.