Nútímaskóli í nútímasamfélagi

Tækninni hefur fleygt áfram á síðustu árum og hefur haft gríðarleg áhrif á nám og kennsluhætti í grunnskólum Fjarðabyggðar. Í nútímasamfélagi er ör tækniþróun og kennarar þurfa sífellt að vera á tánum og temja sér ný vinnubrögð í takt við nýja tækni og miklar samfélagsbreytingar.

Kennarar hafa staðið sig með prýði að tileinka sér nýja kennsluhætti og auðga nám nemenda með tækjum. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu varðandi læsi og slaka námsstöðu nemenda hér á landi.

Tækni í kennslu er tilvalin aðferð til þess að efla nemendur í námi og ég tel að markviss tækninotkun sé besta leiðin upp úr hjólförunum. Skólarnir í Fjarðabyggð standa framarlega í tækjabúnaði og notkun upplýsingatækni í skólastarfinu miðað við marga aðra skóla á landinu. Á síðasta kjörtímabili kom sveitarfélagið til móts við auknar kröfur nútímasamfélags um notkun tækja og innleiddi tölvur og spjaldtölvur í alla grunnskóla á svæðinu. Innleiðingin var mikilvægur liður í samræmingu skólanna og gefur öllum nemendum jafna möguleika til náms.

Jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar og það er mikilvægt að sveitarfélagið haldi áfram að tryggja velferð barna með auknum jöfnuði í skólastarfinu. Samfélagið heldur áfram að taka breytingum og nauðsynlegt að skólarnir haldi áfram að þróa sig í takt við aukna netvæðingu, nýja þekkingu og aðra tækniþróun.

Ný þekking felst meðal annars í að koma til móts við alla nemendur með auknum stuðningi, fjölbreyttum kennsluaðferðum og hvetjandi námsumhverfi, með áherslu á nemendur með sérþarfir. Þetta rímar við það sem stendur í Aðalnámskrá grunnskóla, sem er leiðarljós fyrir allt skólastarf á grunnskólastigi, en þar segir að í skóla án aðgreiningar sé mikilvægt að nemendur fái tækifæri að rækta náms- og félagslegar þarfir í takt við réttindi og félagslegt réttlæti.

Arndís Bára Pétursdóttir skipar 3. sæti á lista Fjarðalistans.
Hún er kennslufræðingur, meistaranemi í menntunarfræðum, leiðbeinandi með umsjón og vottaður Google educator.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.