Náttúru- og menningararfur í öndvegi

NEED, Northern Environmental Education Development Project, er fjölþjóðlegt samstarfsverkefni um þróun náttúruskólastarfs, rannsóknarmiðaðrar umhverfismenntar, fullorðinsfræðslu um sjálfbæra þróun og uppbyggingu fræðslutengdrar ferðaþjónustu í grannbyggðum þjóðgarða.

vatnth140.jpg

Miðpunktur verkefnisins á Íslandi er  Vatnajökulsþjóðgarður og nú er búið að mynda hóp á Austurlandi sem er að fara af stað með vinnu að NEED verkefninu í tengslum við þjóðgarðinn. Verkefnisstjórn er á höndum Fræðaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði.

Aðalmarkmið NEED er að nýta þekkingu um náttúru- og menningararf í þjóðgörðum og grannbyggðum þeirra til þess meðal annars að auka skilning á gildi þeirra og mikilvægi verndunar, efla sjálfsmynd íbúa, ekki síst barna og byggja upp atvinnustarfsemi í kringum miðlun og sölu upplýsinga um svæðin til ferðamanna. 

 Margt í pípunum 

Hérlendis stendur til að setja upp upp margvísleg tilrauna- og þróunarverkefni á hinum ýmsu starfssvæðum Vatnjökulsþjóðgarðs.  Þau eiga til dæmis að snúa að nýtingu náttúruskóla við gestamiðstöðvar þjóðgarðsins til kennslu fyrir grunnskólabörn, hönnun vettvangsnámskeiða í þjóðgarðinum og nágrenni hans til að þjálfa framhaldsskóla- og háskólanema í náttúru- og umhverfisfræðum. Þá er horft til hönnunar símenntunarnámskeiða fyrir íbúa grannbyggða um náttúrufar, menningu og umhverfisvernd, sem og ráðgjafar fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu varðandi vöruþróun í fræðandi ferðaþjónustu. Nánari upplýsingar um NEED má finna á vefsíðunni www.need.is.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar