Listahátíð í Dalatangavita

Listahátíð í Reykjavík 2009 stendur í vor að óhefðbundinni listsýningu í fjórum vitum hringinn í kring um landið, einum í hverjum landsfjórðungi. Myndlistarmönnum hefur verið boðið að setja upp verk sín í vitunum, sem verða opnir ferðalöngum fram yfir verslunarmannahelgi. Um er að ræða Dalatangavita, Garðskagavita, Bjargtangavita og Kópaskersvita. Listamaðurinn Unnar Örn sýnir á Austurlandi og opnar sýningin um miðjan maí.

dalatangi.jpg

Fólk er hvatt til að ferðast í sumar á milli vita, taka þátt í sérstökum menningarviðburði, heimsækja þessi forvitnilegu mannvirki og njóta einstakrar náttúrufegurðar. Aukinheldur teygir sýningin anga sína í hina ýmsa miðla og munu berast leiftur frá hverjum vita hér og hvar í allt sumar þar sem listamennirnir verða í sérstöku samstarfi við útvarp, sjónvarp, dagblöð og vefmiðla. Í Tjörninni í Reykjavík verður komið fyrir fjórum baujum sem vísa til verkefnisins í heild auk þess sem það er kynnt á skjám í Kjarvalsstöðum.

Listahátíð í Reykjavík vinnur sýninguna í samstarfi með Siglingastofnun Íslands, vitavörðum í hverjum vita og menningarfulltrúum þeirra sveitafélaga sem um ræðir.

Með sýningarstjórn fara Markús Þór Andrésson og Dorothée Kirch.

 

Unnar Örn skoðar þær hefðir og venjur sem mótast hafa í skrásetningu fólks á umhverfi sínu. Hann þræðir stofnarnir og söfn og notar innviði þeirra í verk sem draga dám af uppröðun og flokkun raunveruleikans. Þegar hann setti upp sýninguna Coup d’Etat í Suðsuðvestur árið 2007 vann hann í samstarfi við minjasafn Reykjanesbæjar og skeytti saman á eftirminnilegan máta staðbundinni menningararfleið og táknmyndum nýfrjálshyggjunnar. Sýning Unnars verður í Dalatangavita, á fáförnum en ægifögrum slóðum út af Mjóafirði á Austfjörðum. Unnar Örn er fæddur árið 1974 og nam myndlist í Malmö í Svíþjóð. Hann hefur undanfarin ár sýnt í Listasafni Íslands, Safni og Kling & Bang galleríi, auk þess að standa að útgáfu eigin bókverka og plakata. Frekari upplýsingar um Unnar Örn má finna á heimasíðu hans: www.unnarorn.net

 

Að auki verða þrennir svokallaðir Stofutónleikar á vegum Listahátíðar á Austurlandi; Duo Landon 29. maí í Stríðsárasafninu á Reyðarafirði, Benda slagverkshópur 30. maí í Randúlffssjóhúsi á Eskifirði og Ólöf Arnalds 31. maí í Safnahúsinu í Neskaupstað.

 

Upplýsingar: Listahátíð í Reykjavík

Ljósmynd af Dalatangavita: Anke-Jens

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar