Álfasteinn í vandræðum

Álfasteinn ehf., sem átti sinn heimavöll á Borgarfirði eystri í áratugi frá 1981 en flutti vinnslu sína til Raufarhafnar fyrir fáum misserum, er í verulegum rekstrarvandræðum. Stjórn félagsins hefur sagt af sér.

 

 

Allur rekstur á Borgarfirði er úr sögunni og virðist sem áform um frekari uppbyggingu í steinvinnslu á Raufarhöfn séu að renna út í sandinn.  Takist ekki að fá aukið hlutafé í fyrirtækið eða selja það er líklegt að gjaldþrot blasi við.

 

Hlutafé var aukið er félagið flutti vinnslu sína á Raufarhöfn. Stærstu hluthafar eru Steinn Eiríksson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Álfasteins, Síldarvinnslan og Byggðastofnun. Auk þess eiga ýmsir  einstaklingar og fyrirtæki á Raufarhöfn, Borgarfirði og víðar minni hluti.

Fulltrúar hluthafa tóku sæti í stjórn félagsins í byrjun árs 2009. Stjórnin sagði af sér snemma í vor og í bréfi til sýslumannsins á Seyðisfirði kemur fram að ástæða afsagnarinnar sé meðal annars slæm skuldastaða fyrirtækisins, auk þess sem stjórninni hafi gengið illa að afla upplýsinga um stöðu fyrirtækisins. Þá kemur fram í bréfinu að stjórnin hafi komist að því að ekki hafi verið tilkynnt um hlutafjáraukningu í fyrirtækinu. Steinn Eiríksson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, hefur sagt á því eðlilega skýringu. Ekki hafi verið ljóst þegar unnið var með endurskoðendum hvernig skiptingin var milli eignaraðila og því ekki hægt að tilkynna hlutafé inn á þeim tímapunkti. Hlutverk nýrrar stjórnar, verði hún kosin, hljóti að vera að tilkynna um hlutafjáraukningu. Ef ekki komi inn fjármagn í fyrirtækið eða takist að selja það líti ekki út fyrir að fyrirtækið fari í rekstur á ný. Verði það niðurstaðan glatist allt hlutafé.

 

Ásamt fjölbreyttri gjafavöru var sérvinnsla með greftri í stein stór hluti af framleiðslu Álfasteins, auk þess sem framleidd hafa verið legsteinar og skilti. Auk framleiðslunnar rak  Álfasteinn verslanir á Borgarfirði eystri, á Laugavegi í Reykjavík, svæði í Flugstöðinni í Keflavík, Eden í Hveragerði og þjónustu- og sölumiðstöð á Axarhöfða í Reykjavík. Á Raufarhöfn var áformuð magnframleiðsla á byggingarsteini og mikil vöruþróun og markaðssetning var á döfinni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.