Landbúnaður, loftslagsmál og snobbaðar kaloríur

Í upphafi mánaðarins birti loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna nýja skýrslu sem hefur verið kölluð stærsta viðvörun vísindasamfélagsins vegna loftslagsbreytinga eða lokaútkall. Þörf er á byltignakenndum breytingum á samfélags- og efnahagskerfum heimsins ef ekki á allt að fara úr böndunum.

Áskoranir og tækifæri

Skýrslan vekur mann enn og aftur til umhugsunar um framtíð landbúnaðar á Íslandi. Landbúnaður er jú talinn einn af stærstu áhrifavöldum hlýnunar jarðar, og útstreymi metans frá meltingarvegi jórturdýra spilar þar stóran þátt.

En það er ekki bara ropinn frá Huppu sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Aðrir áhrifaþættir eru útstreymi koltvísýrings frá vinnuvélum, losun á hláturgasi vegna notkunar tilbúins áburðar og mykju á ræktarlandi, heyi er pakkað í plast og já gleymum ekki blessuðum skurðunum!

Undirrituð hefur ekki þekkingu til að fullyrða um hver þróunin verður en það er ljóst að framtíðin felur í sér bæði áskoranir og tækifæri fyrir okkur bændur.
Breytingar gætu orðið á eftirspurn eftir nautakjöti og mjólkurvörum. Hugmyndir hafa komið upp um að nauðsynlegt sé að taka upp kjötskatt til að draga úr kjötneyslu en mikil neysla kjöts og aukin sýklalyfjanotkun í heiminum við framleiðslu þess er ógn við heilsu manna.

Tækifæri íslenskra bænda felast í að bregðast við vandanum, tæknilausnir geta minnkað útstreymi gastegunda, möguleikar okkar til að skipti yfir í vistvænni orku eru meiri en bænda margra landa og spurning hvort að ekki sé hægt að snar minnka plastnotkun með því að hirða fóður í stæður eða fara jafnvel aftur í að verka hey í turna.

Hægt er að ná framförum með aukinni þekkingu og nákvæmari bústjórn. Mikil tækifæri felast í bættri tækni og aukinni þekkingu við fóðuröflun en Íslendingar gætu þurft að treysta enn meira á eigin fóðuröflun.

Enn eru ekki komnar fram neinar snöggar lausnir til að breyta Huppu gömlu en það er þó ekki ómögulegt að lausnir finnist til að draga úr metanlosun nautgripa. Draga má úr metanlosun nautgripa með að bæta ákveðinni tegund þara í fóður gripanna, ekki enn framkvæmanleg lausn fyrir alla nautgriparækt heimsins en gefur manni þó von, og jafnvel er hægt að rækta fyrir minnkaðri metanlosun nautgripa en það hefur verið sýnt fram á að metanlosun er misjöfn meðal nautgripa og að það sé að nokkru leiti genatengt.

Það verður seint of oft minnst á að sýklalyfjanotkun í landbúnaði hérlendis er mjög lítil í samanburði við önnur lönd en gríðarlega mikilvægt er að halda því þannig áfram og jafnvel takmarka notkunina enn frekar. Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógnin sem steðjar að heilsu manna í heiminum en þrátt fyrir það leifa aðrar þjóðir bændum að bókstaflega fóðra nautgripi á sýklalyfjum.

Mun neysla nautakjöts leggjast af eða verður nautakjöt munaðar- og lúxus vara sem Íslendingar eru jafnvel séstaklega vel settir til þess að framleiða á vistvænni hátt en önnur lönd? Við höfum hreint vatn, vistvæna orku, lágmarks sýklalyfjanotkun og nægt landsvæði til að hægt sé að fóðra skepnurnar á grasi að mestum hluta.

... eða eigum við kannski bara að fara finna okkur eitthvað annað að gera?

Snobbaðar kaloríur

Í hugleiðingum um framtíð íslenskra bænda koma upp í huga mér orð einkaþjálfarans Röggu Nagla til vinkonu sem var í þjálfun hjá henni en Ragga sagði við hana ,,vertu snobbuð á kaloríurnar þínar”. Þar á þjálfarinn við að við þurfum að velja af kostgæfni hvað fer inn fyrir okkar varir, ekki þurfi að smakka allt á hlaðborðinu í fermingarveislunni heldur takmarka sig við góðu réttina og það sem mann langar virkilega í.

Það er gríðarlega mikilvægt að auka upplýsingar til neytenda um matvæli, uppruna þeirra og framleiðsluferla til að gefa þeim færi á að velja betur. Hægt væri að skrifa annan pistil um það mál en dæmi sem undirrituð upplifði í eigin fjósi lýsir, því miður, hvernig sambandi bónda og neytanda getur verið háttað situr nokkuð fast í huganum.

„Grass-fed“ hugtakið hafði farið nokkuð hátt á þeim tíma og komist í tísku. Íslenskur ferðamaður kom við í fjósinu hjá mér og um leið og hún stóð í miðju heyinu inni í opnu fjósi þar sem meirihluti kúnna var úti á beit spurði hún mig ,,eru gripirnir hjá ykkur grasfóðraðir?”

Neytendur vilja upplýsingar um matinn sinn og þeir munu verða snobbaðari á kaloríurnar, nú ekki einungis aukakílóanna vegna.

Það er kannski ekki vinsælt af mér að tíunda hér upp hið augljósa en nú verður ekki hjá því komist að horfast í augu við loftslagsvandann. Ef við ætlum að byggja landbúnað til framtíðar þurfum við að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum.

Ég veit að bændur eru viljugir til breytinga en það er nokkuð ljóst að þrýstingur mun aukast frá stjórnvöldum og neytendum um breytingar, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Svo að bændur geti brugðist við á hagkvæman og markvissan hátt þurfa að koma til rannsóknir og aðgerðaráætlanir. Þetta, auk framkvæmdanna sjálfra, kostar fjármagn og ótækt er að ætlast til að bændurnir sjálfir og frjáls félagasamtök standi ein að þeim kostnaði og skuldbindingum.

Stjórnvöld hafa gefið út yfirlýsta stefnu um að efla eigi innlenda matvælaframleiðslu og er það sameiginlegt mál þjóðarinnar að tryggja hér fæðu- og matvælaöryggi og að standast skuldbindingar Parísarsáttmálans. Þetta er ekki einkamál nokkra bænda.

Nýjasta aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynnt var í september er metnaðarfull og gerir ráð fyrir að 1,36 milljörðum verði varið til loftslagsaðgerða á ári næstu fimm árin eða um 0,05% af landsframleiðslu síðasta árs. Ef miða á fjárframlög til aðgerða við skýrslu sameinuðu þjóðanna þarf þó að 47 falda þetta framlag.

Hér er verið að tala um háar upphæðir en við höfum ekki annan valkost er það? Ég veit að bændur eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum en til þess þurfum við aðstoð.

Það er komið lokaútkall!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.