Kolefnisjöfnun verður ný og öflug græn búgrein

Megnið af því ræktanlega landi sem ekki er innan þjóðlendna á Íslandi er í eigu íslenskra bænda. Það gefur því augaleið að náin samvinna stjórnvalda, almennings, atvinnulífs og bænda er mikilvæg til að ná markmiðum stjórnvalda um kolefnisjöfnun. Ónýtt landflæmi sem hægt er nýta til kolefnisbindandi uppgræðslu og skógræktar er mun verðmætara en við höfum hingað til gert okkur grein fyrir. Kolefnisbinding getur orðið að nýrri og öflugri búgrein á Íslandi með réttri nálgun.

Látum verkin tala

Undirritaður hefur látið verkin tala í umhverfismálum, bæði sem forystumaður bænda og þingmaður Norðausturkjördæmis. Kolefnisjöfnun sauðfjárræktarinnar, öflug nytjaskógaræktun og samvinna bænda og landgræðslunnar eru mál sem bera þess glöggt vitni. Eftirfylgni á Alþingi sem fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt er einnig ágætt dæmi. Þó verðum við líka að skapa verðmæti út um allt land á sama tíma og við gætum að greinum áherslum. Það tvennt fer vel saman.

Árangur með samvinnu

Ábyrg auðlindanýting felst í því að nýta auðlindir með ábyrgum hætti og nýta arðinn til að byggja í haginn fyrir komandi kynslóðir. Óskýrar boðleiðir og óskilvirk verkaskipting í stjórnsýslunni þvælast fyrir því að við náum hámarksárangri í kolefnisjöfnun. Til að ná því fram sem við viljum og stefnum að í kolefnisjöfnun, uppgræðslu og skógrækt, er mikilvægt að við búum til nýtt ráðuneyti umhverfis og landbúnaðar. Það er hlutverk alþingismanna að hugsa um hag sinna umbjóðenda og leita stöðugt nýrra leiða til að ná sem bestum árangri fyrir alla Íslendinga, hvar sem þeir búa.

Bændur verið í forystu í umhverfismálum

Það er kominn tími til að láta verkin tala, hugsa grænt og horfa til farsællar framtíðar. Sauðfjárrækt var fyrsta atvinnugreinin á Íslandi til setja sér stefnu um fulla kolefnisjöfnun. Verkið var unnið af bestu fagmönnum sem tóku út kolefnisfótspor greinarinnar og í kjölfarið fylgdi raunhæf og metnaðarfull tímasett áætlun. Það var meðal annars byggt á reynslu af verkefnum eins og „Bændur græða landið“ og gæðastýringu í sauðfjárrækt, en yfir 90% bænda hafa unnið landbótastarf undir merkjum þeirra. Á þessum grunni er hægt að byggja, rækta og græða.

Græn framtíð um allt land

Öflugt þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt í samvinnu við bændur getur leitt til nýrra og áhugaverðra atvinnutækifæra ásamt aukinni verðmætasköpun um allt land. Íbúar í borgum, bæjum og sveitum þessa lands eiga heimtingu á því að við nýtum þau tækifæri sem gefast til grænnar verðmætasköpunar. Öflug landgræðsla og skógrækt til atvinnuskapandi kolefnisjöfnunar í blandi við hefðbundinn landbúnað, sjávarútveg og skapandi hátækni er heillandi framtíðarsýn fyrir sjálfbært Ísland.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.