Knattspyrnuvöllurinn við Garðarsveg tekinn undir íbúabyggð

Sveitarstjórn Múlaþings hefur auglýst tillögu að deiluskipulagi fyrir íbúðabyggð við Garðarsveg á Seyðisfirði Nánar tiltekið á heimavelli knattspyrnunnar í kaupstaðnum. Handhafi vallarstæðisins er Huginn íþróttafélag frá 1916 eða í 105 ár.

Talið er að knattspyrna hafi verið stunduð á Seyðisfirði frá því fyrir aldamótin 1900. Íþróttafélagið Huginn var stofnað 1913 en áður voru til staðar t.d. Glímu-, Fimleika - og Fótknattleiksfélag Seyðisfjarðar.

Fótknattleiksfélag Seyðisfjarðar: Úr Bjarka 34. árg. 27. ágúst 1898. Frá Egilsstaðafundinum 7. ágúst. Þar segir: „Þá lék Fótknattleiksfélag Seyðisfjarðar góða stund listir sínar og þótti mörgum það ein besta skemmtun á fundinum. Samskot til verðlauna fóru fram á fundinum. Hæstu verðlaun (5 kr.) hlaut Friðrik Gíslason og knattleiksfélag Seyðisfjarðar“

Í konungsleiknum á Seyðisfirði 22. júní 1926 ( Hænir 4. árg. 24. júní 1926) er knattspyrnuleikur milli „Niels Juel“ (liðsmenn konungs Kristjáns X) og Hugins. „Skoruðu Huginsmenn á lið konungs. H.H: Kristján konungur X er viðstaddur ásamt c.a 900 áhorfendum. Drottningin fór með sínu fylgdarliði, á meðan inn fjörðinn og upp að Gufufossi. Í heilt ár hafði Huginn ekki verið unninn í knattspyrnu. Unnið alla leiki vandræðalaust og því voru bæjarbúar vongóðir ,“ skrifar Gunnar Akselsson. Lið konungs vann Huginn 5:2 . Konungur afhenti Nils Juel-mönnum silfurbikar að launum. Þakkaði konungur fyrir leikinn og kvaðst hissa á að Seyðfirðingar þreyttu svo vel knattspyrnu. Óskaði hann þeim framfara í íþróttinni. Hornaflokkur af Niels Juel lék á meðan keppt var.

Lesa má í blöðum (Austanfara – Hæni – Austra – Bjarka o.fl.) 1915-25 að Huginn er að keppa í knattspyrnu við nágranna sína og áhafnir skipa, íslenskra og erlendra, á þessum árum.

Hvenær nákvæmlega er byrjað að leika knattspyrnu á núverandi velli við Garðarsveg er ekki vitað en til eru sagnir um að knattspyrna/fótknattleikur hafi verið leikin á túnum ofan og utan Garðarstjarnar upp úr aldamótunum. Íþróttafélagið Huginn fékk svo leyfi bæjarstjórnar 1916 til að gera neðri hluta svokallaðs Jóhannesartúns að íþróttavelli og hefur heimavöllur liðsins verið þar síðan. Því má leiða líkur að því að knattspyrnuvöllurinn (vallarstæðið) sé einn með elstu ef ekki sá elsti sem enn er í notkun á Íslandi . Sem slíkur flokkast vallarstæðið við Garðarsveg því undir menningarminjar.

Framanritað ber að hafa í huga og halda vel til haga nú þegar ákveðið er að leggja knattspyrnuvallarsvæðið undir íbúðabyggð. Þar með hverfur eitt elsta knattleikjavallarstæði landsins.
Ljónagryfjan var oft nafn sem andstæðingar Hugins nefndu völlinn í þrönga firðinum með hóp líflegra áhorfenda sem ávallt heyrðist vel í.

Samfélagið kemur því til með að „skulda“ æskunni, íþróttafélaginu og öðrum íbúum á Seyðisfirði að þeim verði bættur skaðinn. Byggja verður nýjan knattleikjavöll innan þéttbýlisins á stað sem hentar vel fyrir slíkt mannvirki. Þeirri ákveðnu kröfu verður fylgt fast eftir meðal annars af áhugasömu stuðningsfólki heimamanna og annarra velunnara.
Þeim skilaboðum hefur þegar verið komið til skipulagsyfirvalda Múlaþings og heimastjórnar Seyðisfjarðar.

f.h. baklands Hugins (Hugins býflugnanna)
Þorvaldur Jóhannsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.