Í ökkla og eyra - samfélag í vanda

Leiðari Austurgluggans 4. september 2009:

 

Íslenska þjóðfélagið er undarlegt. Við lifum bæði í skít og skömm og í vellystingum praktuglega. Og hvernig getur staðið á því?

austurglugginn.jpg

Við súpum núna eins og hver önnur ginningarfífl seyðið af peninga- og valdaþorsta hóps karlmanna sem flest okkar þekkja aðeins úr fjölmiðlasirkusnum. Við erum samfélag á ystu nöf. Alþýða manna er búin að fá nóg og er kúguppgefin. Það kæmi mér á óvart ef ekki syrfi til stáls þegar vetrar.

Á hinn bóginn er harmagrátur þjóðarinnar næsta auvirðilegur þegar kemur að samanburði við ástandið hjá þorra jarðarbúa. Höfum við ekki hreint vatn, hreint loft og fæðu? Heilbrigðiskerfi, skóla og samgöngur? Landrými, tjáningarfrelsi? Og allt hitt?

  

Við hvað erum við að miða?

  

Íslenskt þjóðfélag hefur verið á einhverslags ótótlegu og útblásnu gelgjuskeiði. Sókn í nýjabrum, að ganga eins langt og hægt er og fara í fýlu ef allt gengur ekki eins og í sögu, þegja hluti í hel uns allt er um seinan, þurfa að skora hærra en aðrir, vera flottari, klárari, kaldari ...

Fyrir mörgum árum var mér gerð grein fyrir þeim mikla mun sem er á hugtökunum auðmýkt og auðmýking. Þetta vefst enn fyrir mér á köflum og íslensk orðabók er mér ekki alveg sammála þegar kemur að útlistingum á orðunum, en í mínum huga eru mikil sannindi þarna fólgin. Íslenska þjóðin sætir nú auðmýkingu á alþjóðavettvangi. Sem er að að stórum hluta til komin til vegna hroka, andstæðu auðmýktar.

  

Kannski eru auðmýkt og nýtt viðmið leiðin heim.

 

Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.