Þjóð til þings - Borgarafundur um endurskoðun stjórnarskrárinnar

Guðrún Pétursdóttir er formaður stjórnlaganefndar sem skipuð var af Alþingi í júlí sl. í tengslum við fyrirhugaðan Þjóðfund og stjórnlagaþing um endurskoðun á stjórnarskránni. Stjórnlaganefndin kemur til Egilsstaða þann 5. október og heldur borgarafund með íbúum með yfirskriftinni: Þjóð til Þings! Fundurinn verður haldinn á Hótel Héraði og hefst klukkan 20:00.

 

Hver er konan?

Ég vinn við Háskóla Ísland og stýri þar Stofnun Sæmundar fróða.  Alþingi kaus sjö manns  í til setu í stjórnlaganefnd í júní og er ég ein þeirra. Nefndin kaus sér sjálf formann. Aðrir nefndarmenn eru: Aðalheiður Ámundadóttir, Ágúst Þór Árnason, Björg Thorarensen, Ellý K. Guðmundsdóttir. Njörður P. Njarðvík og Skúli Magnússon

Hvað er stjórnlaganefnd ætlað að gera?

Í stuttu máli má segja að stjórnlaganefnd sé ætlað að undirbúa og flýta fyrir stjórnlagaþingi, sem kemur saman í febrúar 2011 og er ætlað að endurskoða stjórnarskrána.

Starf stjórnlaganefndar er þríþætt: Hún undirbýr gögn fyrir stjórnlagaþingið; hún stendur fyrir Þjóðfundi um stjórnarskrá, vinnur úr upplýsingum sem safnast á fundinum og býr þær í hendur stjórnlagaþingsins og hún semur tillögur að breytingum á stjórnarskránni og afhendir stjórnlagaþingi.

En hvað er stjórnlagaþing og þjóðfundur?

Hlutverk stjórnlagaþings er að semja ný stjórnlög eða reglur um stjórnskipun ríkis eða breyta þeim sem fyrir eru. Á stjórnlagaþingi  sitja venjulega þjóðkjörnir fulltrúar. Slík þing hafa verið haldin víða um heim á ýmsum tímum, þegar stofnun nýs ríkis er undirbúin eða nýir stjórnarhættir eru settir í kjölfar stríðsátaka, byltinga eða annarrar umbyltingar. 

Alþingi setti í júní lög um stjórnlagaþing, sem ætlað er að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 1944. Þeir sem sitja þingið verða kosnir persónukosningu og skal landið vera eitt kjördæmi. Áætlað er að stjórnlagaþingið standi yfir í tvo til fjóra mánuði. Þinginu er ætlað að leggja fram frumvarp að stjórnarskrá til meðferðar Alþingis, eins og gert er ráð fyrir í núgildandi stjórnarskrá.

Samkvæmt sömu lögum skal halda Þjóðfund um stjórnarskrármálefni áður en kosið verður til stjórnlagaþingsins. Gert er ráð fyrir að um 1000 manns taki þátt í Þjóðfundinum en þar verður kallað eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni. Þjóðfundurinn er þannig undanfari stjórnlagaþingsins.

Þjóðfundurinn 2010 byggir að nokkru á reynslunni sem fékkst á þjóðfundinum í fyrra en umræðuefnið að þessu sinni er stjórnarskrá Íslands.

Er stjórnlagaþingi skylt að fara eftir niðurstöðum Þjóðfundar 2010?

Stjórnlagaþingsmenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og ekki við nein fyrirmæli frá kjósendum sínum eða öðrum. Það liggur hins vegar í hlutarins eðli að þeir sem bjóða sig fram til þingsins hafi áhuga á stjórnskipun landsins. Þeir hljóta að kynna sér viðhorf almennings eins og þau endurspeglast í skilaboðum Þjóðfundarins. 

Geta allir boðið sig fram til stjórnlagaþings?

Kjörgengir til stjórnlagaþings eru þeir sem eru kjörgengir við kosningar til Alþingis. Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra og nefndarmenn í stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd eru þó ekki kjörgengir. Með framboði skal fylgja samþykki frambjóðanda og nöfn minnst 30 og mest 50 meðmælenda sem fullnægja skilyrðum kosningaréttar til Alþingis. Hver maður má aðeins mæla með einum frambjóðanda.

Upplýsingar um framboð og kosningarnar er að finna á www.kosning.is

Þess má geta að framboðsfrestur fyrir stjórnlagaþingskosningar rennur út á hádegi mánudaginn 18. október 2010.

Hvaða erindi á stjórnlaganefnd til Egilsstaða?

Stjórnlaganefnd ákvað að halda fundi víðs vegar um landið til þess að kynna fyrir íbúum landsins þá endurskoðun sem stendur fyrir dyrum og heyra þeirra sjónarmið. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta á borgarafundinn og vonumst til að sjá sem flesta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.