Íslensk fjölmiðlun eftir Fréttablaðið og fleiri

Íslenskt fjölmiðlalandslag breyttist um síðustu mánaðarmót þegar Fréttablaðið hætti að koma út. Fleiri fjölmiðlar hafa horfið sjónarsviðinu það sem af er ári þótt það sé ekki gamalt. Skömmu áður hafði N4 hætt útsendingum. En getur verið að Fréttablaðið hafi grafið gröf fyrir aðra íslenska fjölmiðla og loks sig sjálft?

Í upphafi vil ég segja að hugur minn er hjá því starfsfólki sem á undanförnum vikum hefur misst vinnuna, kannski sérstaklega starfsfólki N4 sem við áttum mikið og gott samstarf við.

Íslenskt samfélag og lýðræði eru fátækari að hafa aðeins eitt landsdekkandi dagblað og hafa misst sjónvarpsstöð sem haldið var úti á landsbyggðinni. Hún var ekki fréttastöð í eiginlegum skilningi þess orðs en sinnti samt þjóðmála- og samfélagsumræðu með viðtölum við fólk úr ýmsum lögum samfélagsins, frístundum, stjórnmálum, atvinnulífi og öðru víða um land. Framlag hennar verður kannski betur metið þegar fram líða stundir þegar farið verður að sækja heimildir í viðtöl hennar.

Hægt er að telja áfram. Í byrjun árs sameinuðust Kjarninn og Stundin. Vorið 2021 hætti DV að koma út á pappír. Sumarið 2020 sameinuðust Vikudagur á Akureyri og Skarpur á Húsavík í Vikublaðið. Sunnlenska og Bæjarins besta hættu fyrir nokkrum árum að koma út í prentformi. Umbreytingar hafa orðið á fleiri héraðsmiðlum. Einhverjir lifa helst í vefformi, þá kannski frekar sem „hyper-local“ miðlar sem sinnt er af fólki í hlutastarfi eða hreinni ástríðu.

Því er ærin ástæða til að ræða stöðuna á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Það hefur svo sem verið gert. Árið 2018 var skilað skýrslu um aðgerðir til að efla einkarekna fjölmiðla. Verr hefur þó gengið að fylgja tillögum nefndarinnar eftir. Blessunarlega komust beinir fjölmiðlastyrkir á árið 2020, án þeirra væri staðan trúlega verri en að ofan er lýst. Ekki er víst að Austurfrétt/Austurglugginn væru enn til án þeirra. En það þarf að halda áfram og það skrifast á okkur öll: ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir, íbúa og fjölmiðlana sjálfa að þróa lausnir. Minn miðill er ekki þar undanskilinn.

Ekki lengur ókeypis


Í yfirferð um fyrstu skref vefmiðilsins Vísis rifjar fyrsti ritstjórinn, Ásgeir Friðgeirsson, upp fyrstu íslensku vefmiðlana og hvernig farið hafi verið af stað af miklu kappi, með hinum oft ágæta en stundum hrapallega „þetta reddast“ hugsunarhætti. Vefmiðlarnir hafi verið keyrðir í loftið með vonum um að Íslandsyfirráð yfir auglýsingum myndu síðar gera þá gróðavænlega. Í dag þarf sennilega heimsyfirráð til slíks.

Ef við horfum til landanna í kringum okkur þá eru allmargir vefmiðlar í dag með áskriftakerfi. Jafnt lands- sem svæðismiðlar á Norðurlöndunum og Þýskalandi eru flestir á bakvið greiðsluveggi. En sagan er önnur á Íslandi.

Þegar horft er til þess sem gerst hefur í íslenskum fjölmiðlum síðustu mánuði er áhugavert að horfa til þess að miðlarnir sem segja má að hafi horfið á árinu: Fréttablaðið/Hringbraut, N4 og Kjarninn var hægt að lesa í heild án greiðslu. Erum við loks að komast að því að það fyrirkomulag virkar ekki? Að fjölmiðlar geta ekki endalaust svo að segja að gefið vöruna sína? Og er lesendum kannski að lærast að þeir þurfa að greiða fyrir góðar upplýsingar?

Bölvun Fréttablaðsins?


Ég hef þróað með mér kenningu síðastliðin ár, að Fréttablaðið hafi að vissu leyti eyðilagt íslenskan fjölmiðlamarkað. Frí fréttablöð þekktust í nágrannalöndunum, gefin út undir merkjum Metro. Útgáfan hóf göngu sína í Svíþjóð árið 1995 og breiddist út um Evrópu og víðar. Um var að ræða fréttablöð sem hægt var að fá frítt, gjarnan á lestarstöðum eða álíka fjölförnum stöðum. Metro í Bretlandi byggir á sömu hugmynd þótt það hafi ekki tilheyrt sænsku samsteypunni. Fréttablaðið var því ekki byltingakennd uppfinning.

En það var öðruvísi. Í fyrsta lagi lá það ekki frammi heldur borið heim að dyrum enda minni notkun á almenningssamgöngum hér en í samburðarlöndunum. En stóri munurinn lá í blaðamennskunni. Metro-blöðin erlendu eru tiltölulega efnisrýr, stuttur texti, mikið um fræga fólkið og myndir. Textinn í Fréttablaðinu var íburðarmeiri – það var alvöru fréttablað. Í bland við netbyltinguna tel ég þetta hafa vanið Íslendinga á að þurfa ekki að borga fyrir fréttir.

Afleiðingin er að íslenskir fjölmiðlar eru í vandræðum og eftirá í áskriftaþróuninni. Þó eru tilraunir í gangi, Heimildin er að mestu í áskrift, Skessuhorn nær alfarið auk afmarkaðra hluta svo sem Dagmála á Mbl.is og Innherji á Vísi. Síðan eru einhver hlaðvörp, sem ég kann illa að nefna, í áskrift. Er það eðlilegra en að kaupa fréttir á netinu?

Lærdómur erlendis frá


Að íslenskir miðlar séu ekki í áskrift held ég að bitni á ritstjórnarstefnunni. Ég er nýkominn heim eftir tveggja mánaða dvöl hjá Augsburger Allgemeine, svæðisblaði í Þýskalandi. Ég fór út á vegum International Journalist Program (IJP), samtaka sem standa fyrir blaðamannaskiptum til og frá Þýskalandi. Í gegnum samtökin komst ég í kynni við blaðamenn frá fleiri löndum svo sem Lettlandi, Svíþjóð og víðar úr Þýskalandi sem eru að feta sig í stafrænum áskriftum. Í ferðinni veittist mér einnig stutt innlit til Politiken í Danmörku.

Ég fór út sérstaklega til að skoða stafræn umskipti fjölmiðla. Mögulega hefði verið hægt að læra á framsæknari slóðum en í Þýskalandi, blöðin þar hafa mörg hver verið aftarlega á merinni enda hafði fólkið í Augsburg horft til Svíþjóðar í sinni þróun.

Engin töfralausn en horft til áskrifta


Hvert er sem komið er má þó finna samhljóm. Í fyrsta lagi þá er engin töfralausn. Áskriftir að vefjum eru tilraunir sem ganga hægt. Þeir miðlar sem enn eru með prentútgáfu hafa meginhluta tekna sinna þaðan. Bilið milli nets og prents minnkar hins vegar og horft er til áskriftanna til framtíðar. Erfitt er að selja hreinar netáskriftir, einn af þeim sem ég hitti benti á að munur lægi í virðismati fólks sem verði 5-10 mínútum á dag í að lesa af vef en hálftíma af prenti eða rafrænni útgáfu þess (ePaper). Ég heimsótti nýja miðla, RUMS í Münster og VierNull í Düsseldorf sem eru alfarið stafrænir og í áskrift. Þeir bera ritstjórnina en í kring er mikil vinna unnin af stofnendum launalaust. Þýskur fjölmiðlaprófessor sem hélt erindi í tilefni þriggja ára afmælis RUMS sagði fjölmiðla góða fyrir lýðræðið, rannsóknir sýndu fram á minni spillingu þar sem þeir væru til staðar. Vandamál miðlanna væri að þannig nytu fleiri góðs af því en greiddu fyrir þá.

Aðrar fréttir með áskriftir


Annar lærdómur er að sala áskrifta að vef breytir ritstjórn miðlanna. Til eru kerfi sem sýna hvaða greinar leiða til þess að lesendur gerast áskrifendur. Þau sýna einnig hvaða efni áskrifendur lesa helst. Hjá útgáfunum, til að mynda í Augsburg, eru heilu deildirnar sem vakta þessa tölur og miðla áfram til ritstjórnar. Hjá Politiken eru þær á risaskjá fyrir allra augum.

Lykillærdómurinn er að það eru alls ekki sömu fréttirnar sem skila áskriftum og eru „mest lesnar,“ það er að segja með flesta smelli. Hjá Augsburger Allgemeine hefur þetta leitt til þess dregið hefur úr lögreglufréttum eða slíku sem vekja mikil og snögg tilfinningaviðbrögð fyrir áherslu á efni sem nýtist lesendum til að skilja bæði sitt nærumhverfi og heiminn eða bæta sig. Þar er hægt að nefna góðar mannlífsfréttir, ráðleggingar um hvernig hægt sé að lækka orkukostnað, menningarrýni eða upplýsingar um bæjarlífið, til dæmis að verið sé að opna gosbrunninn á ráðhústorginu. Hjá Politiken hefur áherslan á að útskýra og að setja hluti í samhengi aukist. RUMS leggur áherslu á að leita lausnum við vandamálum sem þau benda á. Miðlarnir eru ekki hættir að segja frá dómsmálum eða umferðarslysum, en þau velja þau mikilvægustu. Smellir skipta þá máli en eru síður en svo eini mælikvarðinn.

Kröfur lesenda hafa líka áhrif á vinnubrögðin á miðlunum. Áskrifendur vilja vandað efni frekar en umorðaðar fréttatilkynningar. Erlendu blaðamönnunum bregður þegar við Íslendingarnir segjum hvað við erum að skrifa mikið yfir daginn. Politiken birtir 18-19 fréttir á dag og stefna heldur á að fækka þeim. VierNull gerði könnun áður en vefurinn fór í loftið þar sem lesendur sögðust fá „nóg“ af upplýsingum, þeir þyrftu betri upplýsingar. Í samræmi við það er birt ein grein á dag.

Það má líka velta því upp hvort íslenska fjölmiðlaumhverfið sé ekki svo lítið miðað við fólksfjölda. Það eru jú einhverjir fleiri fjölmiðlar í Augsburg, sem bara borgin sjálf er með 300.000 íbúa en Allgemeine ber höfuð og herðar yfir þá. Miðlarnir í Münster og Düsseldorf voru stofnaðir til að tryggja fleiri raddir í borgum sem í raun boru bara eitt dagblað, borgum með annars vegar 315.000 íbúa, hins vegar 620.000.

Þetta snýst ekki um RÚV


Hérlendis hefur mikið verið talað um þá ráðstöfun að taka RÚV af auglýsingamarkaði á þeim forsendum að aðrir miðlar fái þá molana sem til falla. Nefndin sem skilaði af sér 2018 klofnaði í þeirri afstöðu enda er í skýrslu hennar bent á að brotthvarf ríkismiðla af auglýsingamarkaði á Spáni og Frakklandi hafi ekki skilað sér til minni miðla, þvert á móti hafi heildarmarkaðurinn minnkað. Miðað við kenningar kollega minna þá hefðu Austurglugginn/Austurfrétt átt að græða á því þegar svæðisútvarpið á Austurlandi var lagt niður. Svo varð ekki. Auglýsendurnir sem voru þar virðast einfaldlega hafa minnkað auglýsingar, þær bárust ekki til okkar og eru lítið á RÚV. Í seinni tíð hafa erlendir miðlar sennilega étið þá möguleika upp. Þá má benda á að auglýsendur og auglýsingaframleiðendur vilja halda í RÚV.

RÚV á ekki að vera ósnertanlegt og eðlilegt að þar sé aðhaldskrafa eins og annars staðar eða spurt hvernig peningunum sé varið. Það er lúxus til dæmis að geta haldið úti hlaðvarpi til að kynna sjónvarpsþáttaraðir. En tímanum um lausnir á íslenskum fjölmiðlamarkaði er betur varið í annað en argast í því sem varla verður og virðist ekki kenning sem hægt er að styðja með raundæmum.

Fleiri lausnir


Sem áður sagði hafa beinu ríkisstyrkirnir skipt að minnsta kosti Austurfrétt/Austurgluggann sköpum. Rætt hefur verið um að styrkja áskriftamiðla með skattaívilnunum, það yrði hvati í breytingar eins og að framan hefur verið rakið. Skattheimta eða aðrar slíkar kröfur sem jafna leikinn milli íslenskra miðla og Facebook, Google eða annarra slíka miðla ættu að vera sjálfsagðar.

Sveitarfélög á Norðurlandi brugðust N4 þegar á reyndi. Fjallabyggð taldi sig ekki þurfa að styrkja stöðina fyrst ríkið styrkti einkarekna miðla. Stærsta sveitarfélagið og heimabær N4 vildi ekki styrkja hana. Þau eru þá án sjónvarpsmiðils – og kannski er þeim bara alveg sama. Ég er að minnsta kosti þakklátur að okkur hefur gengið ágætlega að sannfæra austfirsk sveitarfélög um að stunda viðskipti við Austurfrétt/Austurgluggann með auglýsingakaupum.

Það höfum við einkum gert með að hamra á því að rétt sé að þau beini auglýsingum í ritstýrðan fjölmiðil. Það er tæki sem fleiri sveitarfélög, ríki og undirstofnanir geta tileinkað sér. Til dæmis Vinnueftirlitið sem í vetur eyddi trúlega milljónum í að framleiða sjónvarpsauglýsingu og væntanlega birta hana en sendi héraðsmiðlunum fréttatilkynningu. Þetta er í alvöru ekki hægt.

Höfundur er ritstjóri Austurgluggans og Austurfréttar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.