Hvers vegna vildi ég flytja austur?

Ég er fæddur og uppalinn á Breiðdalsvík, fór í Menntaskólann á Egilsstöðum að loknu grunnskólanámi og þaðan í háskólanám í höfuðborginni árið 2005. Þrátt fyrir að hafa komið austur til að vinna í sumarfríum ílengdist ég á höfuðborgarsvæðinu og fékk vinnu þar eftir að námi lauk. Hugurinn leitaði þó gjarnan í heimahagana og orðið heima átti alltaf við um Austurlandið í mínum huga.

Ég er alinn upp af afa mínum og ömmu, heiðurshjónunum Birgi Einarssyni fyrrum skólastjóra og Auði Stefánsdóttur. Sumarið 2016 féllu þau bæði frá með rúmlega mánaðar millibili og þá urðu taugarnar heim enn sterkari. Mig langaði meira en allt til þess að flytjast aftur heim. Ég fór að skoða mig um varðandi vinnu og þegar ég datt niður á auglýsingu um starf upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar má segja að örlögin hafi verið ráðin.

Ég fékk starfið og við fjölskyldan fluttumst austur á Eskifjörð í lok árs 2016. Konan mín var í námi og gat lokið því fyrir austan í fjarnámi. Þegar ákvörðunin var orðin ljós sýndu margir vinnufélagar og vinir mér skilning, ég væri að flytja heim, en aðrir skildu ekki hvað ég ætlaði að fara að gera þarna og hvers vegna ég væri eiginlega að fara. Já, hvers vegna vildi ég flytjast alla leið austur á land?

Þegar við fjölskyldan settumst niður og tókum ákvörðunina var fyrsta atriði á blaði að hvergi væri betra að ala upp börn en einmitt hérna. Í stað þess að vera með kvíðahnút í maganum yfir því að senda barnið sitt á leikvöll hinum megin við götuna upplifum við og börnin mikið frelsi. Þau geta farið á nærliggjandi leikvelli og græn svæði og leikið sér þannig að allir eru nánast áhyggjulausir.

Nálægðin við fjölskylduna spilaði einnig töluvert inn í. Foreldrar okkar beggja eru búsettir hér fyrir austan og samvera okkar við fjölskylduna jókst því töluvert. En eftir á að hyggja er það einnig styrkleiki samfélagsins. Hér er samfélagið eins og stór fjölskylda. Það var vel tekið á móti okkur frá byrjun og allir heilsa manni, hvort sem það er úti á götu eða í búðinni. Getur hljómað sem sjálfsagt en er það ekki. Samkenndin er það sem gerir okkur að þessu frábæra fjölskylduvæna samfélagi.

Á höfuðborgarsvæðinu fara ótrúlega margar klukkustundir vikunnar í ferðir til og frá vinnu, ferðir með börnin á íþróttaæfingar og tómstundir og litlir hlutir eins og að fara að versla taka óratíma. Við það að flytjast austur var eins og nokkrar klukkustundir bættust við hvern sólarhring. Verslunarferðin tekur enga stund og þegar farið er úr vinnunni er maður kominn heim stuttu síðar. Lífsgæðin sem felast í þessu eru ómetanleg og gera manni kleift að verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum.

Nálægðin við náttúruna er einnig mikill kostur. Hún er allt í kringum okkur og börnin fá að kynnast náttúru sem er engri lík. Að vaða í lækjum, ganga upp fjöll og tína skeljar í fjörunni er eitthvað sem er í seilingarfjarlægð.

Á þeim tíma og í þeim störfum sem ég hef gegnt síðan ég flutti aftur heim hef ég kynnst því hverju við getum áorkað í sameiningu. Þegar við leggjumst öll á eitt að ákveðnu markmiði náum við því. Við getum gert betur á mörgum sviðum en við megum ekki gleyma að meta þá miklu kosti sem samfélagið okkar býr yfir. Við deilum ekki alltaf skoðunum á öllum hlutum en markmið okkar allra er að gera gott samfélag enn betra. Vinnum saman að því.

Höfundur skipar 11. sætið hjá Fjarðalistanum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.