Hverjir ætla að gefa kost á sér í sveitarstjórnarmálin?

Leiðari Austurgluggans 6. nóvember 2009:

 

Um sjö mánuðir eru nú til sveitarstjórnarkosninga, sem fara munu fram 29. maí 2010. Strax hafa menn veður af málum sem sveitarfélögin ýmist skirrast við að afgreiða eða þvert á móti afgreiða óvenju hratt og engin augljós ástæða virðist vera fyrir nema aðvífandi kosningar. Það virðist nokkuð ljóst að menn eru að koma sér í startholurnar fyrir kosningabaráttu.

austurglugginn.jpg

Stóra spursmálið er hvort íbúar á Austurlandi vilja einhverjar breytingar og hafa þá áhuga á að fylgja slíku eftir, eða hvort menn eru sáttir við stjórnun sveitarfélaganna. Allt er þetta spurning um áherslur og líkt og í stjórnun ríkisins gætu línur hnikast til í landslagi sveitarstjórnarpólitíkur á næsta ári.

  

Það setur að manni ugg þegar vinsældapólitíkin gerist ágeng. Vonandi eru meirihlutar sveitastjórnanna svo viti bornir að láta komandi kosningar ekki slá sig út af laginu, heldur standa af fullri einurð, nú eða þá falla, með sín áherslumál og hvika hvergi. Fátt er eins ömurlegt og innantóm kosningaloforð og orðagjálfur sem alþýða fólks veit að verða hjómið eitt þegar til á að taka. Enn hörmulegra er að horfa upp á stjórnmálamenn á þessum ögurstundum þjóðarinnar eyða dýrmætum tíma í hnútukast, þegar allir ætti að vera undir árum og róa í átt til bjargræðis. Slíkt verða kandídatar í sveitarstjórnarpólitíkinni líka að hafa í huga. Æski frambjóðendur virðingar og tiltrúr verða þeir líka að sýna af sér drengskap. Skítkast hefur sjaldan orðið fólki til framdráttar.

  

Svo er það þetta með konur og sveitarstjórnarmál. Það hefur alltaf verið erfitt að fá konur í bæjarpólitíkina. Einhvern tímann sat ég námskeið þar sem þetta var m.a. tekið fyrir. Þar kom fram að tvennt stæði algjörlega upp úr þegar kæmi að skýringum á tregðu kvenna til að fara í bæjarmálin. Annars vegar að fáar konur gæfu sig í þann hráskinnaleik og kafbátahernað sem pólitík á heimavelli getur auðveldlega orðið og hins vegar væri starf að sveitarstjórnarmálum síður en svo fjölskylduvæn iðja. Mæður sem enn bera kannski meginhluta ábyrgðar á húshaldi og börnum, kæmu þessu bara ekki inn í dagskrána þannig að ekki bitnaði á börnunum. Ég man sjálft til þess að bornar hafi verið í mig víurnar af mismunandi stjórnmálaöflum fyrr á þessum áratug en ég skirrðist við vegna einmitt þessara tveggja framangreindu ástæðna. En sjálfsagt er nú allur gangur á þessu og talsvert af konum sem ná að miðla þessum þáttum farsællega.

  

Ég veit að þið eruð mér sammála um að íbúar eigi að hafa áhrif á hvernig sveitarfélögum okkar er stjórnað. Það gerist ekki ef fáir eða öngvir gefa sig í sveitarstjórnarmálin þegar að kosningum líður. Það gerist ekkert ef við höldum áfram tuðinu í eldhúskróknum en komum ekki óskum okkar og skoðunum á framfæri. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

 

Góðar stundir.

 Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.