Hvað eru raunhæfar lausnir fyrir heimilin í landinu?

Ásta Hafberg Sigmundsdóttir skrifar:  

Ég hef hugsað mikið um það eftir fall bankakerfisins okkar og því sem á eftir hefur fylgt hvað á að gera fyrir okkur hér í þessu landi. Einhvern veginn sit ég í hvert skipti sem nýjar lausnir og hugmyndir koma upp á borðið varðandi heimilin og skuldastöðu þeirra með annað hvort óbragð í munninum eða tilfinningu fyrir því að ekki hafi verið hugsað lengra en til dagsins á morgun þegar hugmyndinni var komið á framfæri.

sta_hafberg_sigmundsdttir.jpg

Ein slík hugmynda var að fella niður 20% af skuldum heimila og fyrirtækja í einum skurði. Þetta hljómaði vel og skiljanlegt að margir hafa hugsað “loksins kemur eitthvað sem hægt er að finna fyrir í peningaveskinu”. En ef hugsað er lengra þá hlýtur einhversstaðar að vera kostnaður við þetta eins og allt annað.  Að fella niður skuldir á þennan hátt hlýtur að endingu að lenda í peningaveskjum okkar sem kostnaður.

Auðvitað er ekki hægt að líta fram hjá því að verðtrygginguna verður að taka til endurskoðunar, en eins og staðan er í dag er er bara hreinlega spurning hvað eigi að gera við hana. Fella hana niður? Eða frysta tímabundið svo hægt sé að vinna að raunhæfum lausnum fyrir heimilin í landinu á meðan?

Númer eitt í dag er að koma með raunhæfa lausn fyrir heimilin í landinu, það er ekki hægt að ætlast til að venjulegir borgarar þessa lands bíði endalaust og missi heimili sín á leiðinni. Fólk sem hefur unnið sína vinnu allt sitt líf og staðið við sitt á ekki að þurfa að standa í dag og hræðast heimilismissi. Að ganga út frá því í hugmyndavinnu sinni að fólk missi heimili sín og verði gjaldþrota virkar á mig sem ráðaleysi af hálfu stjórnvalda. Einhverskonar óstjórn að vissu leyti og er það alveg á hreinu að ef fólk ynni svona í stjórnum fyrirtækja væri það rekið á staðnum.

Að mínu mati er raunhæft að reyna að koma með persónulegar lausnir á vandanum, lausn sem er sniðin að hverjum og einum. Það er í raun ekki hægt að setja upp eitthvað módel um að allir með x skuldir fái x niðurfellingu, því margir aðrir þættir spila inn í hjá hverju og einum. Manneskja sem skuldar 10 milljónir í húsnæðislán getur verið í góðum málum á meðan önnur getur verið að missa allt með sömu skuld.  Fólk hefur verið að miss yfirvinnu á vinnustöðum sem fyrir marga er lífsnauðsynleg þegar kemur að útgjöldum heimilisins þar sem dagvinnulaun eru oftast það lág að ekki er hægt að lifa af dagvinnu einni saman. En aðrir hafa misst vinnuhlutfall í ofanálag og eru kannski komnir niður í 80-90 % vinnu sem bætir stöðuna alls ekki og svo eru þeir sem hafa misst vinnuna og eru virkilega farnir að finna fyrir að ekki er hægt að ná endum saman fjárhagslega. Hvernig á að vera hægt að setja upp lausnarmódel sem tekur bara á einhverjum vissum þáttum yfir heildina? Það er hægt að setja inn almennar reglur í sambandi við gjaldþrot og þvíumlíkt sem ganga yfir alla, en það hlýtur að verða að taka á vanda hvers og eins í sambandi við skuldir heimilisins eins persónulega og hægt er.  Hvernig á annars að vera hægt að aðstoða fólk svo það missi ekki heimili sín? Mér er spurn.

   http://thjodarsalin.blog.is/blog/thjodarsalin/

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.