Hvað þarf til að Framsóknarflokkurinn njóti sannmælis

Um siðfræði er sagt að öll eigum við einhvers staðar innra með okkur siðareglur. Þegar við hneykslumst á einhverju athæfi eða fyllumst réttlætiskennd er það vegna þess að farið hefur verið út fyrir þau mörk sem siðareglurnar setja okkur, hvort sem þær eru til á pappír eða ekki.
Einhverjir hafa líkt siðareglum við náttúrulög og segja þau boð skynseminnar sem best er lýst með því að segja Gullnu regluna fram með öfugum formerkjum eða -gerðu ekki öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér-.

Við þörfnumst ekki prentaðra siðareglna í vinahópi okkar eða fjölskyldu, en í starfi geta þær verið alveg nauðsynlegar, eins og mörg dæmi hafa sýnt.

 

gunnar_thor_sigurbjornsson_web.jpgÁrið 2009 hófst mikið endurmat og uppbyggingarstarf hjá Framsóknarflokknum. Grasrót flokksins krafðist breytinga og endurskoðunar á starfi og stefnu flokksins. Fjölmörgum þótti að forysta flokksins hafi sveigt af þeirri samvinnu- og miðjustefnu sem flokkurinn hefur byggt á í tæp 100 ár. Á flokksþingi í janúar 2009 var ákveðið að skipa siðanefnd sem fékk það hlutverk að leggja drög að siðareglum og innleiða þær í allt starf flokksins. Nýr formaður var kosinn sem ekki hafði haft afskipti af stjórnmálum og forystusveit flokksins endurnýjuð.

Breyttar áherslur og vinnubrögð höfðu það markmið að innleiða ferska hugsun, opna stjórnmálin og auka samvinnu. Þrátt fyrir að hafa rutt brautina í íslenskum stjórnmálum varðandi endurmat og nýja hugsun er upplifun framsóknarmanna sú að fyrrgreindar breytingar hafi ekki náð eyrum almennings. Enn þurfa nýir fulltrúar flokksins að svara fyrir gjörðir forvera sinna. Því má segja að endurnýjaður  flokkur fái ekki nægilegt svigrúm til að sýna fram á þá breytingu sem orðin er.

Upplifun okkar er sú að umfjöllun fjölmiðla endurspegli ekki þann Framsóknarflokk sem við þekkjum nú í dag. Þannig er sú ábyrgð sem við höfum axlað sem flokkur gerð ósýnileg fyrir hinum almenna kjósanda. Þetta sýnir vel ábyrgð fjölmiðla sem oft eru kallaðir fjórða valdið. Með valdi sínu geta fjölmiðlar stýrt umræðunni og þar með haft afgerandi áhrif á siðferðisumbætur í stjórnmálum þessa lands.

Í því ástandi sem íslensk stjórnmál eru í dag ætti það að vera hagsmunamál okkar allra að stuðla að bættu siðferði innan stjórnmálanna. Því hvetja framsóknarmenn fjölmiðla til að beita sér fyrir hlutlausri og gagnrýnni stjórnmálaumfjöllun og beina umfjöllun sinni að jákvæðri, sýnilegri þróun innan stjórnmálanna. Þannig má stuðla að bættu siðferði og endurvekja traust á íslenskum stjórnmálum.

Höfundur er formaður siðanefndar Framsóknarflokksins

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.