Hættulegur sparnaður

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, yfirflugstjóri Mýflugs skrifar um sjúkraflug:     Þessi grein er ekki skrifuð til höfuðs ríkisstjórninni, stjórnmálasamtökum eða nokkrum opinberum stjórnvöldum. Enda er mér ljóst að enginn, í sporum núverandi landsfeðra okkar, er öfundsverður af sínu hlutskipti um þessar mundir, þar sem stoppa þarf í fjárlagagöt upp á hundruð milljarða, jafnvel svo að öryggishagsmunir hafa orðið að víkja. Nægir að benda á hvernig komið er fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. En ég tel mig knúinn til að koma á framfæri áhyggjum mínum um atriði þessu tengd, sem varða lífsgæði og -öryggi landsbyggðarfólks með beinum hætti, en þó þannig að fáum er það fullljóst.

orkell_sgeir_jhannsson_yfirflugstj_mflugs.jpg

Minn starfsvettvangur er í sjúkraflugi, og hef ég undanfarin ár skrifað greinar til að árétta mikilvægi þess að flugvöllurinn okkar í Vatnsmýrinni fái um ókomna tíð að gegna hlutverki sínu fyrir okkur, ekki síst þar sem það hlutverk varðar öryggi okkar landsbyggðarfólks vegna nálægðar hans við sjúkrahúsin í Reyjavík. Því einmitt þessi sjúkrahús, við Hringbrautina eða í Fossvogi eru endastöðvar flestra þeirra sem verða bráðveikir eða slasast illa, hvar á landinu sem er. Þótt minna fari fyrir þessari umræðu í kreppunni er okkur nauðsyn að halda vöku okkar í þessum efnum. En nú eru áhyggjuefnin önnur og nærtækari okkur, því nú þegar sjást merki þess að kreppuástandið sé farið að hafa veruleg og neikvæð áhrif á öryggi þeirra sem hverju sinni þurfa á bráðri aðhlynningu að halda syðra.

Þannig hagar til að á flugvöllum sem ekki þjóna lengur áætlunarflugi (sem hefur verulega dregist saman undanfarin ár) hefur í æ ríkari mæli gætt sparnaðar í viðhaldi og þjónustu við notendur þeirra, þ.á.m. við sjúkraflug. Víðast hefur þetta þó verið í góðu lagi, en ekki nærri alls staðar. Þannig hagar líka til að við, sem fljúgum til þessara staða, ekki síst við erfið veðurskilyrði í sjúkraflugi, þurfum nauðsynlega að fá þessa þjónustu í hvert sinn, þar sem um hrein og bein öryggisatriði er að ræða. Hér er aðallega um að ræða að fá uplýsingar um ástand flugbrautarinnar og greinargóða veðurlýsingu, bæði fyrir brottför úr heimahöfn, og ekki síður áður en aðflug er hafið til vallarins. Þeir sem þessari þjónustu hafa sinnt hafa undantekningarlítið verið starfsmenn Flugstoða (áður Flugmálastjórnar), sem sérmenntaðir hafa verið til þessara starfa. En auk tilskilinna námskeiða og réttinda hefur margsýnt sig að reynsla þessara starfsmanna er ómetanleg, þegar kemur að því að meta þær margbrotnu veðuraðstæður, sem flugmenn þurfa að glíma við í aðflugi til viðkomandi flugvallar. Öllum þarf að vera það ljóst að flug til áfangastaðar, þar sem engin þjónusta af þessu tagi er fyrir hendi, kemur alls ekki til greina af okkar hálfu. Með því yrði of mikil áhætta tekin. Þær takmörkuðu upplýsingar sem hægt væri að fá frá fjarlægri eða sjálfvirkri veðurathugunarstöð munu einfaldlega ekki duga til að gera aðflugið öruggt, og enn væri eftir að fá áreiðanlegar upplýsingar um ástand flugbrautarinnar, sem útilokað er fyrir okkur að meta úr lofti. Jafnvel þótt veðrið og aðrar aðstæður virðist í góðu lagi og flugbrautin með bundnu slitlagi, er t.d. enn eftir að vita hvort girðingin umhverfis hana er fjárheld, eða hreinlega mannheld! Því það er sorgleg staðreynd að sumir íbúar hinna smærri byggðarlaga virðast telja sér sæma að umgangast flugvöllinn sinn af ótrúlegu kæruleysi, fái þeir tækifæri til. Það þykir t.d. fínt að spyrna þar bílum, nota brautina til kappreiða, eða bara fá sér göngutúr eftir henni, en allt þetta hefur farið nærri því að valda stórslysum. Sjálfur hef ég í tvígang verið lentur á svona flugbraut í sjúkraflugi, áður en ég tók eftir göngugörpum (innan girðingar og vélin enn á fleygiferð) þjóta framhjá vængendanum hjá mér, og nærri lá fyrir nokkrum árum á austfjörðum að sjúkraflugvél lenti þar ofan á bíl! Og þótt enginn sé göngugarpurinn, knapinn eða ofurbílstjórinn á ferð, þegar lenda þarf á einhverjum þessara flugvalla, þá geta ójöfnur þær sem felast í taðhraukum eða spólförum, þó ekki sé meira, reynst okkur dýrar og jafnvel hættulegar. En séu starfsmenn með kunnáttu og réttindi til staðar er þessari hættu bægt frá, auk þess sem þess er gætt að ekki sé lent á flugbraut sem ekki er í ástandi til að bera jafn þuga flugvél og sjúkraflugvélar eru, og með jafn lítinn snertiflöt í dekkjum og þær hafa. Það er því margs að gæta og ekki á leikmanna færi að gefa okkur þær margbrotnu upplýsingar sem við þurfum að fá, og geta treyst, fyrir utan að hafa með höndum viðhald brautarinnar. Ljóst er að til mikils er ætlast af þessu fólki, því við getum þurft að kalla það út á öllum tímum sólarhringsins, í öllum veðrum, hvaða dag sem er, allan ársins hring. 

orkell_sgeir_jhannsson_mflug.jpg 

Því er það áhyggjuefni þegar sparnaður hins opinbera er farinn að sýna sig í því að þessum starfsmönnum fækkar og heilu byggðarlögin (jafnvel afar afskekkt og fjarri næsta flugvelli) eru þannig skilin eftir með vanhirta flugbraut og án þjónustu við okkur, sem þurfum að sinna sjúkraflugsþjónustu til þessara staða. Undanfarin ár hefur þess gætt á nokkrum stöðum, að fyrrverandi starfsmenn þeirra (frá því á tímum áætlunarflugs til þessara staða) hafa verið að sinna okkur í nokkurs konar sjálfskipaðri þegnskylduvinnu, án þess að fá nokkuð greitt fyrir, sem sagt af einhverri greiðarsemi við byggðarlagið sitt. Sums staðar eru þessir einstaklingar svo samviskusamir að hringja í okkur og láta sérstaklega vita ef þeir bregða sér burt og enga þjónustu er þá að hafa þar þann daginn. Annars staðar verðum við varir við ákveðna tregðu við að veita okkur þjónustuna þegar til á að taka, því engin bakvakt fæst greidd, þó svo að til staðar sé starfsmaður í byggðarlaginu. Þessa alls gætti á fáeinum stöðum, og í öllum fjórðungum, áður en það efnahagsástand kom til sem við búum nú við, en nú er farið að bera á alvarlegri tilfellum hvað þetta varðar. Ég vil nefna sérstaklega Norðfjörð í þessu sambandi, en undanfarin ár hafa þeir tveir menn, sem sinnt hafa flugvellinum þar af mikilli kostgæfni, verið starfsmenn bæjarfélagsins sem haldið hefur úti þessari þjónustu skv. samningi við Flugstoðir. Nú ber svo við, eftir því sem ég kemst næst, að þeim hefur verið sagt upp þessu starfi af hálfu bæjarins, væntanlega í sparnaðarskyni. Sú staða virðist því uppi nú að enginn sé til að þjónusta sjúkraflugið á flugvelli þeirra Norðfirðinga, þar sem þó er fjórðungssjúkrahús austfirðinga. Og þó Flugstoðir reyni að sjálfsögðu að bregðast við þessu hlýtur að vera óhægt um vik þegar þar á bæ þarf að skera niður sterfsemi sem nemur hundruðum milljóna í ár. Sé flutnings þörf frá Norðfirði um þessar mundir er því nauðsynlegt að aka sjúklingnum fyrst til Egilsstaða og fljúga honum síðan þaðan. Sem er svo sem ekkert nýtt, því bæði veður og ástand flugbrautarinnar á Norðfirði hafa oft valdið hinu sama áður. En það má ekki verða afsökun til að það fyrirkomulag festist í sessi. Verði því við komið er afar nauðsynlegt að fría sjúklinginn við því erfiða ferðalagi sem aksturinn um Oddskarð og Fagradal er, oft við fráleit akstursskilyrði. Þá er vert að nefna Húsavíkurflugvöll í þessu sambandi, en þar er nú opið fyrir spyrnukeppnir og lausagöngu búfjár, og er víst hvort tveggja vel nýtt. Enn fremur hefur verið vandkvæðum bundið að sinna Hólmvíkingum vegna þessa skorts á þjónustu og viðhaldi brautarinnar, og þaðan er löng vegalengd til næsta flugvallar. Hér er ég ekki aðeins að fjalla um almenna velferðarþjónustu heldur hreina og klára öryggisþjónustu sem hefur beint inngrip í lífslíkur og batahorfur þeirra einstaklinga, sem þurfa á bráðum flutningi að halda. Og enginn veit hver verður næstur eða hvenær. Augljóst ætti því að vera hve mikilvægt það er að skerða alls ekki þessa þjónustu með neinum hætti. Ég óttast að sú sparnaðartilhneiging, sem áðurnefnd dæmi lýsa, haldi að óbreyttu áfram í þessum geira en það er með öllu ótækt. Enda tel ég að vankunnátta á þörfum okkar, sem sinnum þessari þjónustu, valdi þessu að miklu leyti og því er það sem ég hripa þessi orð. Ég ítreka að flug út í einhverja óvissu, þar sem enginn þar til bær aðili tekur á móti okkur á áfangastaðnum, er áhætta sem við getum ekki tekið.  

Til að árétta mikilvægi þess að nýta tímann sem best, þegar mikið liggur við, vil ég nefna að um borð hjá okkur hafa lífgunartilraunir átt sér stað, og þær hafa ýmist borið árangur eða ekki. Tvisvar hafa börn fæðst um borð, og þó að í báðum tilfellum hafi vel tekist til var það ekki sjálfgefið. Þegar við erum kallaðir til í slíkum tilfellum er það vegna þess að um einhver vandamál er að ræða (t.d. fyrirbura eða sitjandi fæðingu). Andlát hafa átt sér stað í framhaldi af flutningi og jafnvel einnig áður en við komumst af stað í útkallið. Og þótt því verði jafnvel aldrei svarað í einstökum tilfellum hvort flýtirinn hafi verið ómaksins verður eða ekki, hvort hann hafi orðið til bjargar eður ei, þá verður spurningin að vera þessi: hver á að njóta vafans? Henni er auðvelt að svara. Svo lengi sem við vitum ekki betur um raunverulegt ástand sjúklingsins (sem oft verður ekki ljóst fyrr en eftir flutninginn) gerum við það sem í okkar valdi stendur til að hraða ferðinni. Við sinnum því öllum útköllum, sem ekki flokkast sem einfaldur flutningur, með lágmarks viðbragðstíma, og notum til verksins hraðskreiða, jafnþrýsta og sérútbúna flugvél, sem gegnir aðeins þessu hlutverki. Loks má geta þess að ekki aðeins getur spurningin verið um lífslíkur heldur einnig um batahorfur og þar með lífsgæði sjúklingsins. Það sama gildir vitaskuld í slíkum tilfellum um nauðsynlegan hraða þjónustunnar.  

Sparnaðaraðgerðir í ýmsum birtingarmyndum dynja nú á okkur flesta daga, og er jafnvel farin að skerða grunnþjónustu og ýmis öryggismál. Ég hef minnst á hið alvarlega ástand í þyrlumálum L.H.G, og fleira áþekkt á trúlega eftir að líta dagsins ljós. Ég óttast að íbúar á landsbyggðinni verði að vakna til betri vitundar um það hvar standa þarf betri vörð um öryggismál þeirra. Stóru sjúkrahúsin, þar sem helstu meðferðarúrræðin og sérfræðiþekkinguna er að finna, eru í Reykjavík. Það er því forgangsatriði að allir landsmenn hafi greiðan aðgang að þeim á sem skemmstum tíma, þegar neyðin kallar. Til þess þarf ekki aðeins þá sérútbúnu sjúkraflugvél sem Mýflug rekur nú í þessum tilgangi, heldur verður einnig að standa vörð um þá þjónustu sem veitt er á öllum viðkomustöðum hennar. Öryggi flugvélarinnar sjálfrar og áhafnar hennar er þar í húfi, jafnt sem sjúklingsins, sem bíður flutningsins. Allt það góða fólk sem veitt hefur okkur þessa þjónustu, oft við erfið skilyrði, á að njóta þeirrar viðurkenningar að það búi við lágmarks starfsöryggi og aðbúnað frá hinu opinbera, hvort sem það er ríkisstofnun sem það veitir, eða bæjaryfirvöld. Þessari grein er ætlað að vekja samgöngu-, heilbrigðis- og sveitastjórnaryfirvöld, sem og almenning sjálfan, til vitundar um mikilvægi þess að sjúkraflugsþjónustan búi við fullt öryggi, hvar sem hún er veitt. Því þetta er ein grunnstoðin undir byggð í landinu okkar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.