Hér eiga allir sína eigin pumpu

,,Austfirðingar eru einstaklingshyggjumenn og hugsa ekki um sig sem heild; hver er sinnar gæfu smiður, ég bjarga mér, ég á mína eigin pumpu.“ Þetta segir Tinna Halldórsdóttir, sem gert hefur rannsókn á stöðu kvenna á Austurlandi, að tilstuðlan Tengslanets austfirskra kvenna. Rannsóknin er hluti af meistaraverkefni í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hún tók ítarleg viðtöl við fjórtán konur í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði og lagði niðurstöðurnar fyrir rýnihóp.

tinna_halldrsdttir_vefur.jpg

Forvitnilegar niðurstöður nýrrar rannsóknar um stöðu kvenna á Austurlandi

 

Tinna vinnur nú að framhaldsrannsókn á tveimur sérlega áhugaverðum þáttum skýrslunnar, sem lúta að ríg og klíkumyndun á Austurlandi og að konur standi ekki með sjálfum sér til að knýja fram úrbætur á t.d. velferðarþjónustu. Tinna segir einsýnt að samþætting kynjasjónarmiða hafi brugðist, aldurspíramídi fjórðungsins sé enn rammskakkur og endurnýjun skorti. Sárlega vanti börn (0-5 ára), fólk á aldrinum 20 til 35 ára og þá sérstaklega ungar konur.

 

Niðurstöður rannsóknarinnar eru um margt forvitnilegar. Komið er meðal annars inn á búsetuskilyrði, heilbrigðisþjónustu, verslun og þjónustu og afar takmarkaða uppskeru kvenna af uppbyggingu virkjunar og stóriðju.

--

Tinna Halldórsdóttir segir niðurstöður þær sem liggi fyrir nú einkum lýsandi gögn, en í framhaldinu muni hún fara í frekari gagnaöflun með viðtölum og spurningalistum til kvenna víðar á Austurlandi og greiningu þar sem niðurstöðurnar verði mátaðar inn í feminískar og félagsfræðilegar kenningar.

,, Meginniðurstöðurnar nú eru að almenn ánægja virðist með búsetu á svæðinu,“ segir Tinna. ,,Síendurtekið var talað um fjölskylduvænleika. Í honum virðist felast öryggi og nálægð. Litlir staðir gefa utanumhald og allir þekkja alla. Á sama tíma getur slíkt verið mjög óþægilegt fyrir þá sem þurfa t.d. að taka á eineltismálum. Lendi menn upp á kant við einhvern í litlu samfélagið er nálægðin til trafala. Annar aðilinn þarf jafnvel að víkja til að friður komist á aftur. Ánægja með búsetu virðist ekki helgast af framboði afþreyingar eða geymslu fyrir börn. Fram kemur í viðtölunum að fótbolti og fimleikar gleypi allt og listhneygðu börnin gleymist.“

 Fyrir og eftir Bónus 

Tinna segir skondið að tímatal kvennanna varðandi verslun og þjónustu virðist miðast við fyrir og eftir Bónus. ,,Nú er hægt að slappa af í Reykjavík og á Akureyri í stað þess að verja mörgum klukkustundum í að versla inn matvæli fyrir næstu mánuði.“ Almenn ánægja virðist vera með verslun og þjónustu þó kallað sé eftir meiri sérvöru, svo sem ódýrum fötum fyrir börn, heilsuvörum og handavinnu. Þar liggja greinileg nýsköpunartækifæri. Tinna segir gott framboð af tómstundum og íþróttum barna og fullorðinna nánast valda valkvíða því úr nógu sé að velja. ,,Þær konur sem voru áður á minni stöðum á fjörðum en búa nú á miðsvæðinu, segja að fyrrum hafi ástandið verið þannig að ef eitthvað var auglýst urðu menn að mæta nauðugir viljugir. Annars var viðburðurinn ekki endurtekinn og menn báru persónulega ábyrgð með því að mæta ekki. Sama gilti um þátttöku íbúa í t.d. leiklist eða öðrum heimatilbúnum skemmtunum. Þetta er breytt með auknu framboði og meiri mötun.“

 Ónóg sérfræðiþjónusta 

Mikil bjartsýni ríkir fyrir hönd svæðisins, sem heita má merkilegt á þessum krepputímum. Ungt fólk á svæðinu sér mýmörg tækifæri í svæðinu. Fyrirvari er þó gerður um að ákveðnir hlutir eins og menntun þurfi að vera til staðar til að halda ungu fólki heima og atvinnustigi fjölbreyttu. Ákveðin rödd er um að stofna eigi hér háskóla með sérhæfingu sem tengist t.d. skógi, hreindýrum og austfirskri náttúru.

Mikið var kvartað yfir heilbrigðisþjónustu í garð barna og kvenna með einhvers konar sérþarfir. Mjög þykir erfitt að koma börnum í geðheilbrigðisþjónustu, Skólaskrifstofa sé hræðilega seinvirk og bið alltof löng uns hjálp fæst, jafnvel upp í þrjú ár. Tvær greiddar ferðir til sérlækna á ári þykja ekki nærri nóg og aðgengi að sérfræðiþjónustu óviðunandi. Sundurlaus kvennaþjónusta þar sem sónar er á einum stað, fæðing á öðrum og mæðraeftirlit á þriðja sætir einnig gagnrýni. Barnshafandi kona í áhættuhóp þurfti að fara af svæðinu með börn sín og vera í Reykjavík í margar vikur; þetta kostar og er óþægilegt. Þarna virðast vera póstar sem kippa þarf í lag. ,,Það vantaði í mannfjöldapíramídann hjá okkur ungu konurnar og unga fólkið, þetta hefur aðeins þanist út þó enn sé kynjahalli. Heilbrigðisþjónustan er eitthvað sem verður að laga svo ungar konur vilji vera hér. Samgöngur brenna einnig á konum og þær efast um að fjórðungurinn geti orðið eitt atvinnusvæði nema samgöngur verði stórbættar.“

 Rígur og hópamyndun 

Tinna segir að gegnumgangandi í öllum viðtölunum hafi verið rígur, flokkadrættir og hópamyndun á Austurlandi. ,,Þetta virðist mjög raunverulegt, viðvarandi og hreint engin mýta. Byggðarannsóknastofnun og Hagfræðistofnun gerðu rannsókn 2003 þar sem talað er um að flokkadrættir og hópamyndanir séu sérstaklega áberandi á Austurlandi. Þetta er greinilega dauðans alvara. Konur í rýnihóp vildu meina að rígur milli sveitarfélaga og innbyrðis milli staðanna á fjörðum stæði svæðinu alvarlega fyrir þrifum, til dæmis varðandi skólamál, heilbrigðisþjónustu, ýmsa þjónustu, samgöngur og atvinnu. Rígurinn leiðir einnig til þess að sérstaklega erfitt er fyrir aðkomufólk að fóta sig á svæðinu, ef það hefur ekki fjölskyldubönd hér eða getur rakið sig til ,,góðra“ ætta. Ein kvennanna sagði til dæmis að hennar vinkonuhópur tæki ekki inn nýjar konur, sem er ansi sérstakt. Stundum er talað um að erfitt sé að komast inn í mannlífið á Akureyri, en það þykir hreint grín miðað við Austurland. Í skýrslunni er Eskifjörður sagður sérlega erfiður viðureignar fyrir þá sem koma nýir inn. Hvar eru svo aðgerðirnar og hvar erum við að reyna að gera eitthvað í þessu?“ Einnig kemur fram í viðtölunum að á Héraði fari mikið eftir því úr hvaða dal menn séu hvernig litið er á þá, til dæmis með tilliti til greindar.

 Bíta á jaxlinn 

Kvennamenning á Austurlandi virðist í hnotskurn snúast um að sætta sig við það næst besta, að sögn Tinnu. Það hefur komið fram áður, m.a. í rannsókn á austfirskum fiskverkakonum frá 1997. Þær eiga það sammerkt að þegja, þrauka og þola og að kvarta ekki of mikið. ,,Niðurstaða þeirrar rannsóknar var að þessi afstaða stendur velferðarkerfinu að talsverðu leyti fyrir þrifum. Ef þú kvartar ekki upphátt og skapar engan þrýsting verða engar aðgerðir eða framþróun. Þetta virðist gegnumgangandi. Íslenskur valkyrjuháttur verður til þess að konur bíta á jaxlinn og þrauka, í staðinn fyrir að mynda þrýsting. Nægur vilji virðist vera fyrir að sjá betrun og bót á ýmsum sviðum samfélagsins, en lítið um aðgerðir. Við getum tekið sem dæmi að barneignarþjónusta hefur hér verið nánast eins í þrjátíu ár og séu konur í áhættuhóp þurfa þær að fara af svæðinu. Þegar hlutir verða persónulega pólitískir fyrir konum skortir aðgerðir. Þetta vil ég rannsaka frekar.“

 Ekki vendipunktur 

Tinna hugaði einnig í rannsókninni að áhrifum samfélagsbreytinga í kjölfar virkjunar og álvers á stöðu austfirskra kvenna. ,, Stóriðjuframkvæmdirnar virtust ekki vendipunktur fyrir konur og sköpuðu þeim ekki ný tækfæri. Auðvitað sáu þær miklar breytingar á samfélaginu og flestar jákvæðar. Þær tala um nútímavæðingu. En þegar spurt er hvað konur græddu á þessu verður fátt um svör og það er býsna sérstakt. Þær upplifðu ekki að fleiri atvinnutækifæri stæðu þeim til boða. Meiri vinna karla þýddi jú meiri fjölskyldutekjur en einnig mikla þenslu á fjölskylduböndin, því konur voru margar hálfgerðar grasekkjur meðan á uppsveiflunni stóð. Tvær kvennanna starfa við álverið en aðrir viðmælendur litu ekki á það sem atvinnukost.“

Tinna segir að fram hafi komið sú afstaða að samfélagsbreytingar á svæðinu, þ.e. fleira fólk, ný hús, útibú frá fyrirtækjum og fleira væri ekki til komið vegna virkjunar og álvers heldur fyrst og fremst vegna góðærisins í þjóðfélaginu. Það er raunar í takt við rannsókn Ásdísar Jónsdóttur frá árinu 2006, en þar kom einnig í ljós að fólk á Austurlandi var mjög hikandi við að lýsa sig andsnúið framkvæmdunum af ótta við að vera álitið óvinur Austurlands.

 Kynjahalli áberandi 

Tinna segir að staða kvenna á Austurlandi virðist vera nokkuð góð. ,,Þær eru bærilega ánægðar og flestar sáttar við að hafa valið sér búsetu hér. Þær sjá þó að hitt og annað má betur fara. Hins vegar er greinilegt að samþætting kynjasjónarmiða hefur farið fyrir ofan garð og neðan í austfirsku samfélagi. Það er að segja að við alla ákvörðunartöku og stefnumótun sé þess gætt sérstaklega að taka bæði kynjasjónarmiðin inn í og halla á hvorugt. Þetta virtist ekki vera nein meðvituð praktík og gæti útskýrt af hverju konum finnst þær ekki hafa fengið neitt út úr þessu. Auðvitað sýndi álverið ákveðið frumkvæði, en allt umhverfið þarf að vera með og kynjasamþætting á að koma í stjórnsýslunni og sjást í öllu.“ Hún tekur sem dæmi að það hvenær bæjarstjórnarfundir eru tímasettir geti valdið því að konur sækist ekki eftir þátttöku í sveitarstjórnum. ,,Þessir fundir eru kannski eftir vinnu þegar börnin eru komin heim. Það er bara ennþá þannig að konur bera meginþungann af heimilum. Svona einfaldir hlutir hafa áhrif. Svo virtist sem gera ætti jafnréttisátak á Fljótsdalshéraði, í það minnsta var vitnað í forsvarsmenn þar í skýrslum Háskólans á Akureyri um samfélagsleg áhrif virkjunar og stóriðju um að gera ætti sérstakt átak í uppbyggingu kvennastarfa. Ég hef ekki getað fundið neitt um að það hafi verið gert og þarf að kanna það nánar. Þannig var farið af stað með góðum vilja, svo fór allt á annan endann og ofboðslega mikið var að gera og þá gleymist að samþætta kynjasjónarmiðin. Þetta varð því allt karlmiðað og þeir virðast hafa fengið meira út úr þessu öllu efnahagslega og fleiri atvinnutækifæri en konur.“

Niðurstöður Önnu Karlsdóttur úr viðtölum við átján konur á Austurlandi leiða þetta sama í ljós;  að samþætting kynjasjónarmiða hefði engan veginn verið til staðar og að stóriðjuframkvæmdir væru ekki að breyta neinu markverðu fyrir konur á svæðinu.

Fróðlegt verður að fá nánari niðurstöður rannsókna Háskólans á Akureyri, en þar er nú tiltækt mikið magn gagna sem eftir er að greina enn frekar og verða væntanlega lögð í opinn gagnabanka í framtíðinni. Vonandi verða allar rannsóknir sem snúa að áhrifum virkjunar og stóriðju á Austurlandi gerðar aðgengilegar á einum stað þegar fram líða stundir.

  >>  Rannsókn á stöðu og viðhorfum kvenna á Austurlandi var unnin fyrir Tengslanet austfirskra kvenna. Þar koma fram niðurstöður á viðtalsrannsókn sem unnin var vorið 2009. Rætt var við austfirskar konur um fjölmarga þætti í nærsamfélagi þeirra og viðhorf þeirra og hugmyndir teknar saman.  - >> ,,Ung kona sem er nýflutt í fjórðunginn fór á bensínstöð til að pumpa í hjól sonar síns. Hún spurði á bensínstöðinni hvernig hún gæti farið að því, þar sem hún ætti enga pumpu. ,,Hér eiga allir sínar eigin pumpur“ sagði afgreiðslumaðurinn og bauðst ekki til að aðstoða frekar, svo sem eins og að lána henni sína pumpu. Þetta virðist vera málið – hver og einn bjargar sér sjálfur.“

-

Af gefnu tilefni er það tekið fram að þær niðurstöður sem koma fram í eigindlegri rannsókn meðal kvenna á Austurlandi endurspegla aðeins rödd þeirra þátttakenda sem þar tjá viðhorf sín, reynslu og skoðanir.  Þær rannsóknaraðferðir sem þar eru notaðar hafa takmarkað yfirfærslu og alhæfingargildi, þekkingin verður ætíð aðstæðubundin og brotakennd og enginn einn sannleikur er falinn í niðurstöðunum.  Um er að ræða veruleika, upplifun og skoðanir þeirra sem taka þátt og eru þar öll viðhorf og skoðanir jafnar því markmiðið er að fanga upplifun þátttakenda út frá þeirra eigin skilgreiningu á veruleika sínum.

Tinna Halldórsdóttir

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.