Hæfileikar verðmætasta eignin

,,Menn mega vara sig á að reka ekki hæfileikafólkið þrátt fyrir samdrátt, því hæfileikar eru verðmætasta eign okkar í kreppunni,“ segir Þorsteinn Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hann fjallaði um tækifæri í nýsköpun á Austurlandi í erindi á Egilsstöðum fyrir skömmu. Þorsteinn segir áhættufælni ekki eiga við á þessum tímum því áhætta sé drifkraftur. Vöruþróun megi ekki stöðvast því kreppan taki enda og lífið haldi áfram. Hann segir heldur ekki mega slaka á kröfum í umhverfismati þrátt fyrir tilhneygingu til að gefa lausan tauminn í þeim efnum. Útrásin þurfi að halda áfram og nýsköpun að vera lykilmarkmið.

nskpun.jpg

,,Finnið sérstöðu ykkar“ sagði Þorsteinn og telur tækifæri felast í fjarlægðinni frá kraftmiðju höfuðborgarsvæðisins. Dæmi um slík tækifæri felist í hafinu, landinu sem upplifun, landbúnaði , þekkingu og áli.

Undan Austurlandi eru einhver stærstu svæði Atlantshafsins með frumframleiðni á lífmassa. Gervitunglamyndir sýna mikla þéttni átu, hugsanlega um 120 milljónir tonna af kolefnisbindingu á ári. Rauðáta er til dæmis notuð í laxafóður í Noregi. Nýsköpunarmiðstöðin vinnur nú að því með Hafró og fyrirtæki í Reykjavík að gera út á þennan grunn fæðukeðjunnar í hafinu og veiða átu með ljóslöðun. ,,Ég held að uppsjávarbátarnir á Austfjörðum væru tilvaldir til að taka þátt í þessu verkefni.“

 

Þorsteinn vill láta stofna botnrannsóknastöð á Austfjörðum sem tengist rannsóknum og vinnslu á Drekasvæðinu. ,,Hún á að hafa miklu víðara hlutverk en olíu og gas, einnig námuvinnslu og umhverfismál. Ég myndi vilja að ríkisstjórnin helgaði hugsanlegar auðlindir sem finnast á Drekasvæðinu efnaiðnaði frekar en bruna í andrúmsloftinu. Þið standið næst þessari miklu auðlind sem hafið er. Lífmassinn, þar á meðal fiskurinn, og svo Drekasvæðið bjóða upp á mikil tækifæri.“

Þorsteini þykir skammarlegt að ekki sé hafin alvöru úrvinnsla málma á Íslandi. Reyðarfjörður ætti að virka sem segull fyrir málm- og efnistækni. Verðaukning í kílóverði frá álbarra til bara álvírs sé  hundrað til þúsundföld í unnu efni. ,,Við eigum að taka því vel að vera framleiðandi að allt að milljón tonnum áls á ári, en við eigum að vinna úr því hér. Til dæmis er núna komið kínverskt álmelmi í MP3 farsíma. Ætli kílóverðið þar sé ekki skárra en í börrunum?"

  

Fleiri dæmi um nýsköpunartækifæri á Austurlandi sagði Þorsteinn geta verið sagnahefð svæðisins,

endurheimt Eiða og uppbygging þar á vegum heimamanna, lífræn landbúnaðarframleiðsla og perlur hálendisins upp af Austurlandi. Þekkingin sé svo alltaf hin stórkostlega auðlind sem vaxi sé af henni tekið. ,,Þið eruð með Þekkingarnet  og þegar ég fór að grafa upp hvað væri gott og vel gert fyrir austan komst ég að því að Þekkingarnetið fær afar fína dóma.“ Hans segir mýmörg tækifæri felast í því sem nú er nefnt upplifunariðnaður. Undir þann hatt megi setja til dæmis arkitektúr og allar listir,  tölvur og leikir, hönnun, samskipti, ferðaþjónustu, fjölmiðlun, tísku og mat. Þorsteinn segir þennan iðnað eiga eftir að dafna. Austfirðingar ættu að taka hann upp á arma sína og þróa áfram.

    

Nýsköpunarmiðstöð opnar starfsstöð eystra síðsumars og verður hún staðsett innan Þróunarfélags Austurlands. Þar munu 2-3 starfsmenn starfa og nú er verið að vinna úr umsóknum.

 ---

Mynd:

Stefán Stefánsson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands og Þorsteinn Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands bera saman bækur./SÁ

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.