Hagfræðin með augum asna

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar um lífeyrissjóði:     Nú er mikið í umræðunni að erlendar eignir sjóðanna séu traustar og vel tryggar í hinum ýmsu fjárfestingasjóðum hingað og þangað um heiminn. Þá hafa  þeir sem fjárfesta ævisparnaði fólks helst einir á orði, þessa meintu gæfu og verðmæta sem þær eignir bera. Þegar innleysa á sparnaðinn tala þeir hins vegar um hversu erfiðlega gangi að losa þessar eignir vegna “markaðsaðstæðna” því lítið fáist fyrir þessar ,,mjög svo verðmætu” eignir við núverandi ástand því seljanleiki á mörkuðum sé lítill sem enginn.

Ástandið:

Framleiðsla og verðmætasköpun.

 

Algert hrun blasir við í framleiðslu í Asíu og talið er að ástandið þar verði litlu skárra en í bílaiðnaðnum. Engin treystir neinum þ.e. fyrirtæki sem voru með 60-90 daga krít hjá framleiðendum sem þeir höfðu skipt við til fjölda ára og áratuga þurfa nú að fyrirfram greiða vörur eða tryggja með himinháu álagi og okurvöxtum.

 

Þetta á ekki bara við um Ísland heldur alla heimsbyggðina.

 

Við erum fremst í skrúðgöngu alheims efnahagshrunsins.

 

Allstaðar blasir sama ástandið við. Olíutunnan komin undir 35 dollara,hrun á álverði og stálverði vegna þess að framleiðendur í Asíu sem og annars staðar í heiminum eru farnir að draga til baka fyrirframpantanir á hráefni og búa sig undir það versta. Framkvæmdir í Dubai hafa dregist gríðarlega saman og útlit fyrir samdrátt og frestun stórra verkefna, og þá er nú mikið sagt. Fraktskip heimsflotans sem áður voru yfir full eru farin að sigla á milli heimsins hafna hálf tóm. Svissneska bankakrefið er á barmi hruns með öllu tilheyrandi, og svo mætti lengi telja.

 

Áhrifa er farið að gæta á hruni bílaiðnaðarins svo um munar sem hefur svo dómínó áhrif út í aðra framleiðslu. Hættan á alheimskreppu er því mjög raunveruleg því þegar fjármagn til vörukaupa þrítur koma hin eiginlegu sýndarverðmæti bréfaeigna og peninga í ljós.

 

Ef spár ganga eftir mun vantraust jarðarbúa á banka og  fjármálakerfi heimsin verða algert og ekki var það nú mikið fyrir, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

 

Meðan á öllu þessu gengur prenta Bandaríkjamenn peninga eins og engin sé morgundagurinn, dæla þeir fjármagni í góðar og mis vonlausar peningahítur, til að halda uppi þegnum sínum á kostnað allra sem eiga undir með dollar. Því með hverjum prentuðum pening, rýrist verðgildi hinna sem fyrir eru í umferð “verðbólga” sem er þekkt fyrirbrigði á Íslandi svo ekki sé meira sagt.

 

Nýjasti björgunarpakki Bandaríkjamanna var uppá litla 90.000 milljarða og hvetja þeir bandaríska framleiðendur til að kaupa sem minnst af hráefni erlendis frá. Þeir sem hafa einhvern skilning á fjölda framleiðslu fjármagns vita að þessi leið er engu betri en að pissa í buxurnar til að halda á sér hita.

 

Hættan á þessu er sú að þegar markaðir á Asíu, sem eiga allt undir í framleiðslu, hrynja gæti dollarin þar af leiðandi hrunið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum því ekki hafa Kínverjar verið svo íkja hrifnir af Kananum nema þá helst vegna þeirra gríðarlegu viðskipta sem dollarinn færir þeim.

 

Hvað hefur allt þetta að gera með Lífeyrissjóði á Íslandi?

 

Þar sem hin eiginlega stoð pappírspeninga-og bréfa hagkerfisins þ.e.framleiðsla, verslun,vinnuframlag osfrv. Er að hruni komið um gjörvallan heim. Hljóta böndin að beinast að því sýndarveruleika hagkerfi sem trónir yfir hinni eiginlegu vermætasköpun. Ef rétt reynist þá er sú stoð eins og tannstöngull sem heldur uppi 40ft. gám miðað við stærð pappírspeninga-og bréfa hagkerfisins.

 

Ef framleiðslan á að vera þessi margfrægi gullfótur þessa sýndarmennskubrjálæðis þá væri nær að nota orð eins og líkþorn, í besta falli tánögl í því samhengi.

 

Hvað gerist þegar kemur að skuldardögum og innlausna þessara sýndareigna?

 

Á einhverjum tímapunkti þarf að núllstilla og leiðrétta þetta sýndarmennskubrjálæði sem pappírs- og bréfa hagkerfið er orðið. Hagkerfi sem er í raun ekkert annað en, þú skuldar mér og ég skulda þér, í formi samninga og bréfa sem einskis eru virði þegar á reynir.

 

Þegar hin raunverulega undirstaða lífsgæða og verðmætasköpunar er að hruni komin hljóta menn að spyrja hvað sé á bak við allar þessu gríðarlegu eignir sem hinir og þessir sjóðir eiga úti um allan heim. Þegar hrunið á hlutabréfum, sem eru hlutir í fyrirtækjum sem fyrir utan bankana eru þau einu sem skila einhverjum eiginlegum verðmætum eru ekki lengur verðmæt hversu mikil raunveruleg verðmæti eru þá eftir í sýndarveruleikahagkerfinu?

 

Eru Lífeyrissjóðirnir að “Brenna Inni” með eigur okkar og ævisparnað til að kaupa sér frið og tiltrú til að viðhalda því stöðuga valdalýðræði sem viðgengist hefur um áratuga skeið í kringum þessar peningahítar?

 

Er það sama að gerast með erlendar eigur sjóðanna, sem telja um 30% af uppsöfnuðum ævisparnaði okkar eða um 480 milljörðum króna, og gerðist þegar lífeyrissjóðirnir löggðu nær allt hlutafé sitt undir í fjármálasukk bankana með tilheyrandi óbjóði og töpuðu yfir 340 milljörðum  króna eða yfir 95% af öllu innlendu hlutafé “sparifé” launþega með því að veðja á rangan hest.

 

Veðmálin með íslensku krónuna kom svo endanlega í veg fyrir að gríðarlegur gengishagnaður innleystist við sölu erlendra eigna við fall fjármálakerfisins á Íslandi. Nú þegar stoðir fjármálakerfa annara landa eru að hruni komnar, verða erlendar eigur okkar líklega á endanum verðlausar ef ekki verður gripið til aðgerða strax.

 

Ætla sjóðirnir að halda í erlendar fjárfestingar sínar þar til þær verða verðmætar aftur?

 

Það gæti þýtt að falsávöxtun þessara eigna gæti “Ólíklega en hugsanlega” tekið mörg ár ef ekki áratugi að ná ofmetnu verðgildi sínu í dag á meðan þjóðinni blæðir.  

 

Hvert er raunvörulegt verðgildi innlendra og erlendra eigna lífeyrissjóðana?

 

Úr yfirlýsingu frá Landssamtökum Lífeyrissjóða:

“Tillögur um fyrirframgreiðslu á séreignarsparnaði þurfi að taka mið af því að ekki sé hægt að greiða séreignarsparnað út nema búið sé að selja verðbréf sem fjárfest hefur verið í. Til þess að hægt sé að selja fjárfestingar og breyta í laust fé þurfi einhver kaupandi að vera til staðar. Í dag sé seljanleiki á verðbréfamörkuðum lítill sem enginn og því verulegum vandkvæðum bundið að selja fjárfestingar sjóðanna.

Ef opnað er fyrir útgreiðslu á séreignarsparnaði án þess að hugað sé að því að breyta fjárfestingum í laust fé sé hætta á að fjárfestingar sjóðanna lækki, þó að ekki takist að selja nema lítinn hluta þeirra. Raunveruleg hætta sé á að eignaverð myndi lækka verulega og ekki væri hægt að greiða sjóðfélögum séreign sína út. Inneign allra sjóðfélaga myndi skerðast, óháð því hvort þeir óski eftir fyrirframgreiðslu.”

 

 

Úr grein eftir Arnald Loftsson, framkvæmdastjóra Frjálsa lífeyrissjóðsins, Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins,  Marinó Örn Tryggvason, forstöðumann eignastýringar fagfjárfesta hjá Kaupþingi og Tryggva Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Íslenska lífeyrissjóðsins.

Greinin birtist í morgunblaðinu 15 febrúar.2009

 

Þetta eru sömu mennirnir og segja okkur að tap lífeyrisjóðanna sé einungis 2,3% að nafnvirði.Meðan eignir gömlu bankanna teljast vera um 25% upp í skuldir. Hafa ofmetnar eignir þeirra því rýrnað um minnst 75%. Bankarnir voru helstu ráðgjafar lífeyrissjóðanna.

Hversu lengi eigum við að trúa og trúa ?

 

Hvað þarf að tapa miklu svo fólk átti sig á alvarleika málsins ?

 

Margt af því sem við erum mötuð á í dag er hafið yfir alla almenna skynsemi.

 

Af hverju í ósköpunum er fólki ekki gefið það lýðræðislega val að taka út séreignasparnað sinn sem bankar og lífeyrissjóðir tældu fólk í á forsendum sem eru löngu brostnar.

 

Það er með öllu óskiljanlegt hvað þessir menn geta gengið langt með því að skamta hluta af okkar eigin peningum með hægri, meðan þeir hirða uppsafnaða eign okkar í fasteignum með vinstri.  

 

Við eigum ekki að vera hrædd við að segja okkar skoðanir á hlutunum þó við þekkjum ekki málin í þaula eða teljum okkur ekki hafa menntun til.

 

Ef höfum raunverulegan skilning á því hversu mikið við fáum fyrir íslenskan 5.000 krónur seðil þá er það eitt og sér er nægjanleg prófgráða til að hafa eitthvað um málin að segja. Þessi grunn þekking er ekki til staðar hjá mörgum sem allt þykjast vita um eiginleg verðmæti.

 

Horfum á hlutina út frá frjálsri hugsun og raunverulegum gildum og látum ekki völd fárra villa okkur af leið með bóklærðum útúrsnúningum og talnafléttum.

 

Guð blessi Ísland og ekki veitir af.

 

Ragnar Þór Ingólfsson

Er asni sem enga prófgráðu hefur en með kjánaskap sínum gleypir ekki við öllu sem forstjórarnir segja.

http://ragnar73.blog.is

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.