Göngum hægt um gleðinnar dyr

Framundan eru kosningar til sveitarstjórna. Sem vænta má reyna framboð og frambjóðendur að bjóða betri kost en verið hefur. Í góðri trú eða fyrir athyglina. Fram koma yfirlýsingar og loforð um að „gera enn betur“ . „Bæta í hér og þar“, með auknum útgjöldum. Fullyrt er að, „ lítið eða ekkert hafi verið framkvæmt eða gert“. Fjármögnun er lítið rædd. „Skuldir hafi verið greiddar helst til hratt niður“. „Svigrúm sé til lántöku þar sem skuldir séu innan við leyfilegt hámark“.

Á undanförnum árum hefur fjárhagur Seyðisfjarðarkaupstaðar verið byggður upp. Það er grundvöllur þess að hægt sé að veita góða þjónustu og bæta búsetuskilyrði. Með því endurheimti kaupstaðurinn traust.

Traust lánveitenda til Seyðisfjarðarkaupstaðar árið 2011 hafði rýrnað verulega. Skuldir námu rúmlega tvöföldum tekjum. Ekki var hægt að standa skil á afborgunum lána né taka ný. Fjármagnskostnaður var mjög mikill. Þetta var alvarleg staða og stutt í aðgerðir af hálfu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga meðal annars að kaupstaðnum yrði skipuð fjárhaldsstjórn.

Samkvæmt skuldaviðmiðum sveitarstjórnarlaga mega sveitarfélög að hámarki skulda 150% af tekjum.

Um árabil fram til 2011 hafði rekstur kaupstaðarins verið þungur. Um það bil helmingur skulda var tilkominn vegna rekstrarhalla. Það er dýr skuldsetning.

Á þessum vanda tók meirihluti bæjarstjórnar þess kjörtímabils og reyndar var mjög góð samstaða allrar bæjarstjórnar um þær aðgerðir sem grípa þurfti til. Þjónusta sem kaupstaðurinn veitir íbúum var varin og varkárni viðhöfð við endurskoðun þjónustugjalda. Því átaki fylgdi bæjarstjórn samhent eftir á kjörtímabilinu sem er að líða.

Á næsta kjörtímabili viljum við frambjóðendur á B-lista Framsóknarfélags Seyðisfjarðar og frjálslyndra halda áfram á sömu braut. Við viljum tryggja áfram trausta og ábyrga fjármálastjórn sem er grunnur að góðri þjónustu og uppbyggingu í kaupstaðnum.

Á síðasta ári var afkoma samstæðuársreiknings Seyðisfjarðarkaupstaðar jákvæð um rúmlega 120 milljónir króna. Samkvæmt 64. grein sveitastjórnarlaga skulu samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A og B-hluta á hverju þriggja ára tímabili ekki vera hærri en samanlagðar reglulegar tekjur. Samanlögð rekstrarniðurstaða hjá kaupstaðnum er jákvæð sem nemur 236,3 milljónum króna á árunum 2015–2017.

Á síðasta ári var veltufé frá rekstri jákvætt um rúmar 209 milljónir króna. Veltufé frá rekstri sýnir þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar þegar kostnaður hefur verið greiddur og leiðrétt fyrir reiknuðum liðum eins og verðbótum og afskriftum.

Heildarfjárfestingar á kjörtímabilinu nema um 280 milljónum króna á verðlagi hvers árs. Allar fjárfestingar á þessum tíma voru fjármagnaðar af eigið fé kaupstaðarins án lántöku.

Á sama tíma voru greidd langtímalán og skuldbindingar fyrir um 450 milljónir króna. Skuldahlutfall sem árið 2011 var vel yfir 200% er komið í 108% í árslok 2017.

Árangurinn er greinilegur og því ástæða til bjartsýni á komandi árum. Íbúum fjölgar og almennt ríkir jákvæðni meðal íbúa.

Seyðisfjarðarkaupstaður hefur endurheimt lánstraust

Í vor var tekið lán til uppgjörs vegna samkomulags við Brú lífeyrissjóð með 2,6% vöxtum sem er með því lægsta sem þekkist hjá sveitarfélögum. Gott lánstraust og lágir vextir eru meðal annars vegna þess trausts sem kaupstaðurinn hefur endurheimt með viðsnúningi í rekstri kaupstaðarins, lækkun skulda og að staðið hefur verið við áætlanir og afborganir af lánum og skuldbindingum.

Með áframhaldandi lækkun skulda verða til auknir fjármunir til framkvæmda og fjárfestinga í stað þess að þeir gangi til greiðslu vaxta og verðbóta. Þeim góða árangri sem náðst hefur með samstarfi kjörinna fulltrúa og starfsfólks kaupstaðarins teljum við á B-lista Framsóknarfélags Seyðisfjarðar og frjálslyndra vænlegast að fylgja eftir. Það er með ábyrgri fjármálastjórn og endurheimtu trausti til kaupstaðarins til sóknar sem gerir Seyðisfjörð að enn betri og eftirsóttari búsetukosti.

Settu X við B þann 26. maí næstkomandi
Höfundur er bæjarstjóri og oddviti B-lista Framsóknarfélags Seyðisfjarðar og frjálslyndra.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar