Gönguleiðir makríls rannsakaðar

Fjögur íslensk tog- og nótaskip hafa undanfarna daga tekið þátt í makrílrannsóknum fyrir Austur- og Suðausturlandi sem skipulagðar eru af Hafrannsóknastofnun. Meðal skipanna er Ingunn AK, sem HB Grandi gerir út, og lauk skipið yfirferð sinni í nótt sem leið að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda.

makrill.jpg

Á vef HB Granda segir að alls hafi áhöfnin á Ingunni tekið átta klukkutíma löng tog nyrst á fyrirframgreindu rannsóknasvæði út af Austfjörðum. Að sögn Vilhjálms varð vart við makríl á nokkrum togstöðvanna auk þess sem nokkur tonn af blandaðri síld komu upp en þar var um að ræða íslenska sumargotssíld og norsk-íslenska vorgotssíld sem héldu sig á sömu togslóðinni. Auk Ingunnar hafa Hoffell SU, Kap VE og Sighvatur Bjarnason VE tekið þátt í þessum rannsóknum.

  

Samkvæmt lýsingu á rannsóknaverkefninu er markmiðið að fylgjast með því hve makríll dvelur lengi í íslenskri lögsögu á haustin og fylgjast með gönguleiðum hans þegar hann dregur sig til baka á vetursetustöðvarnar í Norðursjó og norðan og vestan Bretlandseyja. Svæðið, sem valið var til rannsóknanna, nær frá landgrunninu fyrir Austur- og Suðausturlandi að mörkum landhelginnar milli 65°30’N og 63°00’N. Líklegt er talið að um þetta svæði muni makríllinn, sem gengið hefur inn á miðin fyrir Suðvestur-, Suður-, Austur- og Norðausturlandi í sumar, ganga er hann hverfur af Íslandsmiðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.