Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan í sögu íslensks lýðveldis

Mér finnst að íslenska þjóðin eigi að fá að segja álit sitt á sem flestum málum og vonandi verður raunin sú þegar rafrænar leiðir til þess verða almennt viðurkenndar.  Með því að nýta tæknina spörum við tíma og peninga og getum oftar leitað álits þjóðarinnar á hvers kyns málum.

 

ImageMér finnst að íslenska þjóðin eigi að fá að segja álit sitt á sem flestum málum og vonandi verður raunin sú þegar rafrænar leiðir til þess verða almennt viðurkenndar.  Með því að nýta tæknina spörum við tíma og peninga og getum oftar leitað álits þjóðarinnar á hvers kyns málum.

Á laugardaginn er fyrirhuguð fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla í sögu lýðveldisins – hún snýst um það hvort samþykkja skuli Icesavefrumvarpið síðara sem felur í sér samning við Breta og Hollendinga sem hafa nú þegar lagt út fyrir lágmarkstryggingu (rúmar 22 000 evrur) hvers Icesavereiknings í löndunum tveimur.  Á þessu láni eru tiltekin tímamörk og umsamið vaxtastig.  Nú er vonandi að nást samkomulag um lækkun á vaxtastiginu og  að fyrstu árin verði vaxtalaus og er það svo sannarlega gott – heildarkostnaður okkar gæti minnkað um tæpa 100 milljarða.

Ég var búin að sætta mig þau kjör sem buðust í júní – hef alltaf verið viss um að við ættum sem siðmenntuð þjóð í samfélagi þjóða að greiða lágmarkstryggingu fyrir hvern Icesavereikning – fyrir því áttum við ekki svo við urðum að taka lán og auðvitað þurftu lánadrottnar okkar að fá einhverja þóknun fyrir.  Með breiðri pólitískri samstöðu er vonandi að takast að lágmarka þá þóknun.

Á sama tíma og þessi árangur er að nást erum við að fara að greiða atkvæði um samning sem heyrir nú sennilega sögunni til.

Mér finnst það þyngra en tárum taki að slíkur orðhengilsháttur verði það sem fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla í íslenskri lýðveldissögu snúist um. Þjóðin mín á skilið að fá að greiða atkvæði um alvöru mál en ekki úreltan samning, ég vildi að þær milljónir sem þessi atkvæðagreiðsla kostar færu í að hanna rafrænt kerfi þar sem leita mætti skoðunar þjóðarinnar reglulega á hvers kyns málum sem þjóð, þing og ríkisstjórn gætu ákveðið.

Erum við farin að lifa í ævintýraheimi svipuðum þeim sem viðgengst í Nýju fötum keisarans?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.